Fjölmiðlapistill

12/07/2019

Í Sovétríkjunum sálugu réð flokkur kommúnista öllu eins og í öðrum alræðisríkjum, þar á meðal fjölmiðlunum. Stjórnvöld miðluðu fréttum og öðrum skilaboðum til almennings í opinberu dagblaði sínu, Pravda, sem þýðir sannleikur. Til þess að finna sannleikann var með öðrum orðum nóg að lesa Prövdu. Þar var hinn eina sannleik að finna og því ekki þörf á að hafa annan í boði.

Eitt af því sem á að gera lýðræði gjörólíkt alræði er að í lýðræðisríkjum fá mismunandi og andstæð viðhorf að takast á. Lýðræðismenning verður meðal annars að veruleika við það að þar er borgurunum tryggður aðgangur að fjölbreytilegum skoðunum og sjónarhornum. Litskrúðug fjölmiðlaflóra er ein forsenda þess að lýðræðið virki enda þótt til þess þurfi líka mynduga notendur fjölmiðla sem hafa tileinkað sér gagnrýna hugsun og kunna skil á helstu reglum lýðræðislegrar umræðu.

Að því er stundum fundið að einkafyrirtæki og auðhringir eigi hlut í fjölmiðlum. Mér finnst í sjálfu sér ekkert athugavert við það enda verður varla séð að einkareknir fjölmiðlar geti þrifist án þess konar stuðnings. Þar að auki er frelsið til að koma upplýsingum á framfæri, prentfrelsið eða fjölmiðlafrelsið, ein undirstaða allra réttarríkja.

Það er á hinn bóginn hættuleg þróun ef upplýsingagjöf, umræða og fréttflutningur kemst á hendur örfárra hagsmunaaðila. Það veldur einhæfri umræðu og ógnar með því lýðræðinu. Þess vegna hefur Evrópuráðið lagt til að aðildarríki þess setji lög og reglur "til að hamla gegn samþjöppun sem gæti stefnt markmiðum um fjölbreytni í hættu".

Sennilega voru ítök öflugra auðhringja í íslenskum fjölmiðlum helsta ástæða þeirrar niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslensku bankanna, að á árunum fyrir hrun hafi fjölmiðlarnir brugðist því hlutverki sínu að "veita aðhald þeim öflum sem vinna gegn almannahag" og hvorki verið nógu sjálfstæðir né vakandi fyrir hættumerkjum.

Í smáríki eins og Íslandi er ekki erfitt að ná tangarhaldi á umræðunni með því að eignast þá fáu einkareknu fjölmiðla sem hér starfa. Í það stefndi á sínum tíma - að því er virðist með samþykki og velvild þjóðarinnar. Það má ekki gerast. Þess vegna er Ríkisútvarpið okkur svo óendanlega dýrmæt stofnun. Það þarf að efla og gera því kleift að þjóna enn betur hlutverki sínu en það gerir núna. Meðal þess sem ég held að þurfi að gera er annars vegar að breyta yfirstjórn RÚV þannig að hún losni undan drottnunarvaldi stjórnmálaflokka og hætti að verða bitbein þeirra. Því mætti koma til leiðar með því að gera RÚV að raunverulegu þjóðarútvarpi þar sem fulltrúar allra helstu fjöldahreyfinga skipa stjórnina. 

Hins vegar á ríkið að hætta að reka diskótek og afþreyingarfjölmiðil en einbeita sér að því að gegna skyldum sínum við þjóðina með því að sinna menningu, fræðslu, fréttum og lýðræðislegri umræðu.

Ríkisútvarpið er ein af okkar mikilvægustu stofnunum. Engu að síður þurfum við fleiri fjölmiðla en það. Lýðræðið getur ekki látið Prövduna sér nægja. Einkareknir fjölmiðlar eru því einnig ómetanlegir. Við þurfum að finna leiðir til að efla þá í okkar fámenna landi. Þá er ekki síst ástæða til að beina athyglinni að svæðisbundnum fjölmiðlum - en hér skrifar fyrrum útgefandi eins slíks. Rannsóknir sýna að mikilvægustu miðlarnir séu þeir sem fjalla um nærumhverfi fólks og tengja það umheiminum.

Að lokum: Nú eru blaðamenn Íslands í kjarabaráttu. Þeir eiga stuðning minn. Til lánsins eigum við marga mjög vel skrifandi, vel menntaða og reynslumikla blaðamenn. Ég hef samt á tilfinningunni að þannig blaðamönnum fækki í öfugu hlutfalli við ambögurnar, rangfærslurnar, óhlutlægnina, ófyrirleitnina og fordómana sem ég rekst því miður í vaxandi mæli á í íslenskum fjölmiðlum.

Blaðamenn eru þjóðþrifastétt. Oft vinna þeir erfið og vanþakklát störf og stunda illa séðar ræstingar á kerfinu. Til þess þarf sterk bein, beittan vilja og djúpa þekkingu.

Fólk gætt þeim eiginleikum fæst ekki í vinnu nema það fái sómasamleg laun.

Myndin: Fátt er fegurra en nýfallin mjöll. Veðurspá næstu daga gefur fyrirheit um að við Akureyringar gætum verið að fá jólasnjóinn.