Björn Garðars Daníelsson

Tengdafaðir minn, Björn Daníelsson, lést 27. september síðastliðinn. Samleið okkar var orðin löng. Ég var á táningsaldri þegar leiðir okkar lágu saman. Betri tengdaföður hefði ég ekki getað eignast. Hann var hlýr maður og bjartur, skemmtilegur, frábær sögumaður, greindur og margfróður, gestrisinn með afbrigðum og veitull á góð ráð. Útför hans var gerð frá Akureyrarkirkju 15. október. Ég flutti þessi minningarorð í athöfninni.
Myndina tók ég fyrir allmörgum árum við Steindyrafoss í Svarfaðardal. Ætli við höfum ekki verið á leiðinni upp að Nykurtjörn.
"Þér eruð ljós heimsins," segir Jesús. Menn geta verið ljós, þeir geta borið birtu, þeir geta dreift gleði, hlýju og ást. Það fengum við að reyna sem áttum Björn. Hann er ein af ótalmörgum sönnunum þess að við mennirnir getum verið hver öðrum þau ljós sem Jesús Kristur vill að við séum.
Fordæmi ljósberanna er okkur hvatning að gera það sama, vera eins og þeir og leggja okkar af mörkum til að veröldin, sem oft getur verið bæði dimm, köld og þreytandi verði bjartari, hlýrri og skemmtilegri
Ljós kviknar af ljósi. Jafnvel öflugustu gleðiljós þessa heims flökta og dofna og geta slokknað við einn andgust. Þá getum við sótt okkur birtu í ljós Jesú Krists sem ekkert myrkur, ekki einu sinni myrkur dauðans, nær að kæfa.
Björn trúði á sumarlandið. Nú er hann meðal blóma þess og umvafinn fegurðinni sem aldrei spillist.
Við þökkum allt sem Björn gaf okkur. Veri hann Guði falinn.
Björn Garðars Daníelsson fæddist 26. ágúst árið 1932 í Syðra-Garðshorni í Svarfaðardal, sonur hjónanna Önnu Jóhannsdóttur og Daníels Júlíussonar. Systkini Björns, Steinunn, Jóhanna María, Júlíus Jón og Jóhann Kristinn eru látin.
Björn óx úr grasi í Syðra-Garðshorni og átti bjartar minningar frá þeim tíma. Nóg var um að vera, glaðvær andi og mikill söngur. Gamlar og góðar hefðir voru í hávegum hafðar. Björn fæddist í torfbæ og ólst þar upp fyrstu árin. Fjölskylduböndin voru sterk og gott samband á milli systkinanna alla tíð. Sumarbörn voru gjarnan í Syðra-Garðshorni og vinskapurinn við mörg þeirra entist alla ævina.
Oft rifjaði Björn upp bernskujólin. Yfir þeim var sérstakur þokki og þeim fylgdu töfrar úr öðrum heimi. Systkinin í Syðra-Garðshorni biðu hátíðarinnar með mikilli eftirvæntingu. Til að létta þeim biðina lét Anna, móðir þeirra, þau fylgjast með því hvernig jólin sigu niður fönnum prýdda fjallshlíðina ofan við Syðra-Garðshorn og fikruðu sig sífellt nær bænum.
Jólin áttu alltaf sinn sérstaka sess í hjarta Björns. Hann var jólabarn og hætti aldrei að bíða spenntur eftir því að þau fylltu hinn kalda heim skammdegisins hlýju og birtu.
Fólkið í Syðra-Garðshorni átti góða granna, fændur og frænkur í Bakkagerði og vini í Garðshorninu ytra. Svo fjölfarin var gatan á milli Garðshornsbæjanna að gróður náði sér þar aldrei á strik. Var hún gengin ýmissa erinda, til að létta undir með nágrönnum eða skemmta sér með þeim. Garðshornssynir höfðu til dæmis mikið yndi af að taka lagið saman.
Barnamenntun sína fékk Björn í skólanum á Grund. Hún reyndist honum góður grunnur. Síðar fór hann í héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði og tók þar landspróf. Þaðan lá leið hans á annað merkilegt skólasetur, Laugarvatn í Árnessýslu. Þar lauk hann íþróttakennaranámi. Veturinn 1955 til 1956 var Björn í lýðháskóla í Jära í Svíþjóð. Allar þessar námsdvalir voru Birni afar eftirminnilegar og í þeim eignaðist hann góða vini.
Sumarið eftir veruna í Jära var Björn í Stokkhólmi þar sem hann vann í bakaríi en hvarf svo heim um haustið til að aðstoða við bú foreldra sinna. Hann var alltaf duglegur að liðsinna við bústörfin heima í dalnum.
