Er krónan bölvun eða blessun?

Ég hef haft gaman að fylgjast með umræðunni um íslensku krónuna. Viðhorfin til hennar eru margs konar og afar ólík.
Margir finna krónunni flest til foráttu. Þeir segja hátt verðlag á Íslandi krónunni að kenna. Okurvextirnir skrifist ennfremur á hennar reikning. Verðtryggingu og verðbólgu megi rekja til vélabragða krónunnar. Krónan beri ábyrgð á skuldabyrðunum sem liggja á herðum almennings. Krónan svipti landsmenn atvinnunni og reki þá á flótta úr eigin landi. Krónan er "öflugasta arðránstæki hagkerfisins" og "mesti ógnvaldur almennings" eins og það hefur verið orðað
Krónan er talin vera svo mikill bölvaldur að það eitt að taka upp aðra mynt "myndi snarbæta lífskjör allrar alþýðu, miklu meira en launahækkanir með átökum, og koma á langþráðum stöðugleika í rekstrarumhverfi fyrirtækja" segir í einum þeirra fjölmörgu pistla sem samdir hafa verið til höfuðs krónunni.
Krónan er ónýt, hún er rusl og gagnslaus - en jafnfrant býr ógnvænlegur eyðingarmáttur í allri hennar vangetu. Sakaskrá krónunnar er alltaf að lengjast og sífellt eru dregin fram í dagsljósið ný ódæði hennar.
Nýlega var okkur til að mynda fluttur sá boðskapur að hrunið ætti ekki rætur sínar í alþjóðlegri bankakreppu, nýfrjálshyggju, einkavæðingu bankanna, eftirlitsleysi, skorti á aðhaldi eða fjárglæfrum íslenskra viðskiptamanna, svo nokkuð sé nefnt.
"Það er dramatískt að leita að aðalleikurum í hruninu í hópi banka- og viðskiptamanna, en stóri skúrkurinn var krónan," er haft eftir einum úr hópi þeirra meintu aðalleikara.
Ekki eru allir jafn sannfærðir um að aðeins bölvun fylgi íslensku krónunni og að þjóðin muni lifa í vellystingum praktuglega taki hún upp annan gjaldmiðill.
Fyrir þremur árum ritaði Paul nokkur Krugman pistil í New York Times þar sem hann bar saman hvernig Ísland og Írland réttu úr kútnum eftir hrunið. Honum fannst Íslandi hafa gengið betur og þakkaði það m. a. því að Ísland hefur sjálfstæða mynt, krónuna, en Írar eru með evru. Árið 2008 fékk Krugman nóbelsverðlaun í hagfræði fyrir framlag sitt til alþjóðaviðskiptafræði og haglandafræði. Hann endar pistil sinn á þessum orðum:
"I guess I understand the urge to make excuses for the single currency. But the evidence really does suggest that there are important advantages to keeping your own currency."
Annar nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, Joseph Stiglitz, kom til Íslands eftir hrun og fundaði með ríkisstjórninni.
"Hann segir það hafa komið sér vel fyrir Ísland að hafa krónuna á þessum erfiðu tímum. Lítil hagkerfi þurfi svigrúm, sérstaklega þegar stór áföll verða. Ef gengi krónunnar hefði ekki gefið eftir hefði ferðamannabransinn ekki gengið jafn vel og raunin hefur orðið, og atvinnuleysið orðið meira en ella," segir í frétt um þessa heimsókn Stiglitz.
Um svipað leyti talaði hér á ráðstefnu Martin Wolf, aðalhagfræðingur Financial Times og einn áhrifamesti blaðamaður heimsins á sviði efnahagsmála. Þar sagðist hann ekki sjá neitt athugavert við að Íslendingar notuðu krónuna áfram sem gjaldmiðil. Hún hefði reynst þeim vel. Ef tekinn yrði upp annar gjaldmiðill væri ekki víst að hann sveiflaðist í takti við þróun efnahagsmála á Íslandi.
Í nýútkominni bók íslenska hagfræðiprófessorsins Hilmars Þórs Hilmarssonar er fjallað efnahagsstefnuna í Eystrasaltsríkjunum eftir hrun og hún borin saman við þá stefnu sem valin var á Norðurlöndunum. Hilmar Þór skoðar kosti og galla fastgengis og flotgengis. Ég hef ekki lesið nema umfjallanir um bók hans í blöðum en mér sýnist hann komast að sömu meginniðurstöðu og fyrrnefndir fræðimenn:
Ríkjum sem velja þann kost að notast við sjálfstæðan gjaldmiðil vegnar á mörgum mikilvægum sviðum betur eftir hagsveiflur en hinum sem ekki ráða yfir eigin gjaldmiðli.
Í samtali við Stundina segir Hilmar Þór það vissulega hafa ýmsa kosti að vera í stóru myntbandalagi. Gallinn sé á hinn bóginn sá að gangi land í slíkt bandalag fórni það "...sjálfstæði sínu í peningamálum. Það getur til dæmis ekki lengur stýrt vöxtum og fórnar getunni til að bregðast við áföllum með því að breyta gengi eigin gjaldmiðils."
Að mörgu leyti virðist himinn og haf á milli skoðana þeirra sem nefndir eru fyrri hluta þessarar færslu og niðurstaðna Hilmars Þórs og erlendra kollega hans. Hagfræðingar geta litið sömu fyrirbærin býsna ólíkum augum svo sem frægt er orðið. Hvorki ætti að snúast fyrir þeim eða öðrum að hafa mismunandi skoðanir á íslensku krónunni sem hefur bæði mikilvæga kosti og líka bagalega galla.
Sveiflur eru í öllum hagkerfum. Þær eru tilfinnanlegri í litlum hagkerfum en þeim stærri og því þurfa hagkerfi eins og það íslenska meiri sveigjanleika en önnur. Þegar sveiflur verða í hagkerfum eru engar töfralausnir til sem láta þær hverfa. Ýmislegt getur á hinn bóginn stjórnað áhrifum sveiflnanna. Þær þjóðir sem ráða yfir eigin gjaldmiðli geta í því skyni breytt gengi hans. Sé það ekki hægt hefur sveiflan í hagkerfinu engu að síður einhver önnur áhrif sem þá gætu lýst sér í lækkun launa eða atvinnuleysi.
Hafi ég skilið hagfræðingana rétt er spurningin sem við þurfum að svara í umræðunni um krónuna eða annan gjaldmiðið kannski einkum þessi: Finnst okkur launalækkun og atvinnuleysi fýsilegri veruleiki í efnahagslegri niðursveiflu en afleiðingar lægra gengis?
Þeirri spurningu ættu fleiri en hagfræðingar að velta fyrir sér.
Myndin: Í gær féll fyrsti almennilegi snjórinn í byggð hér á Akureyri og nágrenni við innilegan fögnuð skíðamanna og þeirra sem versla með vetrardekk, skóflur, vettlinga og rúðusköfur. Þá var þannig var umhorfs í landnámi Helga magra.