Hvað gerði Samverjinn?

Nú í vikunni las ég frétt um frægt fólk í íslenskum fjölmiðli þar sem sagt var frá því að fræga fólkið hefði skemmt sér í afmæli frægrar konu suður á Ítalíu. Ég kannaðist ekki við afmælisbarnið og ekki nema örfáa af þeim frægu afmælisgestum sem taldir voru upp í fréttinni. Mikið þjóðþrifaverk vinna blaðamenn landsins með því að halda almúganum upplýstum um veisluhöld fræga fólksins - en sagt er að margt af því sé einkum frægt fyrir að vera frægt.
Miskunnsami Samverjinn er býsna frægur. Frægð hans skýrist af því að hann er aðalpersónan í einni af frægustu sögum Jesú Krists. Sumir öðlast frægð vegna afreka sem þeir vinna. Afrek Samverjans var að hann hjálpaði manni í vanda. Vel má líta á það sem þrekvirki eða hetjudáð en þótt flestir hafi sem betur fer gert eitthvað svipað, liðsinnt einhverjum sem ratað hefur í vandræði, hafa fæstir öðlast heimsfrægð fyrir slík viðvik eða greiðasemi.
Maðurinn sem naut hjálpar miskunnsama Samverjans er líka nokkuð frægur. Kannski má segja að hann sé eitt þekktasta fórnarlamb sögunnar. Þó er hann sama marki brenndur og velgjörðarmaður hans. Við vitum eiginlega ekkert um þá báða, hvað þeir hétu eða hverjir þeir voru, ekkert annað en að annar var Samverji, sem þótti ekkert sérstaklega fínn uppruni á þeim tíma, og hinn var hjálpar þurfi. Og sá miskunnsami og sá sem miskunnarinnar naut eiga það sameiginlegt að þeir voru í raun ekki til. Þeir voru sögupersónur.
Þó gætu þeir alveg hafa verið til því við þekkjum öll dæmi um fólk eins og þá, fólk sem hefur lent í neyð og fólk sem hefur hjálpað þeim sem lent hafa í neyð. Við höfum sjálf verið í sporum þeirra beggja. Við getum vel sett okkur í spor mannsins sem var í vanda og við getum sem betur fer líka sett okkur í spor þess sem hjálpaði. Þannig geta uppdiktaðar sögur verið sannari en raunveruleikinn og það sem hefur gerst í veruleikanum.
Í þessu felst máttur allra sagna: við getum klætt okkur í persónurnar, sett okkur í þeirra spor, lifað okkur inn í hlutskipti þeirra, skilið hegun þeirra, skynjað líðan þeirra og gert orð þeirra að okkar eigin. Þess vegna geta sögur verið svo áhrifaríkar og snert okkur svo innilega.
Jesús gerði sér grein fyrir þessum áhrifamætti sagnanna. Hann notaði gjarnan sögur til að koma boðskap sínum til skila og í guðpjöllunum er sagt að hann hafi helst ekki talað við fólk öðruvísi en í sögum.
Sögur verða sjaldnast til úr engu. Þær þurfa tilefni. Þær eru sagðar í samhengi. Saga Jesú um miskunnsama Samverjann er engin undantekning frá því. Tilefni hennar er spurning. Lögvitringur spurði Jesú að því hvað hann þyrfti að gera til að öðlast eilíft líf. Jesús svaraði honum með því að segja að hann ætti að elska Guð og elska náungann eins og sjálfan sig.
Það svar nægði lögvitringnum ekki. Honum fannst það ekki nógu skýrt. Og það var ekki þetta með að elska Guð sem vafðist fyrir honum heldur hitt skilyrðið, þetta með að elska náungann. Lögvitringurinn vildi fá að vita hver væri náungi sinn. Og ef til vill er það skiljanleg afstaða. Kannski er ekki erfiðast að elska Guð eða sjálfan sig. Vandamálið er frekar náunginn.
Og þess vegna sagði Jesús þessa sögu. Hann sagði hana til að svara spurningunni um hver náungi okkar sé.
Og eitt það merkilegasta við þessa sögu er að þegar Jesús var búinn að segja lögvitringnum frá miskunnsama Samverjann snýr hann upphaflegri spurningu hans við. Hin afgerandi spurning er ekki hver sé náungi okkar.
Þvert á móti spyr Jesús lögvitringinn: "Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni sem féll í hendur ræningjum?"!
Og þeirri spurningu er beint að okkur í dag.
Hverjum reynist þú náungi?
Það er engu að síður nærtækt og nauðsynlegt að spyrja hver sé náungi okkar. Hver þurfi á hjálp okkar að halda. Ekki er nema eðlilegt að við veltum því fyrir okkur og ræðum það. Hverra hlut þarf að rétta? Hvernig getum við bætt samfélagið?
Það eru góðar spurningar og nauðsynlegar en eiga það samt sameiginlegt að þær beinast frá okkur, að öðrum. Þótt við finnum hópana og einstaklingana sem eru í neyð og þurfa liðsinni, er ekkert víst að það séum við sjálf sem eigum að stökkva til og hjálpa og auðsýna miskunn.
Takið eftir: Það er sérstaklega tekið fram í guðspjallinu að bæði presturinn og levítinn hafi séð manninn sem var í neyð. Þeir vissu alveg hver þurfti á hjálp þeirra að halda. Þeir ákváðu samt að aðhafast ekkert.
Það er ekki nóg að vita hver náungi manns sé.
Stóra spurningin, segir Jesús, er sú hverjum þú reynist náungi?
Hverjum reynist ég náungi?
Sú spurning beinist ekki frá okkur. Henni er beint að okkur.
Það að elska Guð er ekkert endilega að þvælast mikið fyrir okkur og er ekki bara ágætt fyrirkomulag að hafa hann þar sem hann er? Uppi á himninum eða inni í kirkjunum? Og er ekki ósköp fyrirhafnarlítið og þægilegt að elska þannig Guð sem er til friðs á sínum stað og er ekki að skipta sér of mikið af þessu öllu?
En það er erfiðara að elska náungann eins og Jesús skilgreinir hann: Hvern þann sem þarfnast þín. Hvern þann sem á vegi þínum verður og þarf á þér að halda.
Hverjum reynist þú náungi?
"Far þú og ger hið sama," sagði Jesús við lögvitringinn eftir að hann var búinn að segja söguna um miskunnsama Samverjann.
Og hvað gerði Samverjinn?
Söng hann sálm? Fór hann með bæn? Vitnaði hann í fallegan texta? Skrifaði hann mótmælabréf? Birti hann harðorðan pistil á netinu? Gagnrýndi hann ranglátt kerfi? Efndi hann til mótmæla?
Allt þetta er gott og blessað og allt þetta er nauðsynlegt en Samverjinn víðfrægi gerði ekkert af þessu.
Við skulum rifja upp það sem hann gerði:
"En Samverji nokkur, er var
á ferð, kom að honum og er hann sá hann kenndi hann í brjósti um hann, gekk til
hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á
sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann. Daginn eftir
tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: Lát þér annt um hann og
það sem þú kostar meira til skal ég borga þér þegar ég kem aftur."
Prédikun út frá sögunni um miskunnsama Samverjann úr 10. kafla Lúkasarguðspjalls sem ég flutti í guðsþjónstu í Akureyrarkirkju í dag, á degi kærleiksþjónustunnar.
Myndina tók ég í labbitúr í Kjarnaskógi í gær.