Er trúfrelsinu ógnað?

10/17/2018

Alberico Gentili var 16. aldar ítalskur lögfræðingur. Hann tilheyrði hreyfingu mótmælenda sem sætti grimmilegum ofsóknum í rammkaþólsku landi. Gentili neyddist því til að flýja heimaland sitt eins og mörg önnur trúsystkini hans. Hann flæmdist upp eftir Evrópu og endaði í Oxford á Englandi þar sem hann varð háskólaprófessor í lögum. Alberico Gentili er þekkt nafn í lögfræði. Hann átti stóran þátt í að aðskilja lög og trú, var frumkvöðull á sviði alþjóðlegra laga og telst vera einn fyrsti talsmaður trúfrelsis eins og við þekkjum það. "Sálin á sér engan herra," ritaði hann. Þar talar maður sem vissi hvað það var að vera skipað fyrir hverju hann ætti að trúa. Á Englandi kynntist Alberico eiginkonu sinni, Hester de Peigne, frönskum húgenotta sem einnig var landflótta vegna trúarofsókna.

Snemmsumars sótti ég ráðstefnu í Oxford þar sem fólk velti fyrir sér stöðu trúfrelsis á okkar tímum. Fyrirlesarar voru fræðimenn á sviði lögfræði, stjórnmálafræði, heimspeki og guðfræði og komu bæði frá Bandaríkjunum og Bretlandi. Ég var beðinn um að gera grein fyrir þessari ráðstefnu á fundi með samstarfsfólki mínu í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og birti þá greinargerð hér.

Opnunarerindi ráðstefnunar flutti Mary Ann Glendon, prófessor við lagadeild Harvard-háskólans í Bandaríkjunum og fyrrum sendiherra í Vatíkaninu. Hún benti á að í Evrópu sé sú skoðun áberandi að trúarbrögðin séu frekar til ógagns en gagns. Þá sé trúfrelsið gjarnan skilgeint neikvætt. Prófessor Glendon sagði mjög sterkar vísbendingar um alvarlegar skerðingar á trúfrelsi í heiminum sem eru svo útbreiddar og umfangsmiklar að tæplega 80% jarðarbúa þurfa að sæta takmörkunum á því. Í okkar heimshluta fjölgar þeim stöðugt sem hafa horn í síðu trúarbragða. Það er ein skýringin á því að fjölmiðlar sjá ekki ástæðu til að fjalla um þessi mannréttindabrot og heldur ekki alþjóðleg mannnréttindasamtök.

Glendon velti fyrir sér hvernig hægt væri að fá ráðamenn til að horfast í augu við þennan vanda en góðu fréttirnar væru þó þær að stofnuð hafi verið alþjóðleg samtök stjórnmálamanna sem vilja varðveita og verja trúfrelsið.

Því miður á það frelsi undir högg að sækja líka í frjálslyndum lýðræðissamfélögum. Þar eru dæmi um að fólk missi vinnuna og sé útilokað frá þátttöku í opinberu lífi vegna trúarskoðana. Ástandið að því leyti er svipað í Bandaríkjunum og Evrópu. Í Bandaríkjunum er lítill hópur fræðimanna sem telur trúfrelsi ekki nauðsynlegt. Glendon taldi áhyggjuefni ef þeim hópi vex ásmegin.

Glendon benti á að þótt herskátt trúleysi geti reynst trúfrelsinu ógn sé sinnuleysið um það enn hættulegra. Til að láta sér annt um trúfrelsið er nauðsynlegt að skilja inntak þess og mikilvægi. Í margra hugum er frelsið fyrst og fremst fólgið í afnámi hafta. Trúfrelsi er annarrar tegundar. Það frelsi virkja menn til að sinna skyldum sínum. Trúfrelsið er tengt öðru frelsi og ætíð til í samhengi við það. Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er ekki listi með upptalningu á aðskiljanlegum réttindum heldur heild þar sem skerðing á einni tegund frelsis minnkar gildi annars frelsis og annarra réttinda. Trúfrelsið er eitt kjarnaatriði frjálslyndra samfélaga og yfirlýsing um að manneskjan sé ekki eign ríkisins.

Þetta síðasttalda atriði var áréttað í erindi Mark Hill, lögfræðings og fræðimanns sem hefur sérhæft sig í kirkjurétti og er í stjórn evrópskrar samvinnustofnunar sem rannsakar tengsl ríkis og kirkju. Hann lagði áherslu á að trúfrelsið væri ekki viðbót við önnur mannréttindi heldur einn grundvöllur þeirra. Í erindi sínu fór hann meðal annars yfir sögu trúfrelsisins og minnti á að trúarlegir minnihlutahópar hefðu á sínum tíma haldið því fram að yfirvöld réðu ekki yfir samvisku einstaklingsins. Hill rifjaði meðal annars upp sögu ítalska lagaprófessorsins Alberico Gentili, eitt dæmi um að mannréttindahreyfingar okkar tíma eiga sér trúarlegar rætur.

John Witte er prófessor í lögum við Emory háskólann í Bandaríkjunum og veitir forstöðu rannsóknarstofnun um lög og trú. Hann fjallaði um bandarísku stjórnarskrána og sagði að trúfrelsið væri ein máttarstoð lýðræðisins. Mikilvægt væri að í stjórnarskrám lýðræðisríkja væri tekið tillit til sjónarmið allra þegnanna, líka minnihlutahópanna.

