Fullvel man ég fimmtíu ára sól

12/07/2020


Á jólasíðu Júlla (julli.is) fann ég skemmtilegar minningar Önnu Jóhannsdóttur, ömmu konunnar minnar. Anna, sem var yngst sex systkina, ólst upp í Brekkukoti í Svarfaðardal. Árið 1986 rifjaði hún upp bernskujólin sín í viðtali sem birtist í Bæjarpóstinum á Dalvík.

Ekki voru efnin mikil þegar Anna var að alast upp. Þó leið enginn skort og hún tekur fram í viðtalinu að hún hafi átt góð æsku. Fólk var nægjusamt og kunni að gleðjast yfir litlu. Pabbi Önnu var ágætur smiður og smíðaði jólatré sem krakkarnir löbbuðu í kringum þegar hátíðin hafði gengið í garð.

Þá var sungið kvæði sr. Matthíasar Jochumssonar, Jólin 1891, við smíðað jólatréð í litlu baðstofunni í Brekkukoti, sem hefst á orðunum:

"Fullvel man ég fimmtíu ára sól"

Var kvæðið sungið allt, öll fjórtán erindin. Í viðtalinu segist Anna hafa haldið þessum sið og látið syngja Jólin 1891 þegar hún fór að búa með eiginmanni sínum, Daníel Júlíussyni, í Syðra-Garðshorni í Svarfaðardal.

Þar lærði tengdafaðir minn ljóð og lag og söng það fyrir mig fyrr í kvöld. Ég hafði lesið það áður en nú snart þessi listakveðskapur sr. Matthíasar mig með sérstökum hætti.

Jólin 1891 er mikil saga og djúp. Kvæðið er fallega smíðað og þótt höfundurinn hafi verið reikull í skoðunum og ekki alltaf farið troðnu slóðirnar í guðfræðinni leynist engum að það streymir úr trúaðri sál.

Fullvel man ég fimmtíu ára sól,
fullvel meir en hálfrar aldar jól,
man það fyrst, er sviptur allri sút
sat ég barn með rauðan vasaklút.

Kertin brunnu bjart í lágum snúð,
bræður fjórir áttu ljósin prúð,
mamma settist sjálf við okkar borð;
sjáið, enn þá man ég hennar orð:

"Þessa hátíð gefur okkur Guð,
Guð, hann skapar allan lífsfögnuð,
án hans gæsku aldrei sprytti rós,
án hans náðar dæi sérhvert ljós.

Þessi ljós, sem gleðja ykkar geð,
Guð hefir kveikt, svo dýrð hans gætuð séð;
jólagleðin ljúfa lausnarans
leiðir okkur nú að jötu hans."

Síðan hóf hún heilög sagnamál,
himnesk birta skein í okkar sál;
aldrei skyn né skilningskraftur minn
skildi betur jólaboðskapinn.

Margan boðskap hef ég hálfa öld
heyrt og numið fram á þetta kvöld,
sem mér kveikti ljós við ljós í sál, -
ljós, sem oftast hurfu þó sem tál.

Hvað er jafnvel höndum tekið hnoss?
Hismi, bóla, ský sem gabbar oss,
þóttú vinnir gjörvallt heimsins glys,
grípur þú þó aldrei nema fis!

Ársól hver, sem öllu fögru hét,
ætíð hvarf á meðan rósin grét,
vorið hvert, sem bauð mér betri hag,
brást mér löngu fyrir vetrardag.

Lukkan sagði: "Vind upp mína voð:
veröld alla gyllir sólarroð,
fyrir stafni leiftra sérðu ljós,
lukku þinnar frægð og sigurhrós."

Hvað varð úr því öllu? Last og hrós,
óró, blekking, trufl og villuljós!
Hafi nokkur hreinan sálarfrið
hjartafeginn skipti ég hann við.

Þessi fáu, fölu lukkublóm
fælast lífsins kalda skapadóm;
allt vort hrós í hreggi veraldar
hrekst á milli drambs og öfundar.

Loks er eitt það "evangelíum",
er oss býðst hjá tímans vitringum:
"Trú er hjátrú, heimur töfraspil,
himinn, Guð og sál er ekki til!" -

Ljá mér, fá mér litlafingur þinn,
ljúfa smábarn; hvar er frelsarinn?
Fyrir hálmstrá herrans jötu frá
hendi ég öllu: lofti, jörðu, sjá!

Lát mig horfa á litlu kertin þín:
Ljósin gömlu sé ég þarna mín!
Ég er aftur jólaborðin við,
ég á enn minn gamla sálarfrið.

Myndin tók ég um síðustu helgi í Svarfaðardal.

(Í sumum útgáfum endar þriðja erindi ljóðsins á orðinu "ljóð" en ekki "ljós". Ég hef þetta eins og tengdapabbi söng það - enda finnst mér það fallegra.)