Um sex ára skeið var Björn búsettur í Reykjavík þar sem hann kenndi íþróttir í nokkrum skólum. Á þeim tíma kynntist hann eiginkonu sinni, Fjólu Guðmundsdóttur frá Kvígindisfelli í Tálknafirði. Árið 1962 fluttust þau norður í Svarfaðardal þar sem Björn hafði verið ráðinn kennari við Húsabakkaskóla. Þar kenndi hann þangað til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 2000.
Björn og Fjóla gengu í hjónaband í Vallakirkju 26. ágúst árið 1962. Þá var elsta dóttir þeirra fædd, Bryndís. Hún er gift Svavari Alfreð Jónssyni og búa þau á Akureyri. Önnur dóttur Björns og Fjólu er Hrafnhildur, einnig til heimilis hér í bæ. Eiginmaður hennar er Þorsteinn Hjaltason. Yngst dætranna er Sigríður Birna sem er búsett í Reykjavík.
Björn var stoltur af stelpunum sínum, yndislegur pabbi og betri og skemmtilegri afa hefðu barnabörnin ekki getað hugsað sér. Hann var til dæmis einstaklega duglegur að leika við þau úti sem inni og söng þulur og gamla húsganga við afabörnin.
Afastrákurinn Hörður er nýlátinn en hin barnabörnin eru Björn Ingi, Hjalti, Sunna, Hildur Emelía og Ísak. Langafastrákurinn Þorsteinn Mikael er nýjasta viðbótin við afkomendahópinn.
Þegar leið að starfslokum á Húsabakka hófu Björn og Fjóla að byggja sér húsið Laugarbrekku í fjallshlíðinni ofan skólans. Voru þau flutt þangað inn þegar Björn hætti að vinna og áttu þar heima þangað til í vor. Þá fluttust þau til Akureyrar.
Björn var vinsæll og vel látinn kennari. Kennslan átti prýðilega við hann. Bubbi Dan, eins og nemendur hans kölluðu hann gjarnan, var ljúflyndur gleðimaður sem kunni vel að segja frá. Naut hann þeirra eiginleika sinna í kennslunni.
Auk kennslustarfa var Björn við gæslu á heimavist Húsabakkaskóla. Gat vinnudagurinn því orðið langur. Ýmsum öðrum störfum gegndi Björn. Á sínum yngri árum var hann við íþróttaþjálfun, bæði hjá Ungmennasambandi Eyjafjarðar og víðar. Um árabil kenndi hann börnum á svæðinu sund í Sundskála Svarfdæla. Tók hann þá sundtökin þar sem hann stóð á bakkanum og urðu börnin flugsynd af því einu að horfa á kennarann sem aldrei dýfði tánni í laugina.
Kennsluferill Björns var farsæll. Auk almennrar kennslu var hann um tíu ára skeið staðgengill skólastjóra og hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir stétt sína og sveitarfélag. Björn hafði verið fulltrúi kennara í fræðsluráði Norðurlands eystra og í skólanefnd Svarfaðardals. Tvo áratugi var hann endurskoðandi Svarfaðardalshrepps og mörg ár í kjörstjórnum hreppsins og síðar Dalvíkurbyggðar. Bókasafn Svarfdæla í Húsabakkaskóla var honum hjartfólgið. Hann var lengi formaður þess og bókavörður þar rúma þrjá áratugi. Bækurnar elskaði hann, var víðlesinn og átti sjálfur ágætt bókasafn sem honum þótti vænt um.
Víðar lét Björn að sér kveða á sviði félagsmála og hafði til dæmis gegnt formennsku í Framsóknarfélagi Svarfdæla og verið forseti Kiwanisklúbbsins Hrólfs á Dalvík.
Ekki er hægt að segja atvinnusögu Björns án þess að geta sjómennskunnar. Sá ferill hófst þegar Sveinbjörn Jóhannsson, móðurbróðir Björns á Dalvík, bauð honum með sér á trillu sína. Þeir réru lengi saman og minntist Björn þess, að gjarnan hefði sjóferðunum með frænda lokið á þann veg að Sveinbjörn sagði: "Nú fer ég í land en þú ræður hvað þú gerir."
Síðar keypti Björn sér trillu í félagi við fermingarbróður sinn, Þorgils Gunnlaugsson á Sökku. Var hún að sjálfsögðu látin heita Þorbjörn. Mörg ár voru þeir vinirnir í þeirri útgerð áður en Björn fékk sér eigin bát, Glettu. Þau hjónin Björn og Fjóla skruppu gjarnan á henni út á fjörðinn til að ná sér í soðningu. Glettu biðu þau örlög að brotna undan fannfergi á einum af snjóþungu vetrunum hér um slóðir.
