Dagur kirkjutónlistarinnar
Á degi kirkjutónlistarinnar sótti ég tónleika eyfirskra kirkjukóra í Akureyrarkirkju. Þar fluttu kórar úr firðinum tónlist sína. Mikinn fjársjóð eigum við Eyfirðingar í öllu þessu áhugasama kórfólki og hinum frábæru stjórnendum þess. Sá fjársjóður er ekki bara mikilvægur kirkju- og trúarlífi hér á svæðinu heldur ómetanlegt framlag til menningarinnar.
Á tónleikunum áðan heyrði ég yndisleg lög, m. a. tvo af mínum uppáhaldssálmum. Sá fyrri var Heyr himnasmiður, sem mun vera elsti sálmur Norðurlanda, ortur af Kolbeini Tumasyni sem Þorkell Sigurbjörnsson gerði lag við mörgum öldum síðar. Síðari sálmurinn var Lifandi Guð. Hann er nýr. Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson samdi hann en Sigurður Flosason lagið.
Þá fékk ég að heyra söng sem ég hef mikið dálæti á, Orðin mín, lag og texti eftir Braga Valdimar Skúlason, og hreint unaðslegt lag Báru Grímsdóttur við ekki síðra ljóð Gerðar Kristnýjar, Verndarvængur.
Ekki má ég gleyma kvæðinu Á vegi eftir skólabróður minn úr menntaskóla, Hjörleif Hjartarson. Það fjallar um flóttafólk. Boðskapinn hefði varla mátt orða betur og ljóðið á svo sannarlega erindi við samtíð okkar. Daníel Þorsteinsson, einn stjórnendanna á tónleikunum, gerði við það snoturt lag. Hann er jafn magnaður lagasmiður og Hjörleifur er skáld.
Ég var þess heiðurs aðnjótandi að fá að leggja mitt til þessa viðburðar. Eyþór Ingi Jónsson, organisti Akureyrarkirkju, fékk hjá mér texta sem ég hafði lamið saman fyrir nokkrum árum. Eyþór kom þeim barningi til tónskáldsins Arngerðar Maríu Árnadóttur. Henni tókst að gera þjóðlegt prýðislag við þessa smíð mína og var það frumflutt á tónleikunum. Mikið er ég þakklátur fyrir lagið og indælan flutning kóranna. Kvæðið nefni ég Gef mér. Það er svona:
Gef mér gott að muna glit af bernskum ljóma, glóð af fornum funa, fegurð tíndra blóma, barnsins brek og hlátur, bros á heitum vörum, leik við lífsins gátur, leit að réttum svörum.
Gef mér gott að finna, gull í fjörusteinum, sterka taug í tvinna, tæra ást í meinum, nægð í kjörum naumum, nánd í einsemdinni, stað í lífsins straumum, stund við tímans mynni.
Gef mér gott að vilja, greind í mína villu, mennt og mátt að skilja mun á góðu og illu. Legg mér lið í vanda, ljós mér ber í skugga, sannleiksorðum anda um minn sálarglugga.
Gef mér gott að dreyma, gruninn svo ég finni, hugboð nýrra heima, hærri skynjun minni. Leið mig, líknargjafi, leystu hinstu rökin er á húmsins hafi hljóðna áratökin.
Myndina tók ég af einni af fjölmörgum kirkjum héraðsins, Munkaþverárkirkju í Eyjafjarðarsveit.