Forheimskandi þjóðmálaumræða

Jón Hjaltason, sagnfræðingur, skoðaði aðkomu sr. Matthíasar Jochumssonar að þjóðmálaumræðunni á þeim tíma þegar skáldpresturinn var ritstjóri Þjóðólfs. Ein niðurstaða þeirrar rannsóknar var, að ekki hafi verið háttur sr. Matthíasar að skattyrðast við menn og aðeins í örfáum undantekningartilfellum hafi hann vegið að nafngreindum einstaklingum í greinum sínum í Þjóðólfi.
Á þetta bendir dr. Gunnar Kristjánsson í frábærlega skemmtilegri og fróðlegri bók sinni Úr hugarheimi séra Matthíasar sem út kom nú fyrir jólin. Í því samhengi birtir dr. Gunnar ljóðið Dæmið varlega eftir Matthías sem lesa mátti á síðum Þjóðólfs sumarið 1874.
"Að finna brest hjá breyskum er svo hægt,
og brotin dæma hart en tildrög vægt,
því heimskan sér ei hulda sakarbót
og höggur tréð en ei þess spilltu rót;
En þetta varast vinur sannleikans,
hann vægir jafnan breyskleik einstaks manns,
og slær ei veldishendi visið blóm,
en vonzka landsins fær sinn þunga dóm."
Þessa varnaðarorð sr. Matthíasar eiga að mínu mati erindi við okkar tíma þegar fjölmiðlar láta þjóðmálaumræðuna í sívaxandi mæli snúast um einstaka menn og klifa stöðugt á sömu nöfnunun en gefa síður gaum að hinu stærra samhengi - eða "vonzku landsins" eins og það er kallað í ljóðinu.
Í sama blað skrifar sr. Matthías:
"Hin bezta aðferð til þess, að útrýma heimsku og hleypidómum, er ekki sú, að höggva til beggja handa, heldr sú að innræta mönnum ný stór-sannindi, þau sem ekki er hægt að samrýma villunni, heldr lyfta huganum upp yfir hana. Hin forna galdra- og draugatrú var ekki hrakin með ástæðum, trauðla nokkur bók var rituð beinlínis í því skyni, að hrekja hana, heldr óx fólkið smámsaman upp úr henni. Aftrgöngurnar, sem ásótt höfðu öld eptir öld hinn myrkfælna lýð, urðu loks að flýja fyrir ljósi bjartari þekkingar, enda höfðu menn lengi ímyndað sér að tröll og óvættir "döguðu uppi"."