Múslimi skrifar bók um kristni

10/09/2020

Navid Kermani er þýskur rithöfundur, hugsuður og fræðimaður. Hann er af írönsku bergi brotinn, trúaður múslimi en alinn upp í borginni Siegen innan um kristna prótestanta. Margoft hefur Kermani unnið til viðurkenninga fyrir ritstörf sín, fræðimennsku og framlag sitt til samræðunnar á milli kristni og íslam.

Ég hef verið að lesa bók Kermanis Ungläubiges Staunen. Über das Christentum (í enskri þýðingu Wonder Beyond Belief. On Christianity). Þar skoðar þessi íslamski fræðimaður kristna myndlist, veltir fyrir sér því sem þar birtist og hugleiðir þau trúarsannindi sem listamennirnir boða.

Margir lofsamlegir dómar hafa verið ritaðir um þessa bók Kermanis. Í stærsta kirkjublaði Írlands, The Irish Catholic, hófst ritdómurinn á gömlu spakmæli: Ég hef ekki hugmynd um hvernig húsið mitt lítur út því ég var alltaf inni í því. 

Kermani skoðar kristna trú með augum þess sem ekki á heima þar þótt hann njóti þess að koma þangað í heimsóknir. Honum finnst ýmislegt um kristna trú. Hann á til dæmis í erfiðleikum með að læra að meta krossinn og upphafningu þjáningarinnar, skilur ekki þrenningarkenninguna og trúir ekki á guðdóm Jesú Krists frekar en aðrir múslimar - þótt Jesús sé í Kóraninum sendiboði Guðs og spámaður kærleikans. Stundum er Kermani það glannalegur í lýsingum sínum og yfirlýsingum að hann gæti sært þau sem vilja tala gætilega um heilög fyrirbæri. Engu að síður segist hann hafa orðið ástfanginn af kristinni myndlist og honum finnst kristnin heillandi trúarbrögð þótt þau séu honum framandi að mörgu leyti.

Kermani er trúaður múslimi en kveðst ennfremur vera meira en það, á sama hátt og kristin manneskja sé ekki bara kristin heldur alltaf eitthvað meira. Með því skírskotar Kermani til þess sammannlega. Þess vegna eru þessi skrif Kermanis ekki bara eitt þarfasta innlegg í umræðuna á milli mismunandi trúarbragða sem ég hef lesið; þau eru ólýsanlega dýrmæt tilraun til að skoða kristna trú með sammannlegum augum í anda sakleysis, einlægni og djörfungar.

Bókin er ekki fræðirit og upphaflega birtust kaflar hennar sem pistlar í dagblöðum. Höfundur styðst við víðtæka þekkingu sína á viðfangsefninu, bæði á myndlistinni og trúarkenningum kristninnar. Mörg þeirra sem kalla sig kristin geta öfundað Kermani af þekkingu hans á því síðarnefnda - ekki síst í heimshluta þar sem vanþekking og fordómar einkenna of oft umfjöllun um kristni og önnur trúarbrögð og börn mæta jafnvel til fermingarfræðslu í kirkjunum án þess að hafa hugmynd um hvað Faðirvorið sé.

Kermani hefur einstakt lag á að ljúka upp fyrir lesendum töfraheimum listaverkanna með lyklum næmis síns, innsæis og skarpskyggni. Í umfjöllun hans verða jafnvel hin smæstu smáatriði að umskapandi opinberun án þess að víðara samhengi hlutanna falli í skuggann. Sumar bækur stækka og dýpka heiminn sem maður taldi sig þekkja. Þessi bók íslamsks fræðimanns gerði nákvæmlega það fyrir kristinn guðfræðing. Ég lagði hana frá mér ríkari í trú minni en ég var þegar ég opnaði hana.

Þótt Kermani sé gagnrýninn á kristna trú hrífst hann líka af mörgu og er ófeiminn að viðurkenna það. Á einum stað í bókinni spyr hann hvað það sé sem hann, músliminn, geti lært af kristnum mönnum og tekið sér til fyrirmyndar. 

Eftir alla hans skoðun og íhugun komst hann að þeirri niðurstöðu að það sé ekki hin indæla kristna myndlist, ekki siðmenningin með tónlistinni og öllum glæsilegu byggingunum og heldur ekki hinir fjölmörgu fögru helgisiðir. Ekkert geti kristnin betur kennt honum en hinn einstaka og skilyrðislausa kristilega kærleika sem ekki einungis beinist að náunganum. Þau sem aðhyllast önnur trúarbrögð en kristni kunna vissulega líka að elska og í þeim er ekki síður hvatt til miskunnsemi, mildi og góðverka en þar. Kermani segist á hinn bóginn hafa lært aðra tegund elsku af kristnu fólki, munkunum og nunnunum sem helgað hafa Jesú líf sitt. Elska þeirra var svo takmarkalaus að honum fannst hún óhugsandi án Guðs. 

Hún gerði engan greinarmun á fólki og það getur kristnin kennt veröldinni ef hún kærir sig um það.

(Kermani, Navid (2016). Ungläubiges Staunen. Über das Christentum. München: C. H. Beck)

Myndina tók ég nú í vikunni í Lystigarði Akureyrar