Dolce far niente

10/09/2022
Dolce far niente nota Ítalir um þá list að kunna að gera ekki neitt án þess að skammast sín fyrir það. Hið ljúfa iðjuleysi þykir kannski skrýtin dyggð í löndum þar sem vinnusemi er í miklum metum en letin talin þjóðarmein.

Nú er veður vont, ekki hundi út sigandi og Íslendingurinn harðduglegi á ekki um annað að ræða en að sitja heima. Öllu helgihaldi hefur verið aflýst hér á svæðinu. Ég var auðvitað búinn að skrifa ræðu og þar sem hún fjallar um gildi þess að kunna að gera ekki neitt ákvað ég að birta úr henni hér ef ske kynni að hún vekti einhverja til umhugsunar áður en ég hverf inn í rafmagnslaust aðgerðarleysið - og blaða ef til vill í góðri bók í skini kertaljóssins ef ég nenni.

Dagarnir eru ekki allir eins. Einn dagur hið minnsta í viku hverri er tileinkaður hvíldinni og list hins ljúfa iðjuleysis. Sunnudagarnir hafa reyndar breyst töluvert frá því að ég var ungur. Þá hófust þeir þannig að fjölskyldan klæddist fínni fötum og síðan var okkur systkinunum ekið nýgreiddum og stroknum í sunnudagaskólann. Í hádeginu var mér stundum boðið til afa og ömmu niðri á Eyri þar sem fram var borin ljúffeng verkamannasteik eða dásamlegt hrossagúllas og á eftir gæddum við okkur á glansandi ávaxtagraut með rjómablandi. Amma gaf mér stundum pening í þrjú bíó og þegar vel lá á henni - sem var reyndar alltaf - dugði sú fjárveiting fyrir smá nammi í hléinu. Sunnudagarnir voru allt öðruvísi en aðrir dagar vikunnar.

Nú er öldin önnur. Sunnudagarnir verða sífellt líkari öðrum vikudögum. Þeir eru til dæmis ekki lengur sömu hvíldardagarnir og fyrr, hvorki fyrir starfsfólk verslana né viðskiptavini þeirra. Þvert á móti eru skipulagðar sérstakir viðburðir og hámessur í öllum helgidómum neyslunnar til að tryggja að henni sloti helst aldrei.

Jonathan Crary, bandarískur prófessor í listasögu, skrifaði fyrir nokkrum árum merkilega bók um stríð kapítalismans gegn svefninum (24/7: Late Capitalism and the Ends of Sleep). Þar heldur hann því fram að tækni- og neysluhyggja okkar tíma geri mörk á milli ýmissa sviða mannlífsins sífellt óljósari; stöðugt minni munur verði á einkalífi og því sem er opinbert, það er ekki alltaf gott að átta sig á hvort maður sé í vinnu eða eigi frí og síðast en ekki síst verða mörkin og milli vöku og svefns sífellt ógreinilegri. Sótt sé að svefninum úr öllum áttum og hann sé að mörgu leyti síðasta vígið í heimi þar sem við megum helst aldrei slá slöku við að þjóna þörfum hagkerfisins.

Í guðspjalli dagsins velta menn vöngum yfir því hvað sé leyfilegt á hvíldardegi og hvað ekki. Hvorki í kristni né gyðingdómi er hvíldardagurinn bara hugsaður út frá forsendum hversdagsins; þá eigi menn að hvíla sig til að vera betur í stakk búnir til að takast á við verkefni vikunnar, vinnuna og neysluna. Hvíldardagurinn felst ekki bara í því að safna kröftum fyrir næsta sprett lífsgæðakapphlaupsins. Hvíldardagurinn er þvert á móti til að minna okkur á að við erum meira en neytendur og vinnuþrælar. Við erum menn og mennsku okkar tilheyrir að njóta lífsins, rækta tengslin við okkur sjálf og okkar nánustu. Í mennsku okkar eigum við að geta upplifað hina margháttuðu blessun þess að vera til. Hvíldardagurinn var skapaður til þess að gera okkur það kleift. Hvíldardagurinn er til að minna okkur á af hverju við lifum hér á þessari jörðu og hvað er okkur raunverulega mikilvægt og dýrmætt.

Oft er eins og ekkert annað skipti máli en að tryggja með öllum ráðum aukna neyslu okkar. Okkur er talin trú um að við megum helst aldrei slaka neitt á því þá gætum við verið að missa af einhverju stóru. Við megum hvorki lina tökin né hægja á okkur.

Í bók prófessorsins til varnar svefninum bendir hann á að þegar við lokum augunum og sofnum, gleymum við okkur sjálfum, felum okkur svefninum á vald og getum sofnað sætt þó að við höfum ekki lengur stjórn á okkur sjálfum. Í svefninum erum við ekki lengur í meðvitaðri umsjá okkar sjálfra heldur verðum að treysta einhverju öðru til að geta sofnað .

Tilgangur hvíldarinnar og þess að slaka á er ekki síst fólginn í því að láta okkur finna, að það er ekki allt undir okkur sjálfum komið, framlagi okkar og elju. Við megum treysta einhverju öðru. Í hvert sinn sem við slökum á, njótum hins ljúfa iðjuleysis, kyrrum hug og sál, megum við trúa því að yfir okkur er vakað.

Myndina tók ég nýlega á ítalskri sólarströnd.