Svavar Alfreð Jónsson

Ég er sóknarprestur í Akureyrarkirkju, eiginmaður og faðir þriggja uppkominna barna. Ég hef haldið úti bloggi frá árinu 2007.

Mér finnst gott að lesa. Ég skrifa prédikanir, pistla, ljóð og sögur. Fátt geri ég skemmtilegra en að elda mat og neyta hans í samfélagi góðra vina. Eina matreiðslubók hef ég skrifað. Tónlist er mjög mikilvægt krydd í lífi mínu. Ferðalög elska ég og hef sérstakt dálæti á Ítalíu og Hornströndum. Myndavélina mína tek ég með í ferðir þangað með því mér finnst gaman að taka myndir. 

Ég er hlynntur frjálslyndu þjóðfélagi þar sem reynt er að gera borgurunum kleift að lifa því lífi sem þeir telja réttast og best án þess að það bitni á möguleikum annarra til þess sama. Hverri manneskju er eitthvað gefið og hún á að fá að njóta þess. Þó er enginn maður eyland. Við erum öll hvert öðru háð og þurfum að hjálpast að. 

Umhverfismálin tel ég vera eitt brýnasta viðfangsefni mannkynsins. Mér finnst líka mikilvægt að eyða því hrópandi ranglæti að fátækari meirihluti jarðarbúa svelti á meðan ríkari minnihlutinn lifir í ofgnóttum. Skefjalaus neysluhyggja á stóran þátt í báðum þessum vandamálum.

Maðurinn er að mínu mati andleg vera. Einn vandi manna er að þeir sinna ekki nægilega sínum andlegu þörfum. Þótt ég sé kristinnar trúar ber ég mikla virðingu fyrir andlegum verðmætum annarra trúarbragða. Margt hef ég lært af þeim sem hugsa öðruvísi en ég. Guði sé lof fyrir fjölbreytnina. Hjarðhegðun og múgmennska geta verið mjög hættuleg fyrirbæri.
 

Hafðu samband

Email: svavaralfred@gmail.com
Hér er ég líka: Facebook / 500px / Gamla bloggið mitt