Annaðhvort eða

08/12/2019

Þessa dagana er mikið er um að vera á landinu okkar. Hérna fyrir norðan bjóða Dalvíkingar til hins árlega Fiskidags af mikill rausn. Frammi í firði er efnt til heilmikillar handverkshátíðar. Þá standa ennfremur yfir Hinsegin dagar og fyrir sunnan halda samtök grænkera á Íslandi Veganhátíð.

Þótt þessar hátíðir séu allar af ólíkum toga eiga þær ýmislegt sameiginlegt. Hver þeirra birtir ákveðna hugmyndafræði og endurspeglar ákveðin lífsviðhorf. Dalvíkingar hafa frá upphafi skipulagt sína hátíð þannig að gestir hafa ekki þurft að taka upp veskin til að njóta þess sem þar er í boði. Auk þess minnir Fiskidagurinn mikli okkur á gildi sjávarútvegs fyrir landsmenn. Handverkshátíðin snýst um hinn skapandi mátt og þjóðlegar hefðir. Hinsegin dagar upphefja fjölbreytileikann og flytja okkur þann þarfa boðskap að ekki fæðist allir í þennan heim með sömu kynhneigðir. Veganhátíðin segir okkur að fólk geti haft mismunandi viðhorf til þess hvernig það nærir sig og er okkur mikilvæg áminning um að hver máltíð sé siðferðileg athöfn.

Þessar hátíðir og dagar ásamt öðrum á öðrum tímum ársins sýna okkur að samfélagið verður sífellt fjölbreytilegra. Hér eru til dæmis ekki lengur bara konur sem giftast körlum eða karlar sem kvænast konum. Nú geta karlar gifst körlum og konur konum og ekki einfaldar það málið, að nú er körlum sem eitt sinn voru konur kleift að giftast konum sem voru eitt sinn karlar - svo nokkrir möguleikar séu nefndir.

Til að auka flækjustigið enn hefur kynjunum fjölgað.

Nú er ekki lengur bara eitt í boði og heldur ekki bara tvennt. Heimurinn okkar verður sífellt fjölbreytilegri, litskrúðugri og flóknari. Útlendingum fjölgar á Íslandi eins og í öðrum löndum. Vinur minn einn úr stétt eldri borgara lenti í því um daginn að hann fór á veitingastað á Íslandi þar sem enginn talaði íslensku. Á sama tíma var vinkona hans að fá sér að borða suður á Tenerife og gat gert sig skiljanlega við þarlendan þjón á því ástkæra ylhýra.

Flest tökum við þessum fjölbreytileika fagnandi. Fólk úr fjarlægum löndum sem kýs að setjast að á Íslandi og gerast Íslendingar flytur með sér nýja menningu, siði og viðhorf. Það auðgar samfélag okkar og bætir eins og mýmörg dæmi sýna. Guði blessi það dýrmæta framlag til að gera þjóðlífið skemmtilegra og bæði meira gefandi og spennandi.

Þessi framgangur og vöxtur fjölbreytileikans virðist þó ekki ná fram að ganga á öllum sviðum. Um leið og samfélögin verða stöðugt fjölþættari virðist gagnstæð þróun í gangi í umræðu og skoðanaskiptum í samfélaginu. Þau virðast að mörgu leyti verða sífellt öfgafyllri og hverfast um tvo póla yst á hvorum jaðri viðhorfa. Umræðan er svarthvít. Þar eru engir grátónar. Hún er annaðhvort eða. Átökin í þjóðfélaginu eru persónugerð í stað þess að reyna að gera grein fyrir hugmyndafræðilegum ágreiningi.

"Steinunn Ólína tætir Katrínu Jakobs í sig", var fyrirsögn sem ég las með morgunkaffinu í nýliðinni viku á íslenskum vefmiðli. "Kári Stefánsson tætir Sigmund Davíð í sig","Sigmundur Davíð slær til baka", "Ásta er reið" og "Fréttablaðið hjólar í Má Guðmundsson" voru aðrar fyrirsagnir sem ég las með sama kaffibollanum á þeim sama miðli.

Fjölmiðlar hér á landi eru uppfullir af bálreiðum manneskjum sem lesa fólki pistilinn, tæta það í sig, hjóla í það, fordæma, skamma og slá til baka. Keppst er við að sannfæra okkur um að ekki séu nema tvær hliðar á málunum, annaðhvort sé menn með eða á móti og eigi að draga fólk í dilka séu ekki nema tveir í boði: Annaðhvort ertu hlynntur meðgöngurofi eða þú ert alfarið á móti fóstureyðingum. Þú getur verið fylgismaður aðildar að Evrópusambandinu en sértu það ekki ertu ekki bara á móti slíkri aðild, þú ert andstæðingur álfunnar og alþjóðlegrar samvinnu. Ef þú telur að tjáningarfrelsinu fylgi ábyrgð og því megi í vissum tilvikum setja ákveðnar skorður ertu þar með orðinn svarinn óvinur frjálsrar tjáningar og mannréttinda.

Í um það bil sjötíu ára gamalli grein eftir Pálma Hannesson, rektor Menntaskólans í Reykjavík, segir:

"Stjórnmálaerjur eru almannaskemmtun hér á landi, nokkurs konar þjóðaríþrótt, sem allir verða að stunda, annaðhvort sem keppendur eða áhorfendur, ef þeir vilja teljast menn með mönnum. Fjórða hvert ár eru svo haldin allsherjarmót, þar sem menn og flokkar etja kappi. Vitanlega þurfa höfuðkempurnar að temja sér íþróttina til hlítar, enda verða sumar þeirra ótrúlega leiknar. En allir þorrinn kemur til mótsins, hver einn keifandi með sinn pinkil af andúð, er hann steypir í hinn sameiginlega soðketil haturs og æsinga, sem lengi kraumar í síðan, svo að andrúmsloftið yfir blessuðu landinu er sem blandið eitraðri svælu úlfúðar, tortryggni og getsaka."

Rök má færa fyrir því, að lítið hafi breyst hér á þeim sjötíu árum síðan þessi orð voru rituð og umræðumenningin margumtalaða hafi síst lagast. 

Það sem hefur á hinn bóginn breyst er að þjóðfélagið er orðið fjölbreyttara, viðhorfin margvíslegri og menningin litskrúðugri. Okkur ætti því að vera betur ljóst nú en þá að hvert mál á sér margar hliðar og viðhorf geta verið í öllum regnbogans litum.

Myndina tók ég nýlega í Riomaggiore í Cinque Terre á Ítalíu.