Björn hafði líka fengist við stangveiði og var lunkinn við það sport. Svarfaðardalsána fyrir neðan Syðra-Garðshorn gjörþekkti hann og ungur maður var hann oft sendur þangað til að ná í silung í matinn. Mörg sumur renndi hann fyrir lax í Blöndu með vini sínum Sigurði Kr.
Þótt Björn hafi víða lagt hönd á plóginn hefur hann sennilega varið flestum frístundum sínum í sönginn. Ungur söng hann með kirkjukórnum í sókninni þar sem foreldrar hans og systkini voru fyrir og á Reykjavíkurárunum var hann félagi í Fóstbræðrum. Með þeim fór hann í mjög eftirminnilegar söngferðir bæði til Norðurlanda og Rússlands. Eftir að þau Fjóla komu hingað norður fengu ýmsir kórar að njóta hans hljómfögru og hreinu bassaraddar. Hún hljómaði í kirkjum hér á svæðinu, bæði í útförum og við annað helgihald. Björn söng með Karlakór Dalvíkur og gekk til liðs við bassana í Kirkjukór Ólafsfjarðar í söngferð hans til Finnlands. Í öllu þessu kórstarfi eignaðist hann góða vini
Söngurinn var ekki einhver hliðarveruleiki í lífi Björns heldur hluti af hans daglegu tilvist. Hann lifði lífinu raulandi og blístrandi. Nágrannar hans í Laugabrekku minnast þess að þegar hann var að slá lóðina sína söng hann sálma hástöfum við undirleik sláttutraktorsins. Það var indæl músík. Vinirnir, frændurnir og bræðurnir í dalnum hittust helst ekki öðru vísi en að taka lagið. Oft sofnuðu dætur Björns á kvöldin út frá kraftmiklum ættjarðarsöngvum, tregafullum kvöldljóðum eða gáskafullum drykkkju-vísum. Ekki síður gat það raskað næturró þeirra systra þegar pabbi spilaði brús við vini. Þær viðureignir fóru ekki fram í kyrrþey. Og í þessum kafla ræðunnar má ekki gleyma Söltunarfélaginu. Upphaf þess var að nokkrir góðvinir söltuðu saman kjöt í tunnur. Að sjálfsögðu léttu þeir sér störfin með því að syngja og fögnuðu verklokum með enn meiri og kröftugri söng. Þegar árin liðu og þeir áttu orðið erfiðara með að þola kjötsvimann þurfti hvorki kjöt né salt á fundum Söltunarfélagsins þótt annars konar pækill úr öðruvísi ámum væri vissulega um hönd hafður. Söltunarfélagar hittust oft í gegnum árin og ætíð var tekið til við að þróa gleðina. Sérstök tilefni til þess gáfust þegar einhver félaganna átti merkisafmæli. Þá voru samdar svokallaðar druslur við sálmalög og fluttar í veislunni mikla gleði og áköf fagnaðarlæti. Og þá var alveg ægilega voðalega agalega gaman eins og oftast í félagsskap Björns. Hann var svo sannarlega með skemmtilegri mönnum, húmoristi af Guðs náð og kunni að hlæja bæði að sjálfum sér og öðrum. Ófáar kunni hann sögurnar og náði töktum og talanda þeirra sem við þær komu. Hann naut þess að segja frá og ljómaði allur þegar hann var í stuði. Þá átti hann salinn.
Þegar gleðinni lauk var síðan allt "úldið og búið", eitt þeirra orðatiltækja sem Björn hafði á takteinum - og bætti þá gjarnan við "eins og Ríkharður frændi minn í Bakkagerði sagði". Enginn hefur tölu á hversu oft Björn skálaði var fyrir brúðinni og brúðgumanum í Skógardal upp á sænsku. Síðan heyrðist "og sling på" rétt áður en staupið var stallkjaftað. Þegar Birni mislíkaði var ósjaldan við hinn ljóta lubbalýð að sakast. Björn hafði sín sérstöku heiti og nöfn á ýmsu, til dæmis afabörnunum en þeirra á meðal voru Hausinn Afa og Stráið Afa. Svo var læðan Halla aldrei annað en Lurfa. Hún naut hins besta atlætis húsbónda síns en Björn var mikill dýravinur.
Björn var ekki bara léttur í lund heldur líka léttur á fæti. Hann naut þess að vera úti í náttúrunni, ekki síst í Dalnum sínum sem hann unni svo heitt og þekkti svo vel. Ekkert sumar mátti til dæmis líða án þess að gengið væri upp að Nykurtjörn og Lómatjörn. Björn var mjög vel að sér um landafræði og sögu. Gaman og fróðlegt var að hlusta á hann tala um þau efni. Hann var vel á sig kominn, líkamlega sem andlega, langt fram eftir aldri, en brekkan síðustu misserin reyndist brött.
Björn lést 27. september á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Blessuð sé minning hans.