Fórnin

04/13/2020

Í fréttum síðustu daga og vikna hefur komið fram hversu gífurlega og erfiða vinnu heibrigðisstéttir hafa lagt á sig í kórónafaraldrinum. Margir hafa unnið myrkranna á milli og stofnað heilsu sinni og jafnvel lífi í hættu. Ekki einungis þau sem eru í fremstu víglínu hafa þurft að leggja hart að sér. Fleiri starfsstéttir hafa unnið baki brotnu og gert miklu meira en þeim bar skylda til. Við stöndum í mikilli þakkarskuld við allt þetta fólk.

Samfélag okkar mannanna þrifist ekki án fórna. Nú fórnar fólk tíma sínum, kröftum og fjármunum í baráttu við skæðan sjúkdóm, til varnar þeim sem eru í mestri hættu ef þau sýkjast af vírusnum. Fólk fórnar sér í þágu þeirra veikustu og viðkvæmustu í samfélaginu.

Ekki bara á þessum undarlegu tímum upplifum við að fólk færi fórnir í okkar þágu. Árið um kring eru til dæmis björgunarsveitir til taks fyrir okkur ef við rötum í ógöngur, ótal sjálfboðaliðar sem eru fúsir til að gefa okkur tíma sinn og krafta og leggja sig jafnvel í hættu til að bjarga okkur. Fórnfúst fólk er víða að finna, Guði sé lof. Fórnfýsin er kjarni samfélagsins og siðmenningarinnar. Án fórnfýsi næðu hér völdum miskunnarleysi og glerhörð lögmál hjartakuldans.

Þau sem fórna sér fyrir okkur geta verið nálægt okkur, í fjölskyldunni og meðal ættingja og vina. Líka bláókunnugt fólk veitir okkur lið og kemur okkur til hjálpar, opnar fyrir okkur dyr, ýtir bílnum ef hann festist í snjónum eða hjálpar okkur á fætur ef við dettum á svellinu.

Föstudagurinn langi er dagur fórnarinnar. Í dag íhugum við kross Jesú Krists og dauða hans. Fórnin er jafn fyrirferðarmikil og miðlæg í táknmáli og hugmyndaheimi trúarinnar og hún er framandi í veröld sem metur mest óhóf og gegndarlausa neyslu. Fórnin er kjarnaatriði í samfélagi þar sem við hjálpumst að en aðskotahlutur í tilvist þar sem hver hugsar bara um sig, otar sínum tota og hugsar um það eitt að ná til sín sem mestu.

Það er samhengi á milli fórnar og ástar. Fórnin er afleiðing ástar. Kærleikur sem birtist í verki en er ekki bara í orði gerir til okkar kröfur. Ástin hefur ekki bara í för með sér kitlandi kenndir og vellíðan heldur verður hún þess iðulega valdandi að við þurfum að neita okkur um eitthvað. Kærleikurinn krefst fórna. Síðustu vikurnar höfum við svo sannarlega fengið að upplifa það með ýmsum hætti. Það er ekki síst fórnandi kærleik að þakka að við munum komast í gegnum þessar hremmingar. Við munum sigra í þessari baráttu vegna þess að hér er fólk sem lætur sér það annt um samfélagið að það er tilbúið að færa fórnir í smáu sem stóru.

Föstudagurinn langi minnir okkur á þetta samhengi á milli ástar og fórnar. "Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf," segir ritningarvers sem kallað hefur verið Litla Biblían.

Föstudagurinn langi birtir okkur fórnandi kærleika Guðs, kærleika sem er tilbúin að leggja eitthvað á sig. Við erum kvíðin. Við höfum áhyggjur. Við höfum villst af leið. Við eigum margar stórar spurningar en finnum ekki svör. Við megum samt treysta kærleika Guðs. Við megum treysta því að við erum umvafin fórnandi elskandi mætti sem leggur allt í sölurnar fyrir okkur.

(Hugvekja á nethelgistund í Akureyrarkirkju á föstudeginum langa 2020. Hana má sjá hér: https://www.facebook.com/akureyrarkirkja/videos/1119421028399767  Þar syngur Kolbrún Jónsdóttir blessunarsöng eftir bandaríska tónskáldið Meredith Willson. Textann gerði ég. Myndin er úr kirkjugarðinum á Naustahöfða)