Hvort viltu vera til bölvunar eða blessunar?

11/25/2018

Prédikun mín í Akureyrarkirkju í dag, á síðasta sunnudegi kirkjuársins

Guðspjallið: Matteus 25, 31-46

Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum og hann mun skilja þær að eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar en höfrunum til vinstri. Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: Komið þér, sem faðir minn á og blessar, og takið við ríkinu sem yður var ætlað frá grundvöllun heims. Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.
Þá munu þeir réttlátu segja: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.
Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég en þér hýstuð mig ekki, nakinn en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi en ekki vitjuðuð þér mín. Þá munu þeir svara: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi og hjálpuðum þér ekki? Hann mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér. Og þeir munu fara til eilífrar refsingar en hinir réttlátu til eilífs lífs."


Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Nú eru breytingar á lögum um helgidagafrið í umsagnarferli í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar eins og það er kallað. Nái breytingartillögur dómsmálaráðherra fram að ganga, verða öll bönn um helgidagafrið felld úr gildi. Þá rætist loksins langþráður draumur þeirra sem hafa barist fyrir því að mega spilað bingó á föstudaginn langa.

Ekki ætla ég að fjalla nánar um þessar lagabreytingar hér en mér finnst athyglisvert, að um leið og til stendur að minnka vægi helgra daga og hátíða er verið að fjölga ýmsum öðrum tyllidögum. Nýlokið er svonefndum Svörtum föstudegi. Við höfum Valentínusardag og ekki er langt síðan Íslendingar héldu upp á Hrekkjavöku eða Halloween. Hér á Akureyri höfum við líka Dömulega dekurdaga, svo nokkuð sé nefnt.

Jólin eru fyrir löngu orðin mikil neysluhátíð og á síðustu árum hefur tekist að gera jólaföstuna að einni allsherjar átveislu. Aðrir helgidagar virðast hljóta svipuð örlög og ekki hægt að gera sér dagamun nema taka upp veskið. Þessir nýju tyllidagar almanaksársins eiga það allir sameiginlegt að tengjast sölu á einhverskonar varningi. Hátíðahöld okkar einkennast af trúarbrögðum okkar tíma, svonefndri neysluhyggju.

Ekki er auðvelt að skilgreina fyrirbærið neysluhyggju. Sá misskilningur er útbreiddur að neysluhyggja felist í ást á vörum eða sterkum tengslum við allskonar efnislega hluti.  Þannig er það ekki. Neysluhyggja hefur þvert á móti í för með sér ákveðna firringu frá vörunum og tengslaleysi við þær. Þegar neysluhyggjan ræður ríkjum verður neysla okkar að vera svo gegndarlaus og hröð að við höfum enga möguleika á að tengjast varningi. Við gerum okkur ekki grein fyrir hvernig hann er framleiddur, hvað það kostar til dæmis mikla vinnu að sauma skyrtu eða hversu ferlið er langt og erfiðið mikið sem er á bak við rauðvínið í flöskunni. Við megum helst ekki bindast vörum of sterkum böndum. Við hættum að ganga í fötunum um leið og þau fara úr tísku. Ekki svarar kostnaði að gera við rafmagnstækin þegar þau bila svo þeim er bara hent. Við megum helst ekki vera ánægð með neitt. Það gamla er aldrei jafn gott því nýja því öllu fer fram.

Í ljóðinu Framfarir eftir Þórarin Eldjárn segir: "rakvélarnar sækja / alltaf nær og nær húðinni / Guð minn góður / hvað ég kvíði þeim degi / þegar þær verða komnar / alla leið"

Í markaðsfræðum er til hugtakið "the organized creation of dissatisfaction" eða "skipuleg framleiðsla á óánægju". Ekki einungis stjórnmálamenn með popúlískar tilhneigingar þrífast á slíkri framleiðslu. Ein forsenda neysluhyggjunnar er sú, að við megum aldrei verða það ánægð með neitt, að við tímum ekki að henda því og kaupa eitthvað nýtt þess í stað.

Síðast en ekki síst bannar neysluhyggjan okkur að tengjast framleiðendum. Okkur finnst frábært að geta keypt okkur rauðvínsflösku frá Chile fyrir 500 kall í matvörubúð á meginlandi Evrópu en hugsum kannski ekki oft út í, að þegar búið er að draga frá þeirri upphæð kostnað við glerflöskuna, tappann, miðana, kassann utan um flöskurnar, flutningin í Chile, flutninginn frá Chile, flutninginn innan Evrópu, þóknun til innflytjanda, þóknun til smásala, tolla og gjöld, er ekki mikið eftir handa þeim sem mesta vinnu hefur lagt í að búa til vínið, vínbóndanum. Svonefnd alþjóðavæðing gerir að verkum að vörurnar sem við kaupum hér á landi eru flestar búnar til vítt og breitt um veröldina, sumar á fleiri en einum stað. Við getum lítið vitað um aðstæður verkafólksins en því miður er margsannað, að í alltof mörgum tilfellum er ekkert annað en nútíma þrælahald, í öllum þess skelfilegu birtingarmyndum, á bak við framleiðslu á skyrtunni, matvörunni eða öðru sem okkur finnst svo hlægilega ódýrt að kaupa.

