Hin höfgu tár

04/28/2021

Í dag var jarðsungin frá Akureyrarkirkju Ragnheiður Aðalgunnur Kristinsdóttir, fædd árið 1929 í Jökulsárhlíð. Hún vann um árabil á sambýlum fatlaðra hér í bæ. Ragnheiður og eiginmaður hennar, Anton Kristinn Jónsson, eignuðust fimm börn, Reyni Heiðar, Jónu Kristínu, Ragnheiði, Arndísi og Börk.

Lagið "As Tears Go By" var meðal þess sem sungið var við athöfnina. Það er samið af hljómsveitinni Rolling Stones og umboðsmanni hennar. Enska söngkonan Marianne Faithfull söng það inn á smáskífu árið 1964, ári áður en höfundar þess hljóðrituðu sína útgáfu af því.

Íslenskan texta við lagið gerði sonur hinnar látnu heiðurskonu, Reynir Heiðar. Hann er stjórnmálafræðingur að mennt, lærði í Grenoble í Frakklandi en hefur lengst af búið á Akureyri og stundað blaðamennsku og ritstörf.

Mér þótti ljóð Reynis, Hin höfgu tár, afar fallegt. Áhrif lags og ljóðs eru þung og megn - höfug. Reynir gaf mér leyfi til að birta ljóðið hér.


Komið að kvöldi þessa dags

klæðist allt loga sólarlags

brosin eru mörg svo blíð

frá bernskutíð

ég sit og höfug falla tár


Úti er hryðja köld og hríð

heimskuleg alltaf manna stríð

samt þá eru brosin blíð

frá bernskutíð

ég sit og höfug falla tár


Komið að kvöldi þessa dags

klæðist land roða sólarlags

allt sem heyrist er hugans regn

sem að heiminn mun væta í gegn

ég sit og höfug falla tár 


Myndina tók ég í kirkjugarðinum á Naustahöfða