Ískyggilegt gyðingahatur

11/12/2018

Breski sagnfræðingurinn og rithöfundurinn David Irving skrifaði bækur um þýska nasista og er sennilega frægastur fyrir að hafa neitað því í ræðu og riti að helförin hafi átt sér stað.

Árið 1993 gaf bandarískur kollegi Irving, Deborah Lipstadt, út bókina Denying the Holocaust, þar sem hún sakaði hann um að rangtúlka og falsa söguleg skjöl og kallaði hann helfararafneitara. Það leiddi til þess að Irving höfðaði mál á hendur Lipstadt og Penguin-forlaginu sem gaf út bók hennar. Réttarhöldin vöktu mikla athygli og um þau var nýlega gerð ágæt kvikmynd, Denial. Enskir dómstólar sýknuðu Lipstadt og útgáfufyrirtæktið komust að þeirri niðurstöðu að David Irving væri "virkur afneitari helfararinnar, gyðingahatari og rasisti". Irving var á þeim tíma í tengslum við þýska nýnasista.

Fyrir stuttu birtist í þýska vikuritinu Der Spiegel merkilegt viðtal við Lipstadt. Hún rifjar upp réttarhöldin og þann stuðning sem Irving fékk, m.a. annars frá auðugum vinum hans. Engu að síður komust dómararnir að mjög afgerandi niðurstöðu í málinu sem lýst hefur verið sem "sigri sögunnar" og sá sigur borinn saman við dómana í hinum frægu Nürnberg-réttarhöldum og þegar réttað var yfir nasistanum Adolf Eichmann árið 1961.

Lipstadt segir niðurstöðuna í málinu sem David Irving höfðaði gegn henni vissulega hafa verið ósigur fyrir "harða afneitara helfararinnar", þeirra sem halda því fram að hvorki útrýmingarbúðir né gasklefar hafi verið til í þriðja ríkinu. Hinir "mjúku afneitarar" séu þó enn til staðar, þeir sem viðurkenna að helförin hafi átt sér stað en hún hafi alls ekki verið eins slæm og gefið er í skyn - gjarnan með þeirri viðbót að Ísraelar séu jú ekkert skárri en nasistarnir voru. Þessir "softcore-afneitarar" sem meðal annars sé að finna í röðum populískra stjórnmálaafla í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum séu að mörgu leyti erfiðari viðureignar en hinir sem ganga hreinna til verks.

Lipstadt varar við því að gefa gyðingahöturum of mikla athygli því þeir geti dafnað vel í sviðsljósinu en segir jafnframt að nauðsynlegt sé að koma til varnar sannleikanum með því að krefja fólk um rök fyrir andgyðinglegum áróðri. Baráttan gegn slíku þurfi að vera málefnaleg.

"Það sem við er að etja núna er enginn fasismi - eða enn ekki orðinn fasismi - heldur miklu fremur popúlismi, bæði til hægri og vinstri. Þótt ég fari varlega í samanburð við nasismann sé ég ljótan popúlisma sem styðst við hatursorðræðu líkri þeirri sem nasitar notuðu til að komast til valda," segir Lipstadt.

Hún hefur áhyggjur af því hvernig núverandi forseti Bandaríkjanna grefur undan mikilvægum stofnunum lýðræðisins, dómstólum, alríkislögreglunni og fjölmiðlunum. Bæði í Bandaríkjunum og sumstaðar í Evrópu er ráðist á frjálslynt lýðræði og reynt að koma á gervilýðræði sem í raun er væg útgáfa harðstjórnar.

Lipstadt vill ekki ganga svo langt að kalla Donald Trump gyðingahatara. Fjölmargir áhangendur hans séu þó haldnir gyðingahatri og rasisma og með orðum sínum geri forsetinn sitt til að réttlæta slíkar öfgar. Það sama gerist á vinstri vængnum, bendir Lipstadt á. Jeremy Corbyn sé ef til vill ekki gyðingahatari en með því að sjá ekki ástæðu til að andmæla gyðingahatri annarra sé hann að magna þann eld.

Í viðtalinu áréttar Lipstadt að hún sé eindreginn fylgismaður málfrelsis. Þau sem vilji afneita helförinni eigi að hafa rétt til að tjá þá skoðun. Enn hættulegra sé að láta stjórnmálamenn ákveða hvað megi segja og hvað ekki. Sem betur fer hafi Trump ekki enn komist í slíka aðstöðu.

Engu að síður verði að bregðast við vaxandi gyðingahatri í heiminum. Það sé ekki fyrirbæri sem aðeins ógni gyðingum. Það stofni í hættu grundvallargildum lýðræðislegra samfélaga. Þróunin sem hefst með hatri á Gyðingunum endar ekki þar. Hefðu nasistarnir unnið stríðið hefðu þeir ekki látið nægja að útrýma Gyðingum einum.

Myndin er af Deborah Lipstadt. (International Committee of the Red Cross (ICRC) [CC BY 3.0 (https://creativecommons.org/licenses/by/3.0)], via Wikimedia Commons)