Ljúffeng þjóðremba
Einhverja albestu máltíð lífs míns fékk ég á veitingastaðnum Da Baffone í Umbriahéraði á Ítalíu. Ég kom þangað fyrir mörgum árum með nokkrum göngufélögum, ítölskum og hollenskum. Við gengum yfir fjöllin frá nágrannahéraðinu Marche í miklum svækjuhita. Ég var bæði þyrstur og svangur þegar veitingastaðurinn birtist í skógarjaðrinum. Engin önnur hús voru nálægt staðnum sem er í 20 mínútna akstursfjarlægð frá borginni Gubbio.
Ég bjóst ekki við miklu á svona afskekktum veitingastað en þegar maturinn fór að berast á borðið, gaf bæði útlitið og ilmurinn til kynna hvað framundan væri. Þvílíkt hnossgæti! Da Baffone sérhæfir sig í truffluréttum sem eigendur tína sjálfir með aðstoð sérþjálfaðra truffluhunda.
Eftir veisluna sagði hollenskur sessunautur okkur frá því að stuttu áður en hann fór í fríið til Ítalíu hefði hún fylgst með sjónvarpsþáttum frá BBC þar sem reynt var að komast að því hvaða land heimsins byði upp á besta matinn. Ferðast var vítt og breitt um veröldina til að komast að því.
"Og hvar haldið þið að besta matinn hafi verið að finna?" spurði hann okkur á meðan við stönguðum ítölsku góðgerðirnar úr tönnunum, pakksödd og sælurjóð.
Áður en okkur gafst færi á að svara leit hann brosandi á mig og sagði: "Islanda!"
Um daginn var ég á Gatwick flugvelli á heimleið og brá mér inn í bókabúð til að fá mér eitthvað til að lesa í fluginu. Fyrir valinu varð bókin Taste. My Life Through Food eftir leikarann, kvikmyndagerðarmanninn og rithöfundinn Stanley Tucci. Mér fannst efnið forvitnilegt og ekki varð bókin minna girnileg fyrir þá sök, að bresku blöðin Guardian, Times, Daily Mail og Observer völdu hana bók ársins.
Tucci er fæddur og uppalinn í Westchestersýslu í New York fylki í Bandaríkjunum. Hann er af ítölskum uppruna og ólst upp við ítalska matarmenningu. Móðir hans var mikill ástríðukokkur. Í bókinni segir hann frá uppvexti sínum og ævi og tengir það mat og máltíðum. Algjör dásemdarlesning með mörgum lokkandi uppskriftum sem ég hlakka ósegjanlega til að prófa.
Í einum kaflanna segir Tucci frá veisluborði jólanna á æskuheimili sínu. Þar var meðal annars steikt lambalæri. Í neðanmálsgrein tekur Tucci fram, að sennilega hafi hann samt aldrei bragðað betra lambakjöt en á Íslandi. Síðar í bókinni er sérstök umfjöllun um þá heimsókn.
Lambakjötið góða fékk hann á Egilsstöðum en hann fékk víðar góðan mat. Tucci var við kvikmyndatökur uppi á jökli og þar var honum borin "traditional Icelandic stew known as kjötsúpa". Frábær máltíð, segir þessi heimsfrægi sælkeri, en útilokar ekki að umhverfið og stolt þeirra sem báru honum rjúkandi súpuna hafi átt sinn þátt í að gera réttinn svona eftirminnilegan.
Tucci segir líka frá heimsókn sinni á Grillmarkaðinn í Reykjavík. Þar voru tveir réttir á matseðli sem hann hafði aldrei bragðað áður: Hvalur og lundi. Hann viðurkenndi að hafa fundið til örlítillar sektarkenndar þegar hann pantaði sér þá báða. Hvalurinn smakkaðist dásamlega, bragðið ríkt og djúpt, ekki ólíkt Kobe-nautakjöti en flóknara því Tucci fann líka sushi-túnfiskkeim af þessu sjávarfangi.
"Never had vaguely assuaged guilt tasted so good" segir Tucci en var ekki jafnhrifinn af léttreyktu lundabringunni þótt hún hafi líka verið gómsæt.
Ekki átti þessi heimsfrægi sælkeri von á miklu þegar hann kom hingað til lands. Hann óttaðist helst að honum yrði boðið upp á skyr og kæstan hákarl í hvert mál. Matarupplifun hans af Íslandi var þvert á þann ótta.
"It was a revelation" eru lokaorð Íslandskaflans í þessari metsölubók.
Ísland getur boðið ferðafólki ótalmargt. Náttúran er eflaust það fyrsta sem okkur dettur í hug að dragi túrista hingað. Við megum á hinn bóginn ekki vanmeta íslenskan mat úr fersku og heilnæmu íslensku hráefni. Hann er svo sannarlega á heimsmælikvarða og hefur sitt aðdráttarafl.
Um síðustu helgi var ég staddur á kaffihúsi í miðbæ Akureyrar. Að borðinu okkar komu tveir útlendingar og spurðu okkur hvar þeir gætu fengið að borða dæmigerðan íslenskan mat. Þeir fengu mjög fátækleg svör í landinu sem ku eiga einhvern albesta mat í okkar heimshluta.
Myndin er af einstaklega bragðgóðri samloku sem ég útbjó einu sinni úr íslensku hráefni. Meðal þess sem ég notaði var saltkjöt, ostur og rúgbrauð. Namminamm!