Ég er ekki nóg

01/19/2019


"Ég er nóg" virðist auðskilin staðhæfing þótt hún sé margbrotin. Hana má skilja sem yfirlýsingu um friðhelgi mannlegrar reisnar enda er það inntak mannréttinda, að hver einasta manneskja hafi sitt gildi og allir eigi "rétt til lífs, frelsis og mannhelgi" eins og það er orðað í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.

Án efa hefur hjálpað mörgum að fara með þessi orð og tileinka sér boðskap þeirra. Þökk sé þeim sem á það hafa bent. Hitt er mun meiri vafa undirorpið hvort í þessari setningu sé að finna einhverja töfralausn á sjálfsvígsvandanum. Þegar slíku er haldið fram finnst mér lítið gert úr þrautagöngu þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir. Auk þess kunna slík skilaboð að hljóma einkennilega í eyrum þeirra, sem misst hafa ástvini úr þessum lífshættulega sjúkdómi. Það er gott að þau hafa verið dregin til baka og leiðrétt og þökk sé þeim sem fyrir því stóðu.

Þótt mikilvæg sannindi séu fólgin í þeirri speki að ég sé nóg er að minni hyggju ekki síður áríðandi að gera sér grein fyrir að ég er ekki nóg. Ég er sjálfum mér ekki nægur. Ég er öðrum háður. Ég er ekki eyland. Ég lifi í samfélagi. Ég þarfnast vina, ráða, hjálpar og umhyggju.

Hjónabandið og fjölskyldan er ein birtingarmynd þess ásigkomulags okkar mannanna að við erum ónóg sjálfum okkur. Velferðarkerfið er önnur afleiðing þess, að við erum ekki nóg. Stundum erum við svo ónóg, að við þurfum hjálp fagfólks og meðferðir sem kosta mikla peninga. Stuðningur góðra vina er líka ómetanlegur þegar við finnum hvað harkalegast fyrir því að við erum ekki nóg.

Við erum ekki nóg. Við leitum út fyrir okkur sjálf. Við lesum bækur, horfum á kvikmyndir og skoðum netið. Við hlustum á aðra, njótum góðs af skilningi þeirra og þiggjum ráð þeirra. Við fyllum ráðstefnusali og borgum stórfé fyrir að láta aðra segja okkur hvernig við eigum að lifa lífinu vegna þess að við erum ekki nóg.

"Ég er ekki nóg." Vel má vera að sú speki hljómi ekki vel á tímum sem margir telja einkennast af útblásinni einstaklingshyggju en þau sannindi, að ég þurfi ekki að vera nóg, fylla mig auðmýkt og þakklæti. Ég má vera mér ónógur. Ég má leita til annarra. Ég má viðurkenna veikleika minn. Ég þarf ekki að skammast mín fyrir að vera ekki nóg. Það er hluti af heilbrigðri sjálfsmynd að eitthvað vanti upp á sjálfan mig sem aðrir bæta upp. 

Ég má gera mistök. Ég má allt þetta því ég þarf ekki bara að stóla á mig. Ég á fjölskyldu. Ég á vini. Ég á samstarfsfólk. Ég er hluti samfélags umhyggju og mennsku. Það er lán mitt og enginn ætti að þurfa að lifa lífinu þannig, að hann hafi bara sjálfan sig og þurfi að vera nóg.

Það ástand okkar að við erum ekki nóg finnst ekki bara í því sem okkur vantar eða þegar okkur verður á. Við erum heldur ekki nóg í styrkleika okkar. Ég get eldað góðan mat en ekki væri sá hæfileiki mikils virði, hvorki mér né öðrum, ef ég væri nóg og kokkaði bara fyrir mig sjálfan. Skáldin verða til þegar þau eru lesin. Allir hæfileikar, allar gáfur, fullnast í samfélagi við annað fólk, þegar við miðlum því sem okkur er gefið til annarra.

Ekkert okkar er sjálfu sér nægilegt. Þess vegna er ég öðrum mikils virði. Aðrir stóla á mig. Ég er hluti þess samfélags sem gerir öðrum kleift að lifa lífinu. Ég er öðrum jafn mikils virði og þeir mér.

Einmitt vegna þess að ég er ekki nóg erum við öll óendanlega mikilvæg hvert öðru. Það munar um hverja einustu manneskju.

Við skulum passa vel hvert upp á annað því við erum öll ómissandi.

Myndina tók ég við Ljósavatn nýlega. Við erum ekki síst ónóg okkur sjálfum í þeim skilningi að við erum hluti náttúrunnar og henni háð og það er efni í annan pistil.