Afhjúpun tískudólgs

05/15/2019


Konan mín settist á móti mér og horfði á mig tárvotum augum. Bænin var sögð svo lágum rómi að hún hljómaði sem skipun:

"Elskan mín, ekki fara aftur í leikfimi í þessum buxum."

Buxurnar fann hún í óhreinatauskörfunni innan um önnur leikfimiföt, strandbuxur með skálmum niður undir hné. Ég hafði keypt þær um sumarið, skræpóttustu buxurnar á Adríahafsströnd Ítalíu, í þeirri von að þær leiddu athyglina frá næpuhvítasta manninum á sömu strandlengju.

Nokkrum mánuðum eftir sumarfríið fann ég engar stuttbuxur þegar ég ætlaði í karlaleikfimina svo ég greip þær ítölsku.

Ég lofaði að gera það aldrei aftur.

Fimm vikur liðu og ég lenti í sama stuttbuxnahallærinu. Nú myndi ég þvo ítölsku strandbuxurnar strax eftir leikfimina til að ekkert fattaðist.

Í upphafi tímans tilkynnti íþróttakennarinn að bæjarsjónvarpið ætlaði að mæta á staðinn og mynda. Hefði einhver á móti því?

Ég þorði ekki að segja neitt.

Sennilega hefði ég komist upp með þetta ef móðir mín hefði ekki álpast til að horfa á fréttir bæjarsjónvarpsins - og ef konan mín hefði ekki ansað þegar hún hringdi.

Stuttu síðar sátu báðar helstu konurnar í lífi mínu á móti mér.

Hvorug talaði tiltakanlega lágt enda hafði ég ekki heldur fundið hreina íþróttasokka og fullkomnað glæpinn með biksvörtum uppháum nælonsokkum.

Myndin er af sokkalausum tám tískudólgsins á Adríahafsströnd Ítalíu nokkru eftir hin örlagaríku stuttbuxnakaup. Pistillinn birtist upphaflega í blaðinu Norðurland.