Blessaður sé maturinn
Ég skil ekki alveg hvaða voði steðjar að þótt ekki sé hægt að kaupa lambahryggi í hverri einustu verslun á Íslandi nokkrar vikur á árinu.
Sú matarómenning sem gengur út á að borða hvað sem er alla daga ársins er ein afleiðing stórmarkaða-, molla- og auðhringjavæðingar samfélagsins. Þar er krafan sú, að allir eigi að geta keypt sér spriklandi rauðmaga í nóvember, nýtínd krækiber út á skyrið í febrúar og laufabrauð til að maula með magálnum í júlí.
Í landi sem hefur viðhaldið lifandi tengslum á milli náttúru, menningar og fæðu á eiginlega bara að vera hægt að neyta hamborgara og kornfleks allt árið um kring.
Langt er síðan ég tók ástfóstri við ítalskan mat. Einkenni hans eru meðal annars góð hráefni, einfaldleiki og vilji til að vera í þeim takti sem náttúran og menningin gefur.
Ítölsk máltíð hefur ekki einungis þann tilgang að seðja hungur. Hún er líka fagurfræðileg athöfn framkvæmd af yfirvegun, virðingu og söguvitund.
Fyrr í mánuðinum var ég nokkra daga úti á Ítalíu. Bestu máltíðina fékk ég á dýrasta staðnum, kolkrabba með soðnum kartöflum.
Sú næstbesta var fram borin á þeim ódýrasta, bar við strandgötuna. Þar eru pítsurnar bakaðar við eld í eldgömlum ofni. Ég fékk mér eina með salsiccia pylsu og villtu sprotakáli. Það er ekki fáanlegt hvenær sem er.
Vá! Enn finn ég ilminn og bragðið.
Heim kominn útbjó ég pastarétt sem ítalskur vinur minn kenndi mér að elda. Máltíðina er sennilega hægt að elda nánast á öllum tímum ársins.
Séu fjórir til borðs er temmilegt að nota í hann þrjú box af kirsuberjatómötum, þrjú hvítlauksrif, sirka 300 grömm af hreinum rjómaosti frá Ostahúsinu, á að giska einn poka (500 gr) af heilmöluðu speltispenne frá Himnesku, smjör, góða ólífuolíu (t. d. Regionale Puglia), þrjú til fimm stykki af þurrkuðu pepperoncino (um að gera að byrja með færri korn og mylja svo fleiri út í eftir smekk) og salt og pipar.
Rétturinn er afar þægilegur í eldun. Tímafrekast er að skera tómatana í tvennt, taka innan úr þeim gumsið (gott að nota teskeið í það) og skola þá.
Pastað er soðið samkvæmt leiðbeiningum. Það á ekki að ofsjóða og á að vera þannig undir tönn að örlítið verði að hafa fyrir því að tyggja.
Smjörið og ólífuolían er sett á pönnu við miðlungshita og hvítlaukurinn kreistur út í. Hann má ekki brenna. Síðan er tómataskeljunum bætt saman við, pepperoncinóinu, salti og pipar.
Á þessu stigi er ágætt að hækka duglega undir pönnuni smástund áður en rjómaosturinn er settur út á hana. Í upphaflegu uppskriftinni á að nota ricotta ost (sem í raun er ekki ostur heldur soðin mysa). Ricotta fæst sjaldan á Akureyri þannig að ég hef verið að prófa mig áfram með eitthvað annað. Bestum árangri hef ég náð með hreinum rjómaosti frá Ostahúsinu. Það er alveg dásamleg vara.
Sósan má ekki vera of þykk til að samlagast pastanu vel þannig að ég hef þynnt hana með ólífuolíu og smakkað hana til áður en henni er blandað rækilega saman við soðið pastað.
Þá er borðgestum sagt að gjöra svo vel og upplagt að rífa parmesan yfir kræsingarnar áður en eiginleg máltíð hefst.
Það sama gildir um þennan rétt og aðra ítalska og flestan mat: Best smakkast hann sé hans neytt rólega, yfirvegað og augunum lokað um leið og hæfilegum skammti hefur verið stungið upp í munninn til að hin ágenga sjónskynjun trufli ekki bragðupplifunina.
Svo er aldrei að vita nema maður steiki sér lambshrygg í haust þegar vænir dilkar koma af fjöllum.
Blessaður sé maturinn og blessuð sé náttúran sem hann gefur!