Málað með orðum

06/22/2019

Í Mauritshuis í Den Haag er eitt af frægari málverkum hollenskrar myndlistar, Stúlkan með perlueyrnalokkinn eftir Johannes Vermeer (1632 - 1675).

Þegar ég fór á safnið fyrir nokkrum árum til að sjá málverkið tók ég eftir því sem mér hafði verið sagt um snilld málarans, hvernig honum hefði tekist að túlka smáatriðin: mála blik eyrnalokksins, skin augnanna og síðast en ekki síst glampann á neðri vör stúlkunnar.  Í heimsókn minni á safnið smellti ég af myndinni sem er hér fyrir ofan.

Þegar Íslendingar fyrri alda tóku sér fyrir hendur að lýsa samtímafólki höfðu þeir fæstir dúk til að mála á, liti til að mála með eða pensil til að hafa í hendi sér. Allt það var varla til á Íslandi. 

Íslendingar urðu að láta sér nægja að lýsa fólki með því að tala eða skrifa um það. Slíkar mannlýsingar eru forn íslensk þjóðaríþrótt. Íslendingasögurnar geyma margar ótrúlega nákvæmar myndir af mönnum, dregnar upp með orðum. Sumar eru engu minni snilld en listaverkið sem Johannes Vermeer skapaði um stúlkuna með perlueyrnalokkinn. 

Langt fram eftir öldum kunnu íslenskir orðamálarar þessar list.

Í bók sinni Með hug og orði málar Vilmundur Jónsson (1889 - 1972), fyrrum landlæknir, mynd af samtímamanni sínum, Guðmundi Pálmasyni, sem var vitavörður á Straumnesi.

Hún er svohljóðandi:

"... lágur maður vexti, stórbeinóttur, en skarpholda, meiri um lendar en herðar, klofstuttur, innskeifur og allra manna hjólfættastur, ljós á hár en þunnhærður, fölur yfirlitum, grá augu, greinilega skásett, andlit breitt um kinnbein, en mjókkaði mjög niður, munnur innfallinn, ljósir, læpulegir bartar huldu meira neðri vör en hina efri, líkt og á rostungi, vöxtur og yfirbragð mongólskt. Guðmundur vaggaði mjög í gangi, líkt og hann gengi eftir þilfari á veltandi skipi, steig jafnvel ölduna, eftir að hann hafði numið staðar. Klæðnaður hans var sérkennilega sundurgerðarlegur, eins og ég sé hann fyrir mér: Klæðistreyja skærblá úr einkar vönduðu, fíngerðu útlendu efni, aðskorin og útlenzkuleg í sniði, en buxur því íslenzkari, vel víðar, úr groddalegum dúk og auðsjáanlega heimagerðar, lág, mjög skaftvíð vaðstígvél, og varð öll víddin innan leggs fyrir það, hve hjólfættur maðurinn var, á höfði upplitaður, grænn flókahattur með vænum börðum, en kolllágur, og var hringbrotinn niður kollurinn, um hálsinn rauðskræpóttur, mjór og teygður baðmullartrefill, hnýttur undir hægra eyra, og löfðu mislangir endar út á öxl, en að framan ber hóstin neðan trefilsins."

(Vilmundur Jónsson: Með hug og orði, fyrra bindi, bls. 105, Reykjavík, 1985)

Myndina tók ég fyrir nokkrum árum af málverki Vermeers af stúlkunni með eyrnalokkinn. Mér finnst málverk Vilmundar landlæknis af Guðmundi vitaverði ekki síðra þótt það sé málað með orðum.