Kvödd hús

Laugardagurinn 29. maí var dagur
mikilla tímamóta. Hann hófst með héraðsfundi Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmis
í Laugaborg í Eyjafjarðarsveit. Fundurinn samþykkti að hætta rekstri
kirkjumiðstöðvarinnar á Vestmannsvatni. Verður landinu skilað til þeirra sem gáfu
það kirkjunni á sínum tíma og fasteignirnar afhentar sömu aðilum
endurgjaldslaust. Þar með lýkur rúmlega hálfrar aldar löngum kafla í kirkjusögu
Hólastiftis - að minni hyggju einum þeim merkasta nú í seinni tíð. Húsin tvö á
Vestmannsvatni voru byggð af söfnuðum, einstaklingum og fyrirtækjum á Norðurlandi,
í þágu barna og unglinga. Um áratugaskeið rak Æskulýðssamband kirkjunnar í Hólastifti
sumarbúðir á Vestmannsvatni.
Húsin hafa ekki fengið það viðhald sem þau þurftu og ekki hefur tekist að útvega fjármagn til að gera aðstöðuna þar viðunandi. Þjóðkirkjan hefur verið áhugalaus um þessa dýrmætu eign sína og staðurinn verið að drabbast niður hægt og bítandi mörg síðustu ár. Er sárt að horfa upp á það fyrir okkur sem þykir vænt um staðinn, sögu hans og það merkilega starf sem þar hefur farið fram.
Að loknum héraðsfundi hófst húskveðja okkar söngbræðra í Karlakór Akureyrar - Geysi. Félagsheimili okkar í Lóni hefur verið selt og þar mun Hjálpræðisherinn hreiðra um sig með sitt góða og þarfa starf. Síðasta æfing okkar í húsinu var á þriðjudaginn og í gærkvöldi sungum við þar í hinsta sinn. Kvöddum við Lón með viðhöfn og kröftugum söng auk þess að núllstilla birðgastöðu á vínbar hússins. Ekki er reiknað með að sá varningur nýtist nýjum eigendum.
Á tímamótum má ekki láta nægja að líta til baka heldur verður að bera hönd að enni og skyggnast fram á veginn. Við söngbræðurnir hlökkum til endurfunda í haust og munum þá þenja raddböndin á nýjum stað. Mikið verður það nú gaman eftir allt söngleysið í faraldrinum.
Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi á ekki lengur sína
kirkjumiðstöð en ég er sannfærður um að þörfin fyrir slíkan stað er fyrir hendi
og mun fara vaxandi nú þegar lögð er meiri áhersla á samvinnu safnaða og
starfseininga. Beggja megin við okkur eru prófastsdæmi sem njóta blessunar
sambærilegra staða, á Löngumýri og Eiðum. Að því mun koma að kirkjan hér á
svæðinu finnur nauðsyn þess að eignast athvarf eins og hún eitt sinn átti við
hið hólmum prýdda Vestmannsvatn á mörkum Aðal- og Reykjadala í Suður-Þingeyjarsýslu.