Nýja stjórnarskráin og þjóðkirkja

Árið 2012 var efnt var til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kjósendur voru spurðir hvort þeir vildu að tillögur stjórnlagaráðs yrðu "lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá".
Atkvæðagreiðslan var ráðgefandi en þó var því haldið fram að ekki mætti breyta niðurstöðum hennar efnislega.
Í tillögum stjórnlagaráðs að stjórnarskrá var ekki gert ráð fyrir ákvæði um þjóðkirkju en lagt til að kirkjuskipan yrði ákveðin í almennum lögum.
Ein spurninganna í þjóðaratkvæðagreiðslunni var samt þessi:
"Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?"
Meirihluti þeirra sem kusu vildi hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá - og taldi þar með ekki nægilegt að ákveða kirkjuskipan í almennum lögum.
Í þjóðaratkvæðagreiðslunni kom ekki fram hvernig ákvæðið um þjóðkirkju í stjórnarskrá ætti að hljóða. Kjósendur voru því með öðrum orðum beðnir um að samþykkja eða hafna ákvæði sem þeir höfðu ekki séð enda var það ósamið.
Nú er hávær krafa um að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði virtar og nýja stjórnarskráin lögfest.
Ákvæðið um þjóðkirkju á Íslandi sem kjósendur samþykktu að hafa í nýju stjórnarskránni er svohljóðandi (19. gr.):
"Í lögum má kveða á um kirkjuskipan ríkisins.
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipan ríkisins og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar. "
Sá vilji kjósenda, að hafa sérstakt ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá en láta ekki nægja að ákveða kirkjuskipan með almennum lögum er með öðrum orðum virtur þannig, að í nýju stjórnarskránni er ákvæði sem segir að kirkjuskipan megi ákveða með almennum lögum.
Þar að auki hafa þingmenn sem hvetja til þess að virtar verði niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012, þar sem samþykkt var að hafa ákvæði um þjóðkirkju í nýrri stjórnarskrá, lagt fram frumvarp, þar sem lagður er til algjör aðskilnaður ríkis og kirkju.
Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012 sagði einn helsti lögspekingur þjóðarinnar þetta um hana:
"Tæpitungulaust snerist atkvæðagreiðslan því ekki um neitt. Hér er unnið í anda sýndarlýðræðis sem er vísastur vegur til að rækta jarðveg fyrir pólitíska spillingu, þannig að hún verði stunduð í skjóli teygjanlegs lýðræðilegs umboðs sem túlka megi á hvaða veg sem er og réttlæta hvað sem er."
Myndina tók ég í Lystigarði Akureyrar