Kirkjugarðurinn á Naustahöfða

12/26/2020

Fáir staðir eru mér kærari en kirkjugarðurinn á Naustahöfða. Þar hef ég átt ótalmargar kveðjustundir með syrgjendum. Sjálfur á ég ástvini sem hvíla í garðinum. Ungur var ég iðulega með afa mínum og nafna, Alfreð Jónssyni, í kartöflugörðunum hans í brattri brekkunni rétt neðan við kirkjugarðinn, að stinga upp, setja niður, reyta arfa eða taka upp. Þurfti ég ekki að ganga nema örlítinn spöl upp úr efsta garðinum hans afa til að annars konar jurtagarður blasti við mér, prýddur krossum og legsteinum.

Kirkjugarðurinn á Naustahöfða á sér langa og merkilega sögu. Í Fóstbræðra sögu segir að Þórarinn ofsi hafi höggvið höfuðið af Þorgeiri Hávarssyni eftir víg hans norður á Melrakkasléttu. Síðan reið hann þaðan við tólfta mann og hafði höfuð Þorgeirs í belg "við slagólar sér til ágætis sigurs síns". Þegar þeir félagarnir áðu á reið sinni að austan drógu þeir höfuð garpsins upp úr belgnum og stilltu upp á þúfu sér til skemmtunar. Þótt við vitum ekki mikið um útlit Þorgeirs hafði andlit hans og svipur skotið mörgum skelk í bringu. Tæplega hafði sú ásýnd mildast eftir að hafa bankast í belgnum á hrossi Þórarins ofsa alla leiðina austan af Sléttu. Þegar leiðangurinn hafði riðið yfir vaðlana í botni Eyjafjarðar og náð hvíldarstað í Naustalandi sóttu menn þann part Þorgeirs Hávarssonar sem hæst gnæfði ofan í belginn líkt og þeir höfðu gert til að létta liðsandann.

"Þeim sýndist þá höfuðið ógurlegt, augun opin og munnurinn en úti tungan. Við þá sýn urðu þeir allhræddir og felmsfullir. Þeir grófu þá með exum sínum hjá höfðinu og hrundu þar í ofan höfðinu og grófu á ofan torf."

Margar aldir liðu eftir þessa fábrotnu og útátalausu jarðsetningu á höfðanum sem Fóstbræðra saga lýsir. Fer engum sögum af jarðsetningum þar efra þangað til 15. júlí árið 1863. Þá var Sophia Helgadóttir, sveitarómagi frá Grísará, jörðuð í nýjum kirkjugarði Akureyringa á Naustahöfða. Hann hafði verið helgaður sama dag, rúmum tveimur vikum eftir að fyrsta kirkjan á Akureyri var vígð í Fjörunni neðan við garðinn.

Gjarnan fæ ég mér labbitúra um þennan friðsæla stað, skoða leiði, les á steina og dáist að gróðrinum, blómum, trjám og runnum. Myndavélina tek ég oftast með og finn alltaf nóg af myndefnum. Garðurinn er aldrei eins, birtan síbreytileg og hver árstíð hefur sinn þokka. Mér finnst ég koma í sérstakan hliðarheim í hvert sinn sem ég geng inn um eitt sáluhliðanna. Sorg og söknuður grúfir yfir hverjum steini og tárin sem fallið hafa þar í moldina eru jafn óteljandi og stjörnur himingeimsins. Samt er garðurinn sneisafullur af von, trú og ást og hvergi á Akureyri er jafn mikið af trúarlegum táknum og tilvísunum og í kirkjugarðinum.

Kirkjugarðurinn er staður ljóss og myrkurs, saknaðar og minninga, sorgar og þakkar, hverfulleika og eilífðar. Þar mætast himinn og jörð og engill vakir yfir hverjum hvílustað. Ást, vinátta, von og þakklæti talar til manns úr táknum og áletrunum á leiðum en ekki síður úr logandi kertum eða litfögrum rósum sem þar hafa verið lagðar jafnvel þótt margir áratugir séu síðan ástvinurinn var kvaddur hinsta sinni. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.


Kirkjugarðurinn er sennilega aldrei fjölsóttari en á jólunum. Jólin og sorgin eiga ágætlega saman eins og sálmaskáldið Valdimar Briem vissi þegar hann orti:

"Í dag er glatt í döprum hjörtum."