Ástin drepur

08/30/2019



Ástin er sterkt afl. Hún stjórnar miklu og kemur ýmsu til leiðar. Hún hefur ýmist orðið til hinnar mestu hamingju eða valdið sárum þjáningum. Ástin getur verið það öflugt fyrirbæri í lífi manna að hún tekur af þeim stjórnina yfir því. Sterkustu persónuleikar, konur jafnt sem karlar, geta orðið viljalausir og stefnulausir í kröftugum hrömmum ástarinnar. "Too much love will kill you" söng Freddie Mercury um árið með hljómsveit sinni Queen. Ástin, eins yndisleg og hún er, getur eyðilagt lífið fyrir fólki og lagt það að velli.

Ég hef stundum velt fyrir mér orðalaginu á hjónavígsluspurningunum þegar ástfangin pör ganga upp að ölturum kirknanna og heita hvort öðru trúnaði og tryggð og samfylgd lífið á enda. Þá er spurt hvort fólk "vilji" elska og gengið út frá því að ástin sé að einhverju leyti undir stjórn viljans og fólk geti ákveðið hvort það elski eða ekki.

Þótt manneskjan geti verið leiksoppur eigin tilfinninga er viljinn vanmetið fyrirbæri. Viljinn stjórnar okkur meira en við gerum okkur grein fyrir. Við þekkjum þá gömu speki að við heyrum það sem við viljum heyra. Sú kenning er ein forsenda auglýsingasálfræði nútímans. Þess vegna er auðveldara að fá fólk til að halda tryggð við vörumerki en að láta það prófa ný. Við viljum síður taka sénsa, við höfum tilhneigingu til að loka eyrunum fyrir því sem raskar heimsmynd okkar, gildismati og þankagangi því ef við þurfum að fara endurskoða það hefur það í för með sér allskonar vesen.

Þess vegna hlustum við meðvitað og ómeðvitað best á það sem staðfestir okkur í okkar skoðunum og gildismati og lætur heimsmynd okkar standa óhaggaða. Þetta er ástæða þess að vinstri menn forðast að lesa Moggann nema með logsuðugleraugum og aðdáendur Evrópusambandsins klæða sig í latexhanska áður en þeir fletta Bændablaðinu. Við viljum helst sjá það sem er eins og talað úr okkar eigin hjarta og frá okkar eigin nýrum. Við lesum statusa eftir fólk sem hefur sömu skoðanir og við og lækum þá óspart en skrollum yfir hin sem eru okkur ósammála. Lífið utan bergmálshellisins margfræga getur verið ónotalegt.

Nýlega sá ég viðtal við vísindamann sem var að tala um loftslagsvandann. Hann sagði að vísindin gætu vissulega fundið nýja og umhverfisvænni orkugjafa fyrir okkur og lagt sitt af mörkum til að bjarga þessari jörð en til að það tækist þyrfti meira. Það þyrfti viðhorfsbreytingu og slíkar breytingar væru ekki sérgrein raunvísinda.

Við þurfum að endurskoða gildismat okkar og ganga af þeirri trú, sem búið er að keppast við að innræta okkur án afláts síðustu áratugina, að hamingjan sé fólgin í því að neyta sem mests af því sem jörðin gefur af sér. Það er vinsælt að gagnrýna trúarbrögðin og sumt af þeirri gagnrýni á vissulega rétt á sér en engu að síður er það sameiginlegur boðskapur allra helstu trúarbragða heimsins að hamingjan sé andlegs eðlis. Efnisleg gæði gefa ekki raunverulega hamingju. Nú er lífsspursmál fyrir okkur að hneigja eyru okkar að þeim sannindum.

Við þurfum að endurskoða hvað við elskum. Við þurfum að spyrja okkur sömu spurningar og brúðhjónin heyra við altarið: Hvað viljum við elska? Hvað viljum við láta stjórna lífi okkar? Að hverju viljum við stefna? Eftir hvaða leiðum viljum við freista þess að finna hamingjuna?

Ef við eigum að bjarga jörðinni þurfum við að hætta að elska það sem við höfum elskað og læra að elska upp á nýtt. Við þurfum að breyta hugsunarhætti okkar, verðmætamati og lífsháttum.

Það sem við höfum elskað hefur ekki veitt okkur sanna hamingju. Það sem við höfum elskað hefur þvert á móti stækkað tómarúmið inni í okkur og gert okkur óseðjandi. Það sem við höfum elskað er að drepa okkur.

Myndina tók ég á sumar í þeim dýrðarstað Tálknafirði.