Raddnæm lyklakippa

01/30/2019


Konan mín er alltaf að týna bíllyklunum sínum. Þess vegna gaf ég henni einu sinni í jólagjöf lyklakippu sem hægt er að forrita þannig, að hún þekkir rödd eigandans og svarar þá með klingjandi bjölluhljómi.

Gjöfin vakti gleði enda bæði hagnýt og frumleg.

Síðla aðfangadagskvölds var uppþemban í meltingarfærunum eftir þungt borðhald orðin mér það óbærileg, að ég læddist fram í forstofu, lokaði hljóðlega á eftir mér og hleypti af mesta þrýstingnum með allnokkrum fyrirgangi.

Var mér óðara svarað með háværu tísti úr lyklaskálinni. Reyndist hljóðið koma frá hátæknikippunni sem þar hafði verið lögð fyrr um kvöldið eftir að eitthvað hafði verið fiktað í henni. Með tístinu var kippan að gefa til kynna, að í henni hefði verið sett af stað óafturkræft raddþekkingarferli.

Rann upp fyrir mér ægileg staðreynd. Ég var kominn í þá stöðu, að ef eiginkonan týndi bíllyklunum - sem er nokkuð algengt - yrði ég að ganga um svæðið, kallandi á lyklakippuna með þeirri þrumuraust, sem tækið hafði verið forritað til að þekkja, hvort sem við hjónin værum heima eða gestir í virðulegum samkvæmum úti í bæ.

Þannig atvikaðist það að þessi umræddu jól týndi frú Bryndís ekki bíllyklunum sínum heldur glataðist nýja lyklakippan hennar með dularfullum hætti.

Pistilinn skrifaði ég á afturenda nýjasta tölublaðs fréttablaðsins Norðurland.
Myndina tók ég í einum af mínum uppáhaldssöfnum, Smámunasafni Sverris Hermannssonar í Sólgarði í Eyjafjarðarsveit.