Aðild að Evrópusambandinu?

09/18/2021

Samkvæmt nýlegri könnun Maskínu eru íslenskir kjósendur ekki mikið að velta fyrir sér aðild að Evrópusambandinu þegar þeir greiða atkvæði í kosningum til Alþingis næstu helgi. Langflestir eða tæplega 70% kjósenda telja heilbrigðiskerfið helsta kosningamálið, rúmlega 40% töldu það vera loftslags- og umhverfismál og einn þriðji þeirra segja efnahags- og skattamál mikilvægust í kosningunum. Alþjóða- og gjaldmiðilsmál eru mjög neðarlega á listanum yfir það sem helst brennur á íslenskum kjósendum að þessu sinni. Einungis tæp 5% þeirra nefndu þau.

Þessi litli minnihluti á sér þó kraftmikla rödd og eins og til dæmis má sjá í öllum greinunum sem Fréttablaðið birtir þessa dagana um þetta tiltekna málefni. Í nýlegum leiðara þar er bent á nauðsyn þess að baráttufólk fyrir aðild Íslands að ESB héldi "stjórn á umræðunni" eins og það er orðað.

Nú má leggja allskonar skilning í hvað átt er við með því að stjórna umræðu en fjölmiðlar vilja án efa upplýsa fólk um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu og hinar ýmsu skoðanir sem menn hafa á henni. Tæplega er þó um hitamál að ræða í þessum kosningum þótt rýmið sem það fær í sumum fjölmiðlum bendi í aðrar áttir.

Ekki er síður mikilvægt að fjölmiðlar geri fólki grein fyrir eðli aðildarviðræðna. Þeim hefur gjarnan verið stillt þannig upp að þar sé einungis verið að kanna hvað okkur Íslendingum standi til boða og hvort unnt sé að komast hjá því að taka upp þá hluta af reglusafni ESB sem ekki henta okkur eða þykja jafnvel óaðgengilegir. Það komi ekki í ljós fyrr en samningur liggi á borðinu sem þjóðin geti síðan samþykkt eða hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fyrst ekki sé látið á það reyna og sótt um aðild að Evrópusambandinu sé því verið að hafa af þjóðinni tækifæri til að taka upplýsta afstöðu í þessu máli.

Á sínum tíma þótti mér þessi útgáfa af því sem gerist í aðildarferlinu ekki alveg ríma við lýsingu Evrópusambandsins sjálfs á því. Þess vegna sendi ég haustið 2016 upplýsingaveitu sambandsins, Europe Direct, svohljóðandi fyrirspurn:

"When a country decides to apply for a membership to EU, does the EU consider such an application either as

1) an inquiry without any obligation where the options available to the candidate country are explored and possible exemptions from unfavorable parts of EU-legislation found or

2) a statement of the applicants desire to join the EU according to legitimate procedures for accession?"

Eftir tíu daga barst mjög greinargott svar frá Evrópusambandinu og finnst mér við hæfi að rifja það upp hér og nú, bæði fyrir þessi umræddu 5% kjósenda og okkur hin.

"Article 49 of the Treaty on European Union states that any European country may apply for membership if it respects the democratic values of the EU and is committed to promoting them. When a country applies to join the EU, the Member States' governments, represented in the Council, first decide whether or not to accept the application. The Member States then decide, on the basis of an opinion from the European Commission, whether to grant candidate status to the applicant as well as to open accession negotiations. Then the Member States decide if, when and on what terms to open and to close negotiations with the candidate on each policy area, in the light of recommendations from the Commission. The EU rules as such (also known as the acquis) are not negotiable; they must be transposed and implemented by the candidate. Accession negotiations are essentially a matter of agreeing on how and when the candidate will adopt and effectively implement all the EU rules and procedures. Accession negotiations focus on the conditions and timing of the candidate's adoption, implementation and application of the existing EU laws and rules. Please note the EU operates comprehensive approval procedures that ensure new members are admitted only when they can demonstrate they will be able to play their part fully as members, namely by: complying with all the EU´s standards and rules, having the consent of the EU institutions and EU member states and having the consent of their citizens - as expressed through approval in their national parliament or by referendum."

(Feitletranir eru mínar)

Myndina tók ég sumarið 2019 á einum fjölmargra uppáhaldsstaða minna í Evrópu. Þótt ég hafi efasemdir um að á þessum tímapunkti sé skynsamlegt fyrir okkur Íslendinga að sækja um aðild að Evrópusambandinu er ég hvorki andstæðingur sambandsins né álfunnar. Þvert á móti elska ég Evrópu, sæki mér menntun þangað og nýt evrópskrar menningar. Evrópa er mín heimaálfa og þar finnst mér gott og gaman að vera.