Kórónubálkur

01/21/2022


Ég skrifa pistla á óæðri enda hins akureysk-húsvíska Vikublaðs. Hér er sá nýjasti. Hann er í bundnu máli og ég birti hann hér í þeirri von að hann verði sem fyrst frekar sagnfræði en lýsing á viðblasandi veruleika.


Veiran skæða ennþá marga mæðir,

manndrápspestin sú um heiminn æðir.

Hennar áhrif virðast veikjast samt.

Þríeykið við stýrið hefur staðið,

stefnu sett á hættuminnsta vaðið

þó að út úr augum sjáist skammt.


Faraldurinn fári ýmsu veldur,

fer um líkt og trylltur sinueldur,

sér í ýmsan búning bregða kann.

Undan honum láta líkamsvarnir,

læðist hann í æðar, vöðva, garnir,

dreifist út um allan brjóstkassann.


Þó að dælt sé bóluefni´ af brúsum

bannsett veiran áfram ríður húsum,

á sér sýnir ekkert fararsnið.

Farsóttin sér finnur nýjar smugur,

feikileg er hennar slægð og dugur.

Þarf að læra´ að lifa hana við?


Það er líka pest að húka heima,

hornreka í veröld allra streyma,

mega ekki leggja kinn við kinn.

Finna ekki fruss af hlátursroku,

fara´ á mis við hlýja lófastroku.

Magnaður er mannaþefurinn.


Hvenær hitti´ ég aftur gamla gengið?

Get ég reiknað annað fólk í mengið?

Má ég hugrór ganga grímulaus?

Endurheimtist tíminn gamli góði?

Gufar veiran upp í mínu blóði?

Hvenær hættir þetta þrautaraus?


Verum bjartsýn, þreyjum Þorrann kalda,

þolgóð skulum inn á nýtt ár halda,

saman spinna okkar auðnuvef.

Áfram verður þörf þau veiku´að verja,

veikindi á okkur munu herja

- örugglega einhver verri´ en kvef.