Ekki er nóg með að neysluhyggjan skemmi tengsl okkar við vörurnar, tilurð þeirra og fólkið sem býr þær til. Vistkerfið stynur og er komið að fótum fram við að framleiða öll þau ósköp sem hin óseðjandi óánægja okkar krefst.

Í Bandaríkjunum tekur það kálfinn ekki nema fjórtán mánuði að vaxa úr tæpum 40 kílóum í rúmlega hálft tonn með því að gefa honum sérstaka túrbóvaxtarblöndu af korni, próteinríkum bætiefnum, vaxtarhormónum og lyfjum. Auk þess kostar framleiðsla hvers slátursdýrs rúmlega 1000 lítra af olíu á líftíma þess.

Neysluhyggjan hefur því átakanlegar afleiðingar fyrir manneskjur, dýr og umhverfi. Neyslan í okkar heimshluta, vöruúrvalið í verslununum og verðið á þeim, kostar fórnir. Til að við getum fengið vöruna það ódýra að við tímum að fara kæruleysislega með hana, þarf oft að búa hana til með þrælahaldi, með því að kvelja dýr og með því að níðast á náttúrunni. Vörurnar sem við hendum til að geta keypt nýjar safnast saman í tröllvaxna ruslahauga eða fjúka út á höfin og spilla lífríki þeirra. Sú tilhögun að framleiða vörurnar í fátækum löndum en selja þær í þeim ríkari hefur í för með sér stöðuga flutninga á hráefni og vörum heimshorna á milli með tilheyrandi loftmengun.

Stundum eru afleiðingar gjörða okkar beinar og augljósar en oftast er það ferli flóknara. Vel getur verið að þau eftirmál breytni okkar sem við hvorki sjáum né þekkjum séu mun þýðingarmeiri en hin sem við erum okkur meðvituð um. Við erum alltaf að að koma einhverju til leiðar. Engin manneskja er eyland. Við erum hvert öðru háð. Það sem hver einstaklingur gerir hefur áhrif á heildina. Við erum hvert öðru miklu nær en við gerum okkur grein fyrir. Neysla mín hefur áhrif á líf annarra, dýr og menn. Neysla mín hefur umhverfisáhrif. Neysla mín er siðferðilegt viðfangsefni og meira en spurning um að hver svali sínum þörfum.

"Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þið gert mér," segir Jesús. Broddinn í guðspjalli dagsins er ekki einungis að finna í því að þeim miskunnarlausu er vísað í hinn eilífa eld heldur í því, að þar samsamar Jesús sig þeim hungruðu, þyrstu, heimilislausu og þjáðu og segir að þjáningar þeirra séu þjáningar sínar. Það guðlega er ekki bara einhver frumspekileg og fjarlæg stærð. Við þurfum ekki að sækja Guð ofan. Jesús birtir okkur þann Guð sem er í bræðrum okkar og systrum, nær og fjær. "Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þið gert mér." Þegar við meiðum aðrar manneskjur, þegar við styðjum við mannfjandsamleg kerfi, þegar við skemmum umhverfið og eyðileggjum möguleika komandi kynslóða til góðs lífs, þá erum við að meiða Jesú Krist, þá erum við að brjóta gegn því guðlega og himneska í veröldinni.

Og brodd guðspjallsins er ekki síður að finna í blindu fólksins og heimsku, sem spurði: "Drottinn, hvenær sáum við þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi og hjálpuðum þér ekki?"

Oft erum við okkur ekki meðvituð um afleiðingar gerða okkar en engu að síður verðum við að velja annað tveggja, að verða til blessunar eða bölvunar. Þá er spurningin ekki bara sú að passa sig á að gefa til hjálparstarfsins. Stundum vinnum við gegn því sem við gefum í slíkar safnanir með því að styðja við ranglæti og kúgun með neyslu okkar og innkaupum. Þannig verðum við sjálfum okkur og öðrum til bölvunar.

Góðu fréttirnar eru á hinn bóginn þær, að við getum líka orðið sjálfum okkur og öðrum til blessunar. Sá hópur er líka til staðar í guðspjalli dagsins, þau sem taka við ríkinu sem þeim var ætlað frá grundvöllun heimsins, eins og það er orðað hjá Matteusi.

Nú sem fyrr er spurningin stóra sú, hvorum hópnum við viljum tilheyra; þeim sem auka bölvunina eða hinum sem breiða út blessunina.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Bækur sem tengjast þessari prédikun:

 William T. Cavanaugh: Being Consumed. Economics and Christian Desire, Grand Rapids, Michigan / Cambridge UK 2008

 Þórarinn Eldjárn: Ydd, Reykjavík 1984

Myndina tók ég í dag í dásamlegri nóvemberbirtu á göngustígnum við Drottningarbrautina á Akureyri. Listaverkið heitir Sigling og er eftir Jón Gunnar Árnason.