Labbakútar og ljósin heims

11/17/2021


Prédikun flutt í útvarpsguðsþjónustu í Akureyrarkirkju á allra heilagra messu 7. 11. 2021

Guðspjallið: Matteus 5, 13 - 16

"Jesús segir: Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum. Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum."


Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ómetanleg menningarverðmæti glötuðust í hinum hörmulega kirkjubruna úti í Grímsey nú í haust, m. a. útskornir gripir Einars Einarssonar, listasmiðs og djákna í eynni og altaristafla Arngríms Gíslasonar, Arngríms málara, eins okkar merkasta alþýðumálara. Taflan sýnir síðustu kvöldmáltíðina og er gerð eftir listaverki Leonardo da Vinci frá ofanverðri 15. öld. Leonardo málaði það á klausturvegg í borginni Mílanó á Ítalíu. Þegar Arngrímur málaði altaristöflu Miðgarðakirkju í Grímsey, í vinnustofu sinni í Gullbringu í Svarfaðardal árið 1879, studdist hann því við eitt frægasta listaverk heimsins, hvorki meira né minna. Á því sést Jesús sitja við kvöldmáltíðarborð með lærisveinum sínum. Á útgáfu sína ritar Arngrímur tilvitnun í 26. kafla Matteusarguðspjalls: "Trúið mjer að einn yðar mun svíkja mig."

Skömmu áður en Miðgarðakirkja í Grímsey varð eldinum að bráð stóð ég þar frammi fyrir altarinu og virti fyrir mér þetta brot úr heimsmenningunni í listaverki Arngríms málara. Þótt það væri að mörgu leyti bernskt og bæði lærisveinarnir og frelsarinn áberandi höfuðstórir heillaði myndin mig í einlægni sinni. Arngrímur málari hélt tryggð við verk kollega síns suður í Mílanó og setti hvorki geislabaug á Jesú né sessunauta hans. Ekki er heilagleikinn mikill yfir lærisveinunum á þessum myndum, hvorki þeirri á klausturveggnum suður í löndum né hinni yfir altarinu undir heimskautsbaug; þvert á móti sýna þær báðar þessa fyrstu áhangendur Krists sem hálfgerða labbakúta og jafnvel lúsablesa. Svipur þeirra og líkamstjáning gefa til kynna að þeir skilji ekki neitt í neinu. Þeir eru hreint ekki traustvekjandi hópur. Einn þeirra sýnir vísifingurinn eins og hann sé að setja ofan í við Jesú. Pétur er með hníf í hendi sem er tilvísun í að skömmu síðar sneið hann eyrað af Malkusi, þjóni æðsta prestsins, þegar Jesús var tekinn höndum. Eftirtakanlegastur alls á myndunum er þó breyskleiki Júdasar. Yfir honum er svartur skuggi og hann heldur dauðahaldi í lítinn poka með silfurpeningunum þrjátíu sem hann fékk fyrir að svíkja Jesú Krist.

II

Að undanförnu hefur þjóðin glatað fleiru en merkilegum menningarverðmætum. Við höfum líka misst fyrirmyndir. Blettir hafa fallið á heiður manna sem við litum upp til og áunnu sér virðingu okkar og þakklæti. Við lesum um þau brotlegu á forsíðum blaðanna og allskonar misyndismenn, meintir og sakfelldir, eru settir í gapastokka samfélagsmiðlanna. Daglega erum við minnt á að mannskepnan er stórvarasöm. Hún lýgur, stelur og níðist á náunganum, svíkur undan skatti, fer ekki að fyrirmælum um sóttvarnir og leggur í stæði fyrir fatlaða. Enginn hörgull er á sökudólgum og skíthælum á þessu landi - og kannski sem betur fer: allir þessir syndaselir sem afhjúpast í fjölmiðlunum og á netinu eru sönnun þess, að þótt ég sé slæmur eru þau miklu verri.

Við eigum kannski engar fyrirmyndir lengur? Hvernig á að fara að því að vera salt jarðar? Hvernig á að láta ljós sitt lýsa meðal manna, "að þeir sjái góð verk yðar" eins og segir í guðspjalli dagsins? Er það hægt? Má það?

Á allra heilagra messu íhugum við fyrirmyndirnar og við minnumst þeirra sem farin eru frá okkur. Og ekki síst þar finnum við fyrirmyndirnar. Þau sem við áttum kenndu okkur margt með lífi sínu og breytni. Kannski sjáum við það best þegar þau eru ekki lengur meðal okkar? Samt var ekkert þeirra fullkomið frekar en aðrir og öll áttu þau sína galla og lesti eins og aðrar manneskjur. Kannski voru þessar fyrirmyndir bara eins og við að því leyti? Og kannski eru fyrirmyndirnar einmitt þannig? Kannski er fyrirmyndarfólkið, hetjurnar, höfðingjarnir og leiðtogarnir, kannski er allt þetta fólk breyskt eins og við, kannski gerir það mistök og allskonar vitleysur? Kannski eru allir labbakútar og lúsablesar eins og lærisveinarnir á myndum þeirra Leonardos og Arngríms málara?

