Gúmmískórnir mínir

05/22/2022


Ég keypti mér gúmmískó í dag. 

Þegar ég eignaðist mína fyrstu svaf ég í þeim þá um nóttina. Mörg ár eru síðan en lítið hefur breyst.


Gangi ég hinn vafasama veg,

við mér blasir auðnuleysi og tóm,

villuför mín reynist rosaleg:

Ég rata heim á mínum gúmmískóm.


Hnúkaþeyrinn yndisilm mér ber.

Ó, hve lyktar sætt hið fagra blóm!

Varla margt þó unaðslegra er

en ilmurinn af nýjum gúmmískóm.


Þótt fæðan oft mér bragðist býsna vel,

og bæði daðri ljúft við tungu og góm,

ég þá í eldamennsku mesta tel

sem matreiða úr ferskum gúmmískóm.


Allt á jörðu fær sinn fastaskammt,

fallvaltleikans harða skapadóm.

Nánast heila eilífð á ég samt:

Hið eina og sanna par af gúmmískóm.


Mörg mér hafa glatast jarðnesk gull,

græðgin í þau læsir sínum klóm.

Þar á móti hefnd mér hlotnast full

ef held ég mínum dyggu gúmmískóm.


Hugboð gjarnan inni í mér finn,

yfirskilvitlegan heyri róm:

"Góða leið þér veldu, vinur minn,

og vertu alltaf búinn gúmmískóm!"


Ófá hér í veröld villa á sér,

vilja sýnast bæði góð og fróm.

Þó er víst að flotta fólkið er

ei fótgangandi nema á gúmmískóm.


Gæðastundir gefur músíkin,

gleðin vex við hennar blíða óm.

Alltaf þó af unaði ég styn

ef eyrun nema þramm í gúmmískóm.