Er sorgin sjúkdómur?

03/27/2021


Blaðagrein sem birtist í Fréttablaðinu fyrir síðustu jól hafði að geyma ýmis úrræði fyrir syrgjendur. Þau voru skynsamleg og hafa án efa komið sér vel fyrir þau sem halda jól í skugga sorgar. Fyrirsögnin var þó ef til vill ekki alveg í takti við efnið, "Góð ráð gegn sorg um jólin", og gat gefið til kynna, að í greininni væri fólki ráðlagt hvernig ætti að ráðast til atlögu við sorgina í því skyni að minnka hana eða jafnvel útrýma henni. 

Þegar greinin er á hinn bógin lesin sést að þar er verið að hjálpa fólki til að lifa með sorginni, bent á að ekkert sé óeðlilegt við að vera sorgmæddur og að sorg og söknuður sé á vissan hátt fylginautur syrgjandans til æviloka.

Í bók sinni The Loss of Sadness: How Psychiatry Transformed Normal Sorrow Into Depressive Disorder halda höfundarnir Alan Horwitz og Jerome Wakefield því fram að í nútímanum sé eðlilegri sorg oft ruglað saman við þunglyndi. Að hluta til sé það afleiðing þeirrar tilhneigingar að gera persónuleg og félagsleg vandamál læknisfræðileg.

Fyrir nokkrum árum las ég um eina skelfilega birtingarmynd þeirrar óheillaþróunar í áhugaverðri bók Peter R. Breggin, Reclaiming Our Children. A Healing Plan for a Nation in Crisis. Þar er fjallað um vaxandi vanlíðan barna í Bandaríkjunum og þá leið, sem heilbrigðisyfirvöld þar í landu kusu að fara andspænis þeim vanda. Hún fólst í því að gefa börnunum geðlyf. Breggin segir að með því sé fyrst og fremst verið deyfa börnin og gera þau ónæm á sig sjálf en látið ógert að ráðast að rót vandans, sem sé oft persónulegur, félagslegur og andlegur.

Bók þeirra Horwitz og Wakefield fæst við spurningum um hvernig beri að skilgreina geðræna sjúkdóma. Höfundar halda því fram að þeir feli í sér skaðlega truflun á sálfræðilegum ferlum. Starfi þeir eðlilega sé ekki rétt að tala um sjúkdóma. Ótti sé til dæmis eðlileg viðbrögð við ógn og sorg með sama hætti eðlileg afleiðing ástvinamissis. Slík viðbrögð séu þá aðeins sjúkleg teljist þau ekki eðlileg sálræn svörun við þeim aðstæðum sem viðkomandi er í, eigi sér engar raunverulegar orsakir, viðbrögðin gangi úr hófi fram eða standi of lengi. Horwitz og Wakefield færa rök fyrir því að skilgreiningar á geðrænum sjúkdómum hafi í seinni tíð verið að þenjast út og þar með orðið óljósari. Það eigi ekki síst við skilgreininguna á þunglyndi sem hafi meðal annars leitt til þess að sjúkdómshugtakið hafi verið teygt út þannig að eðlileg sorg rýmist innan þess.

Í grein sem birtist nýlega í þýska vikublaðinu Die Zeit bendir heimspekingurinn Maria-Sibylla Lotter á að ofangreindar þróun, tilfærslur og útvíkkanir á hugtökum og skilgreiningum hafi ennfremur áhrif á það hvernig við upplifum veruleikann og skiljum okkur sjálf.[i] Óþægileg lífsreynsla verður í sívaxandi mæli að sálarskaða sem við eigum heimtingu á að vera vernduð fyrir. Takist það ekki sé það réttur okkar að fá tjónið bætt og meinið læknað. Fórnarlambavæðing ágerist og sífellt verður algengara að fólk treysti sér ekki til að takast sjálft á við erfiðar upplifanir heldur telji sig þurfa til þess utanaðkomandi aðstoð, meðferðir hjá sálfræðingum og læknum eða önnur úrræði velferðarkerfisins.

Í greininni eru tilgreind tvö dæmi um þessa þróun: Í bandarískun einkaháskólum eru til meðferðarúrræði fyrir fólk sem hefur orðið fyrir áfalli þegar andstæðingar þess unnu sigra í pólitískum kosningum. Klassísk bókmenntaverk hafa verið "sett til hliðar" vegna þess að þau eru talin geta valdið sálrænum röskunum hjá lesendum.

Nú ætla ég alls ekki að gera lítið úr þeirri andlegu vanlíðan sem syrgjendur finna. Hún getur svo sannarlega tekið á sig sjúklegar myndir og ég veit mýmörg dæmi þess, að fólk hefur fengið ómetanlega hjálp í þannig aðstæðum hjá fagfólki, sálfræðingum, geðlæknum, prestum og öðrum sem hafa menntun og þjálfun á því sviði.

Engu að síður finnst mér mjög umhugsunarvert ef sorgin er gerð að einhverju sem eigi sér ákveðna lækningu með réttri meðferð eða jafnvel lyfjagjöf.

Maður sem missti lífsförunaut sinn til margra ára sagði við mig: Sorgin er ólæknandi og oft óbærileg en þú lærir að lifa með henni.

Þótt okkur batni aldrei sorgin til fulls getum við sótt okkur  hjálp til að okkur gangi betur að lifa með henni, til dæmis með því að tala um líðan okkar og tilfinningar við aðra. Að því leyti gildir það sama um sorgina og aðrar erfiðar upplifanir:

Þær hafa sinn tíma í lífinu, eru hluti af tilverunni og einn þáttur þess að vera mennskur.

[i] Wann wird Sprache zur Gefahr? Worte haben Nebenwirkungen: Durch begriffliche Dehnungen können wir auch zu Gewaltopfern werden, Die Zeit nr. 3 2021, bls. 47

Myndina tók ég nýlega í fjörunni við Svalbarðseyri