Fjallað var um það sjónarmið heimspekilega í erindi breska heimspekingsins Roger Trigg.  Hann benti á að í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna sé rætt um trúfrelsi, skoðanafrelsi og samviskufrelsi. Rétt sé að hafa þessar þrjár tegundir frelsis aðgreindar því þær fjalli ekki um það sama þótt sumir fræðimenn telji að nóg sé að ræða um samviskufrelsið. Trúfrelsi er ekki bara um það sem mér finnst. Það er hlutlægara en samviskufrelsið. Munurinn á trú og samvisku er líka í því fólginn að trúin hefur stofnanalega hlið sem samviskan hefur ekki.

Trigg sagði trúna náttúrulega, hluta þess að vera manneskja og benti á að ríki sem ekki virði trúfrelsið virði oftast ekki annað frelsi. Hann lýsti áhyggjum sínum af oft mjög einsleitum skoðunum í háskólasamfélaginu og sagði það sína skoðun að nútíma fræðimennska á mörgum sviðum þjáðist af töluverðum timburmönnum eftir  "rökfræðilegt raunhyggjufyllerí" síðustu aldar.

Nigel Biggar er prófessor í kennimannlegri guðfræði við háskólann í Öxnafurðu. Hann var ef til vill svartsýnastur fyrirlesaranna. Mér fannst hann kveða býsna sterkt að orði þegar hann lýsti því yfir að villimennskan væri mætt í borgarhliðin. Biggar er þeirrar skoðunar að anglíkanska kirkjan eigi að halda áfram að njóta sérstöðu í ensku þjóðskipulagi enda vilji hún næra dyggðir sem séu nauðsynlegar hverju frjálslyndu samfélagi. Frjálslynt þjóðfélag þurfi frjálslynda borgara.

Þá var komið að fyrirlestrinum sem ég hafði beðið með hvað mestri óþreyju, framlagi hinnar frönsku Cecile Laborde en hún er prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Oxford. Laborde sendi nýlega frá sér bókina Liberalism´s Religion sem sumir telja boða töluverð tíðindi í fræðilegri umfjöllun um tengsl trúarbragða og ríkis enda þar fjallað um efnið með nýstárlegum hætti (hér má lesa útdrátt höfundarins á efni bókarinnar). Nútímasamfélög byggjast á fjölhyggju og þess vegna hefur hin viðtekna skoðun verið sú, að ríkið eigi ekki að taka sér stöðu með einu trúfélagi. Laborde veltir þeirri afstöðu fyrir sér og spyr hvernig nákvæmlega það ógni hlutleysi ríkisins og í hverju það hlutleysi eigi að vera fólgið. Hún segir leiðina sem farin hefur verið í Frakklandi og Bandaríkjunum, þar sem á að vera algjör aðskilnaður á milli kirkju og ríkis, ekki þá einu til að þjóðfélagið geti talist frjálslynt fjölhyggjusamfélag. Uppfylli þjóðfélög ákveðin skilyrði geta ríki haft formleg trúarleg tengsl og samt talist frjálslynd, segir Laborde, og er sammála þeim sem segja að fyrirkomulagið á Englandi, þar sem er ein "established" kirkja, brjóti ekki endilega í bága við frjálsynd sjónarmið.

Norman Doe er sérfræðingur í kirkjurétti og höfundur bóka um efnið. Hann gagnrýndi kirkjurnar í okkar heimshluta fyrir að beita sér ekki nóg í þágu trúfrelsisins. Trúfrelsinu er að hans mati ekki ógnað af löggjöf í vestrænum ríkjum þótt ýmsu sé ábótavant í framkvæmdinni. Doe sagði fræðimenn á sviðinu yfirleitt vilja ganga lengra til varnar trúfrelsinu en kirkjurnar séu tilbúnar til að gera og vill að þær verði mun ákafari talsmenn trúfrelsis en raunin er á okkar tímum.

Rick Garnett er prófessor við Notre Dame háskólann í USA og sérhæfir sig í rannsóknum á málfrelsi, skoðanafrelsi, samviskufrelsi og trúfrelsi. Í erindi sínu benti hann á að trúfrelsið sé ekki bara einstaklinganna heldur líka trúarsamfélaganna og kirknanna. Frelsi kirknanna er meira en réttur þeirra. Það er ennfremur tæki til að verja trúfrelsi einstaklinganna og mannréttindi þeirra. Alveg eins og tjáningarfrelsið þarfnast meira en lagalegrar verndar - til dæmis líka frjálsrar fjölmiðlunar - þarf trúfrelsið líka sitt kerfi (infrastructure) til að virka. Garnett telur trúfrelsið enn ekki vera í hættu þótt hafa megi ákveðnar áhyggjur af í fyrsta lagi afleitri og hrokafullri framkomu of margra trúarleiðtoga sem gæti falið í sér hættur fyrir trúfrelsið, í öðru lagi tilhneigingu til að afstofnanavæða samfélög, í þriðja lagi fjölgun þeirra sem vilja standa utan trúfélaga og telja sig því ekki hafa mikla þörf fyrir trúfrelsið og síðast en ekki síst vaxandi tilhneigingar til að líta á trúfrelsi sem munað fyrir fáa útvalda.

Myndin: Dagana sem ég var á ráðstefnunni gisti ég á Keble College í Oxford. Herbergið þar fékk ég á síðunni www.universityrooms.com/.  Það var notalegt, vel staðsett og umhverfið mjög í þeim anda sem er ríkjandi í þessari fornfrægu háskólaborg. Myndin er af morgunverðarsalnum á Keble.