Átak gegn kulnun og streitu
Kulnun í starfi og sjúkleg streita eru vaxandi vandamál á Íslandi. Heilsubrestur vegna álags virðist algengari en áður. Kulnun herjar helst á þau sem vinna við að annast annað fólk með einhverjum hætti og getur lýst sér í tilfinningarlegri örmögnun, skertri starfsgetu og minnkandi samkennd með skjólstæðingum. Kulnun bitnar á starfsfólki sem fyrir henni verða, þeim sem njóta þjónustu þess og stofnunum og fyrirtækjum sem veita þjónustuna.
Margir velta fyrir sér hvort þessi vandi stafi af því að álagsþáttum í samskiptum eða streituvöldum í tæknivæddu samfélagi hafi fjölgað. Best er að beita forvörnum til að koma í veg fyrir skaða sem kulnun og streita getur valdið. Þegar rafhlöðurnar tæmast vegna álags í starfi eru ýmsar leiðir til að hlaða þær á ný. Andleg og trúarleg iðkun er ein leið til að kyrra hugann, bæta geðheilsuna og laga samskiptavanda.
Helgina 1. og 2. desember verður í Akureyrarkirkju átak gegn þessum vanda, við upphaf aðventunnar, mikils anna- og streitutíma.
Laugardaginn 1. desember verður stutt og laggott málþing í Safnaðarheimili kirkjunnar þar sem fjallað verður um kulnun, streitu og trú. Þar ræða dr. Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir hjá Forvörnum, og sr. Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur í Akureyrarkirkju, um efnið út frá fræðum sínum og reynslu. Boðið verður upp á léttar veitingar. Allir eru hjartanlega velkomnir.
Sunnudaginn 2. desember kl. 11 verður messað gegn streitu í kirkjunni, með tali, tónum, íhugun og bæn. Prestur er sr. Hildur Eir Bolladóttir en hugvekju flytur dr. Ólafur Þór Ævarsson.