Góður blóðtökumaður

10/12/2019


Mannlýsingar fyrri tíma eru margar hverjar settar saman af mikilli hugkvæmni, smekkvísi og andagift. Iðulega er ýmislegt þar á milli lína og því fleira sagt en í letur er fært. Gætum við sem höfum atvinnu af því að rita eftirmæli um fólk margt lært af þessum gömlu rithöfundum. Fátt geri ég skemmtilegra en að lesa vel samdar lýsingar á manneskjum. Þegar best tekst til standa þær ljóslifandi fyrir framan mann og stundum heyrir maður þær mæla - og jafnvel syngja eða glíma.

Sighvatur Grímsson Borgfirðingur var einn þessara ritsnillinga. Hann var 19. aldar maður og bjó lengst af við það sára fátækt að engin tækifæri voru til menntunar. Hvorki skorti hann þó gáfurnar né viljann. Sighvatur var afkastamikill fræðimaður og sennilega einn sá merkasti á landinu á sínum tíma. Sighvatur ritaði meðal annars Prestaæfir á Íslandi og er það hans frægasta verk. Þar er að finna þessa lýsingu á Arnóri prófasti Jónssyni í Vatnsfirði (1772 - 1853):

"Arnór prófastur var með lægstu mönnum á hæð, en þrekvaxinn, smáfallinn í andliti og óskörulegur að sjá, en þó eygður vel, hafði ljósleitt hár, sem náði að öxlum niður. Hann var rammur að afli og frábær glímumaður, svo að frægt er. Þar er frægt orðið, að þá er séra Arnór var prestur í Hestþingum og Jón Espólín sýslumaður í Þingnesi, sem var mjög stór vexti og manna sterkastur hér á landi um sína tíð, þá reyndu þeir með sér glímu, og varpaði séra Arnór bráðlega Espólín til jarðar, hló við og mælti: "Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi." Það sögðu nákunnugir menn, að svo hefði séra Arnór verið afburða knár og skarpur, að enginn maður stóðst hann í glímu til síðasta æviárs. Var hann hinn mesti fjörmaður og hvatlegur. Lék hann ýmsar þær íþróttir á elliárum, sem nálega enginn fékk eftir leikið, bæði handahlaup og stökk. Hann var gáfumaður hinn mesti og snillingur að íþróttum, vel lærður og mælskumaður, enginn raddmaður, en þó lagsæll; hafði alloft mikinn flýti á embættisverkum sínum, og sagði hann að menn ættu að flýta sér að þeim sem öðrum verkum, og hirðulaus var hann með færslu á embættisbókum sínum. Hann var glaðsinna og glaðvær og ræðinn mjög, afbragðs-gestrisinn, kappsfullur við hvað eina, góður blóðtökumaður, fékkst talsvert við lækningar; varð hann þannig mörgum að liði. Hann var ágætlega að sér í norrænum fornfræðum og unni mjög hvers konar vísindum. Vel var hann að sér í lögum. Mörgum piltum kenndi hann undir skóla og útskrifaði nokkra þeirra sjálfur. Siðferðisgóður var hann og vel liðinn af sóknarfólki sínu. Ekki þótti hann trúmaður úr hófi fram, sízt á fyrri árum. Hann var skáld gott og hefur ort og útlagt margt."

(Myndina tók ég í Ísafjarðardjúpi)