Bænin

05/18/2020

Það er notalegt að vita af því að einhver hugsi til manns. Sé fjarlægur vinur í vanda er líka gott að geta þó að minnsta kosti sent honum hlýja strauma. Þetta skynjum við skýrt í samkomu- og heimsóknabanni. Þegar handabönd, faðmlög og kossar eru forboðin snertumst við með fallegum hugsunum og fyrirbænum.

Fyrirbænin er sérstök tegund bænar. Þar biðjum við fyrir manneskjum, leggjum þær í hendur Guðs, óskum þeim góðs, biðjum um styrk, leiðsögn, bata eða huggun handa þeim. Fyrirbænin er snertilaus umhyggja.

Að kristnum skilningi er fyrirbæn ekki fólgin í þeim hæfileika mannsins að hafa áhrif á umhverfið með hugarorku eða umbreytandi orðum. Fái einhver bata eða öðlist huggun fyrir bænir okkar er það ekki bænunum að þakka sem slíkum, ekki okkar eigin hugarstyrk, trúarhita eða einhverskonar yfirnáttúrulegum hæfileikum, heldur Guði. Til hans beina kristnir menn öllum sínum fyrirbænum og þegar slíkar bænir bera árangur þakka þeir það Guði en ekki sjálfum sér.

Kristin bæn hefur ætíð þá forsendu að þar er viðmælandinn Guð. Bænin gerir annars vegar ráð fyrir tilvist hans og hins vegar að bænin nái eyrum hans. Grátur kornabarnsins skýrist ekki bara af hungri þess eða þorsta. Grátur barnsins á sér líka þá forsendu að hann heyrist af einhverjum. 

Forsenda bænarinnar er með sama hætti sú, að Guð hlusti. Hver bæn hefst því ekki með því að við rembumst við að klæða hugsanir okkar og tilfinningar í búning orða. Upphaf bænarinnar er trú á þann sem bænirnar heyrir. Upphaf bænarinnar er sú trú, að bænin sé meira en eintal sálar eða hróp út í heyrnarlaust tómið.

Sálin og líkaminn vinna saman og mynda heild. Líkaminn tjáir gjarnan það sem er að gerast innra með mér. Þegar ég spenni greipar og loka augunum er þar um að ræða ákveðið líkamlegt atferli sem sýnir ákveðna innri afstöðu: Með því að leggja saman lófana eða spenna greiparnar segi ég: 

"Nú gef ég höndunum frí. Nú eru þær í hvíld. Nú blaða ég ekki lengur í bókinni eða klóra mér í hausnum. Nú læt ég ekkert trufla mig eða afvegaleiða. Þess vegna loka ég líka augunum. Ég loka þeim fyrir fallegu litunum í gluggunum eða öðru sem fangar athygli mína. Og til að ekkert hljóðrænt trufli mig heldur loka ég ennfremur munninum og legg mig fram við að framleiða þögn."

Guð heyrir í mér í öllum aðstæðum, í hávaðanum, asanum og ókyrrðinni. Það er ekki hans vegna sem ég þagna, loka augunum eða spenni greiparnar. Ég geri allt þetta mín vegna því ég er svo takmarkaður, að ég þarfnast þagnarinnar, kyrrðarinnar, friðarins, til að skynja nálægð þess sem hlustar á bænir mínar.

Bænin er vitund um að ég sé hvorki sá sterkasti né æðsti heldur þiggjandi. Bænin er auðmýkt og þess vegna er hún alltaf bljúg. Bænin er að vita að maður á ekki heimtingu á hlutunum, getur ekki skipað lífinu fyrir eða krafið það um eitthvað með því að veifa stefnum. Bænin er sú viska að vita sig ekkert eiga. Hún er allsleysi og nekt. Hún er hið sanna tungumál þess öreiga sem við öll erum.

Þannig er hin hljóða bæn í hrópandi mótsögn við tíðarandann. Nú gildir að gera kröfur og eiga inni stórar upphæðir hjá tilverunni, sem er komin í það djúpar skuldir við okkur að við erum í fullum rétti í allri okkar sóun og neysluæði þar sem við kreistum síðustu blóðdropana úr vistkerfinu.

Bænin mótmælir þessu. Hún rekur mig niður á hnéin og segir mig minni og veikari en ég þori að viðurkenna. "Þú ert ekki sterkari en það, að þú þarft mig," segir bænin. 

Biðjandi maður er aldrei nógu sterkur. Faríseinn í sögunni var svo merkilegur, að hans bæn fólst í því að þakka Guði fyrir að vera ekki eins og aðrir menn. Tollheimtumaðurinn stóð fjær, áræddi ekki að líta upp, barði sér á brjóst og bað Guð að líkna sér. 

Hann kunni að biðja, segir Jesús.

Bænin er ekki fólgin í því að fara með sem flest orð eða flytja fagrar bænir á lýtalausu máli. Bænin er ekki háð mælsku þinni. Bænin felst heldur ekki í því að vera svo sannfærður um eigið ágæti að í raun hafi maður enga ástæðu til að eyða tímanum í bænastagl.

Stundum er sagt  að hún sé mikil bænakona eða hann sé mjög bænheitur. Það að vera bænheitur er ekki það sama og að biðja oft og lengi. 

Bænafólk nefnast þau sem þora að vera þiggjendur og kunna að opna hug og hjarta fyrir Guði. 

(Byggt á prédikun sem ég flutti í morgun, á hinum almenna bænadegi, í fyrstu opnu guðsþjónustunni í Akureyrarkirkju eftir langt samkomubann þar. Myndina tók ég nýlega á göngu fram í fjörð.)