Elstu menn muna Steppenwolf

11/02/2018

Nýlega hitti ég mann og við áttum alveg einstaklega skemmtilegt spjall um tónlist. Það hófst með því að ég sagði honum frá miklum dásemdartónleikum á Græna hattinum sem ég var nýbúinn að vera á. Þar spilaði hljómsveitin Dúndurfréttir lög með Led Zeppelin sem er eitt af mínum uppáhaldsböndum.

Kom þá á daginn að viðmælandi minn hafði verið á tónleikunum með Led Zeppelin í Laugardalshöllinni árið 1970. Hann sagði mér frá þeim og bætti við að tónleikarnir sem hann hefði farið á með The Kinks í Austurbæjarbíói fimm árum áður hefðu ekki ekki verið síðri. Þeir munu hafa verið fyrstu alvöru rokktónleikarnir á Íslandi. Hér má sjá skemmtilega sænska frétt af þeim þar sem m.a. bregður fyrir upphitunarhljómsveitum The Kinks, Tempó frá Reykjavík og Bravó frá Akureyri.

Þess má geta að í þessum Íslandsferðum The Kinks og Led Zeppelin urðu til tvö fræg lög: Ray Davies mun hafa samið I´m on an Island á sófanum í Sólheimum 35, á heimili foreldra tónleikahaldarans Baldvins Jónssonar. Þar var meðlimum The Kinks meðal annars boðið upp á soðna ýsu þverskorna með hamsatólg og kartöflum. Það fannst þeim mikill herramannsmatur og jafnvel enn meira ljúfmeti en Fish and Chips sem fáir Íslendingar höfðum smakkað á þeim tíma. I'm on an Island er á þriðju breiðskífu Kinks, The Kink Kontroversy

Led Zeppelin samdi líka lag á Íslandi undir norrænum hughrifum, hið fræga Immigrant Song sem er að finna á breiðskífunni Led Zeppelin III en litlum sögum fer af ýsuáti þeirra Jimmy Page, John Bonham, John Paul Jones og Robert Plant.

Vinur minn hafði frá nógu að segja og ég honum. Við uppgötvuðum að við höfðum dálæti á sömu hljómsveitunum, mun minna þekktum en The Kinks og Led Zeppelin. 

Heldur betur lifnaði yfir mér þegar hann minnti mig á hið kanadísk-bandaríska eðalband Steppenwolf og ég sá glampa í augum hans þegar ég sló fram í samtalið því magnaða bandi Grand Funk Railroad.

Hann þekkti líka hljómsveitina óviðjafnanlegu Poco. Við vorum hjartanlega sammála um að hún hafi verið mörgum sinnum betri en Eagles.

Báðir elskuðum við Steve Miller Band - en þar var viðmælandi minn mér að því leyti fremri að hann hafði farið á tónleika með þeim úti í Bandaríkjunum. Ég gæti þó jafnað þann leik því mér skilst að Steve Miller Band sé enn að spila - eins og Poco.

Og hvar ætli ég hafi svo hitt þennan skemmtilega viðmælanda?

Jú, á stað sem eitt sinn nefndist elliheimili en kallast nú öldrunarheimili. 

Þar býr aldrað fólk.

Á síðustu árum hefur sú breyting orðið að öldungar okkar tíma hlusta ekki endilega á íslenska söngvarann Alfreð Clausen eða hinn sænska Snoddas heldur hafa í vaxandi mæli unun af The Kinks, Led Zeppelin, Steppenwolf, Grand Funk, Poco og Steve Miller Band.

Öldrunarheimilin verða sífellt viðkunnanlegri staðir og heimilislegri.

Myndin: Svona leit símaskrá Akureyrar út þegar ég hlustaði mest á Poco. Þessi forngripur er á Smámunasafni Sverris Hermannssonar í Eyjafjarðarsveit.