iPod, iTunes, iPhone, iSolation

08/16/2021


Internetið er samskiptatækni sem á að auðvelda og hvetja okkur til samskipta. Það getur netið gert en jafnframt eru sífellt fleiri og skýrari vísbendingar um að það beini athygli okkar að okkur sjálfum, geri okkur sjálfhverfari, sjálfmiðaðri og einangraðri. Sé sú raunin má spyrja hvort heitið "samfélagsmiðlar" sé ekki algjört rangnefni á slíkri tækni.

Fræðimenn hafa sýnt fram á, að fylgni er á milli sjálfsdýrkunar eða narsissisma annars vegar og notkunar á samfélagsmiðlum hins vegar. Í grein eftir Elias Aboujaoude, bandarískan háskólaprófessor, bendir hann á að i-ið sem er algengt forskeyti í nútímanum, itunes, ipod, iphone, vísi til persónufornafnsins "ég". Það sé gott dæmi um sjálfmiðlægni nútímans.

Við sníðum veruleikann að okkur sjálfum, við veljum okkur hvaða upplýsingar við lesum og hvernig fréttir við heyrum, við þurfum ekki að hlusta á nein lög í heyrnartólunum nema þau sem við vitum að eru okkur að skapi og við getum hæglega útilokað þau úr umræðunni sem hafa óæskilegar eða "vondar" skoðanir eins og það er stundum kallað.

Sjálfsvirðing og umhyggja fyrir sjálfum sér eru að sjálfsögðu af því góða og eitt af því sem breyst hefur til hins betra á síðustu áratugum er vitundin um nauðsyn heilbrigðrar og sterkrar sjálfsmyndar.

Engu að síður erum við sjálfum okkur ekki nóg. Það er grundvölllur trúarlegs mannskilnings og það er líka kjarni hugmynda um manninn sem samfélagsveru. Við þurfum hvert á öðru að halda og enda þótt hver maður sé sjálfum sér nauðsynlegur getur hann líka verið sjálfum sér hættulegur. Sjálfsdýrkun gerir okkur blind á þau sannindi. Þýski félagssálfræðingurinn og heimspekingurinn Erich Fromm lýsir (1) sjálfsdýrkuninni eða narsissismanum þannig, að þar sé allri athygli beint að eigin persónu, líkama, anda, tilfinningum og hugðarefnum. Fyrir manneskju sem er full sjálfsdýrkunar sé ekkert raunverulegt nema hún sjálf og það sem henni tengist. Fromm segir sjálfsdýrkandi manneskjur í raun ófærar um að elska, finna til samúðar eða fella skynsamlega og hlutlæga dóma. Einstaklingur sem er illa haldinn af sjálfsdýrkun reisir ósýnilegan múr í kringum sig. Hann er allt, heimurinn ekkert - eða öllu heldur: hann er heimurinn.

Madeleine Albright var fyrsta konan til að gegna embætti utanríkisráðherra Bandaríkjanna en það gerði hún á árunum 1997 til 2001 í stjórnartíð Bills Clinton. Fyrir þremur árum sendi hún frá sér bókina Fasismi. Viðvörun. Þar fer hún yfir sögu fasismans og lýsir áhyggjum sínum af uppgangi fasískra afla í nútímanum.

Í bók sinni segir Albright að fasismi lýsi sér ekki bara í ákveðinni hugmyndafræði heldur ekki síður þeim ásetningi að nota allar leiðir til að koma sínu fram og beygja aðra til undirgefni, líka þá að beita ofbeldi og ganga á rétt annarra. Fasisminn nærist á félagslegum og efnahagslegum gremjuefnum, þeirri skoðun að allir hinir hafi það betur en þeir eigi skilið á meðan ég fái ekki það sem mér ber. Gremjan og reiðin grafa um sig í hjörtunum og engin úrræði séu til að lækna gremjuna eða milda bræðina.

Hvað á að geri við alla þessa reiði? Hvað gerist þegar hún magnast hún upp í bergmálshellum internetsins þar sem þú getur komið þér fyrir í skoðanabúbblu hallelújasystkina þinna? Þá þarft þú þarft ekkert frekar en þú vilt að kynna þér hin ýmsu sjónarmið. Þá þarftu ekki að eyða tíma í að skiptast á skoðunum við fólk heldur baðar þú þig upp úr ágæti þinnar eigin.

Þýska orðið Streitkultur er skemmtilegt. Það þýðir deilumenning. Í fjölmiðlum er stundum gefið í skyn að það sé með einhverjum hætti óheilbrigt og síður æskilegt að fólk deili og takist á. Þó er það grundvallaratriði í hverju lýðræðissamfélagi að mismunandi fólk hefur allskonar skoðanir og ólíka hagsmuni.

Stundum er talað niðrandi um"eiginhagsmuni". Eiginhagsmunir eru hagsmunir mínir og það er ekkert óeðlilegt við að ég reyni að gæta þeirra, minna eigin hagsmuna. Út á það gengur þjóðfélag sem kennir sig við lýðræði, að hver og einn geti gætt hagsmuna sinna og komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Lýðræðið þarfnast deilna og átaka, lýðræðið þarfnast ólíkra skoðana og hagsmuna.

En til þess að geta talað saman þurfum við að kunna að hlusta hvert á annað og geta sett okkur hvert í annars spor. Umræðan verður að vera á jafningjagrunni. Við þurfum að vera hvert annars þjónar í lifandi deilumenningu og í samfélagi þar sem hver fær að hafa sína rödd og kann líka að nota eyrun til að hlusta á aðra.

(1) https://fromm-online.org/narzissmus/