Að stíga til hliðar

03/15/2019

Á Íslandi er oft kvartað undan því að stjórnmálafólk sé tregt til að segja af sér. Ein sérkenni íslenskrar stjórnmálamenningar eru sögð þau, að þar séu afsagnir afar fátíðar miðað við það sem tíðkast í nágrannalöndum. Hér hangi valdafólk á embættum eins og hundur á roði.

Nú hefur það sjaldgæfa gerst, að stjórnmálamaður ákvað að segja af sér eftir mikinn og langvarandi þrýsting. Mörgum þótti afsögnin tímabær eða koma of seint. Viðbrögðin við ákvörðuninni voru að sumu leyti fyrirsjáanleg en ýmislegt kom mér á óvart. Mér þótti til dæmis áhugavert hvað orðalagið sem ráðherran notaði um brotthvarf sitt úr embætti fór í taugarnar á mörgum. Hún talaði um að "stíga til hliðar". Það orðfæri er engin nýlunda í slíkum aðstæðum og hefur á síðustu misserum iðulega verið notað af fólki úr öllum flokkum um fólk úr öllum stéttum sem hefur látið af störfum, vikið úr embættum eða sagt af sér tímabundið eða endanlega. Hin alvitri Gúgull getur sannfært þau sem efast um það.

Mér finnst að mörgu leyti gegnsætt og manneskjulegt að tala um að stjórnmálamaður stígi til hliðar þegar hann segir af sér embætti. Þá kemst vel til skila, að verið sé að hverfa frá tilteknu verkefni til að hleypa öðrum að, sem eru betur færir um að vinna verkið og leysa vandann.

Ef til vill er ein skýringin á því hversu íslenskir stjórnmálamenn eru tregir til að segja af sér sú að þeim finnist það skammarlegt og niðurlægjandi. Þeim kúltúr þarf að breyta. Öllum getur orðið á. Engum á að vera til minnkunar að horfast í augu við mistök sín og taka afleiðingum þeirra. Ég vil hafa hér stjórnmálamenn sem taka hagsmuni almennings fram yfir eigin frama og þora að viðurkenna, að stundum getur verið í þágu skjólstæðinga, að þeir stígi til hliðar til að aðrir komist að sem eru af einhverjum ástæðum hæfari til þjónustunnar.

Sögu heyrði ég af frægum sérleyfishafa, sem spurði alltaf menn sem vildu gerast bílstjórar hjá honum hvort þeir hefðu keyrt út af í hálku. Ef þeir kváðu já við voru þeir ráðnir en hinir ekki. Rökin fyrir því voru þau að meiri líkur væru á því að þeir sem lent hefðu í óhöppum í hálku gerðu sér grein fyrir háska slíkra aksturskilyrða.

Séu þessar röksemdir heimfærðar upp á stjórnmálamenn má reikna þeim það mjög til tekna, hafi þeir lent í þeim aðstæðum, að þurfa að stíga til hliðar eða "segja af sér", ef menn vilja nota það orðalag frekar.

Í umræðu síðustu daga hefur stundum komið fram það viðhorf, að óhjákvæmilegt sé að velta stjórnmálamönnum sem ákveða að segja af sér upp úr tjöru og fiðri. Þeir eigi helst ekki að eiga afturkvæmt í pólitík. Því er ég ósammála. Ég held að við þurfum að skapa hér stjórnmálamenningu þar sem það þarf ekki að vera hneisa eða kalla á opinberar niðurlægingar og smánanir, að viðurkenna mistök sín eða vanhæfi.

Þvert á móti er ég eindregið þeirrar skoðunar að mikill fengur geti verið í stjórnmálamönnum, sem hafa þá dýrmætu reynslu að hafa þorað að víkja sjálfum sér til hliðar í því skyni að þjóðþrifamál næðu fram að ganga.

Myndina tók ég í síðustu viku fyrir framan listasafnið Voorlinden í Hollandi. Þar skoðaði ég meðal annars verk eftir fjöllistamanninn og boxarann Armando, sem lést í fyrra. Höggmyndin stendur við inngang safnsins.