Móðgaða kynslóðin

09/09/2021

Ég hef verið að lesa bók eftir franska rithöfundinn og kvikmyndagerðarkonuna Caroline Fourest. Fourest er þekkt fyrir baráttu sína fyrir réttindum kvenna, samkynhneigðra og sekúlarisma. Lengi skrifaði hún pistla í franska skoptímaritið Charlie Hebdo.

Bókin heitir Móðgaða kynslóðin: Frá menningarlögreglunni til hugsanalögreglunnar

Í bókinni fjallar Fourest um tvenns konar antirasisma, annars vegar þann sem leggur áherslu á sjálfsvitund menningarhópa og sérkenni þeirra og hins vegar þá antirasista sem eru opnari fyrir menningarblöndun en hafa sameiginlega heill allra menningarhópa að meginmarkmiði.

Fourest er mjög gagnrýnin á fyrrnefndu gerð antirasismans og segir hana leiða til menningargettóa og ójafnræðis. Það sé sá antirasismi sem Malcolm X aðhylltist og boðaði. 

Martin Luther King yngri var að mati Fourest meðal þeirra sem vildu vinna gegn rasisma án þess að aðgreina hópana of mikið.

Stór hluti bókarinnar fer í að tilgreina dæmi um aðgerðir skoðanasystkina Malcolms X gegn svokallaðri menningarlegri yfirtöku (þýska: kulturelle Aneignung, enska: cultural apppropriation). 

Það telst menningarleg yfirtaka þegar hópur fólks gerir þætti úr menningu annars hóps að sínum eigin - sem er ekki síst umdeilanlegt þegar ríkjandi menning tekur yfir þætti úr menningararfi minnihlutahópa. Fourest segir frá mörgum dæmum um ofsafengin viðbrögð við slíkum menningarblöndunum þar sem fólk tekur að sér að móðgast og reiðast fyrir hönd þeirra sem eiga að hafa orðið fyrir menningarstuldi hverju sinni. 

Höfundur veltir fyrir sér af hverju yngri kynslóðirnar séu svo hörundsárar og hvers vegna allskonar múghysteríur verða sífellt algengari og umfangsmeiri.

Fourest telur fórnarlambavæðingu eina skýringu á því. Yngri kynslóðir líti gjarnan á sig sem fórnarlömb, t. d. vegna þess að karllægar hetjuímyndir urðu úreltar en umhyggjan fyrir þeim veika varð fyrirferðarmeiri í umræðunni. Fourest segir að nú metist fólk á um hver sé mesta fórnarlambið, hverjum sé mest misboðið og á hverjum sé harkalegast níðst.

Sú afstaða leiði til þess að fólk sé sífellt minna reiðubúið að hlusta hvert á annað; hver sé í sínu horni, skoðandi eigin nafla, upptekinn af eigin sérkennum og verjandi eigin arf.

Fourest hefur áhyggjur af að háskólarnir séu ekki lengur deigla ólíkra viðhorfa og andstæðra sjónarmiða, bullandi suðupottur vitsmunalegra átaka, heldur staður þar sem fólki er kennt hvernig það geti forðast þau sem hugsa öðruvísi en það sjálft. Hún gengur svo langt að tala um endalok hugsunarinnar.

Fourest er gagnrýnin á slaufunaraðgerðir og bendir á að kynngi listaverks sé ekki síst í því fólgin að það getur verið æðra listamanninum sem það gerði. Listaverk hafi sína eigin sál því það sé afrakstur menningarlegrar sköpunar. Þess vegna eigi það tilkall til að vera metið á sínum forsendum og dæmt óháð persónu listamannsins og gjörðum hans.

Fourest fjallar lítillega um MeToo. Hún segir hana bráðnauðsynlega byltingu eftir nauðganir og niðurlægingar allra liðinna alda og löngu tímabært að skömmin sem lamaði fórnarlömbin færist yfir á gerendurna. 

Þó geti vettvangur almennra skoðanaskipta ekki komið í staðinn fyrir réttarkerfi þar sem rannsakað er hvort fólk sé sekt eða saklaust áður en mannorð þess er eyðilagt.

(Ég las þýska þýðingu á bókinni; "Genaratioon Beleidigt: Von der Sprachpolizei zur Gedankenpolizei" en á frummálinu heitir hún "Génération offensée: De la police de la culture à la police de la pensée")