III

Það þarf víst engin sérstök illmenni til að vinna illvirki. Meðaljónar eins og ég erum fullfærir um það. Meira að segja lærisveinarnir gátu svikið Jesú, afneitað honum og gert hnífaárás á varnarlausan þjón. Þótt fjölmiðlarnir, hin stórvirka og afkastamikla verksmiðja staðalímynda, einfaldi þetta fyrir okkur og hamist við að innprenta okkur að fólk sé bara tvennskonar, annað hvort góðmenni eða illmenni, er málið flóknara. Fólið blundar í okkur öllum. Við erum öll mögulegir Júdasar.

En þar með er þó ekki sannleikurinn allur sagður, Guði sé lof. Við getum öll gert allskonar vitleysur og drýgt ódæði en við erum líka öll fær um að gera það sem er rétt og gott. Til þess þarf enga snillinga, engin ofurmenni, ekkert afburðafólk. Ekki bara dýrlingarnir vinna góðverk og fleiri en hetjurnar geta unnið afrek. Það er líka á færi venjulegs fólks og meðalmanna. Meira að segja ég og þú gætum orðið til góðs og gagns.

Allar hetjur fæddust ósjálfbjarga. Lærisveinar Jesú voru venjulegir, breyskir menn. Við megum öll reyna að láta ljós okkar skína. Við megum öll reyna að vera salt jarðar. Það er ekki bara hlutverk hinna góðu og fullkomnu og heilögu. Til þess þarf ekki einhverja sérstaka hæfileika eða gáfur eða próf.

IV

Þegar Leonardo var að mála lærisveinana í síðustu kvöldmáltíðinni á klausturvegginn í Mílanó segir sagan að hann hafi notað andlit fólks sem á vegi hans varð í borginni. Lengi leitaði hann að einhverjum sem hann gæti stuðst við þegar hann málaði Júdas. Ábótinn í klaustrinu kvartaði undan þeirri töf en Leonardo á að hafa svarað því til, að ef hann fengi ekki tíma til að finna réttan Júdas gæti hann bara notast við andlit ábótans.

Við erum öll með einhverjum hætti í andlitunum á myndum Leonardos og Arngríms af síðustu kvöldmáltíðinni, breysk, utangátta, svikul og hættuleg. Fæst erum við í nákvæmlega réttum hlutföllum. Við getum öll verið þessi eini sem svíkur Jesú Krist. Og við getum öll verið þessi, sem lætur ljós sitt skína meðal mannanna og tekst að vera salt jarðar.

Í guðspjallinu er notuð líkingin um ljósið undir mælikeri. Ef við förum að mæla ljósið okkar þannig endar það auðvitað með því að allt súrefnið brennur upp og ljósið kafnar. Það er á hinn bóginn líka hægt að líkja þessu öllu við ofn. Það gerir hollenski presturinn og rithöfundurinn Henri Nouwen á einum stað. Hann segir, að andlegt líf felist í því að verja eldinn sem brennur inni í okkur öllum. Nouwen bendir á að ef við opnum ofninn okkar of mikið og of lengi í einu, fuðri allt upp í honum. Þá verði ekkert eftir inni í okkur nema aska og sót. Við verðum að hafa ofninn opinn, til að aðrir njóti hitans með okkur, en við verðum líka að kunna að loka honum og verja eldinn. Þegar við lokum augunum og biðjum, þegar við merkjum okkur með tákni krossins, þegar við hugleiðum, þegar við þögnum og kyrrum hug og sál til að geta skynjað nálægð þess heilaga, þegar við reynum að komast í tæri við uppsprettu lífsins, þegar við setjumst til borðs með Jesú Kristi og eigum samfélag við hann, þá erum við að loka ofninum og glæða hinn guðlega eld sem logar inni í okkur öllum. Og þegar hann hefur náð að lifna og loga, þá geta aðrir ornað sér við ylinn frá ofninum, þá geta aðrir ratað í birtunni frá eldinum og þá verðum við, breyskt fólk, englar hlýjunnar og berum öðrum birtu og yl.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Myndin er tekin í Grímseyjarferjunni Sæfara nú í haust. Eyjan birtist fyrir stafni.