Rasismi á Íslandi

04/22/2022

Mikil umræða hefur átt sér stað vegna leitar lögreglu að strokufanga. Tvisvar á stuttum tíma greip hún til aðgerða gegn sama manninum eftir hafa fengið ábendingar frá fólki. Sá hafði ekkert til saka unnið nema hafa svipaðan hörundslit og fanginn sem slapp frá laganna vörðum. Mér finnst sterkur rasískur litur á þessari ótrúlegu atburðarás hvort sem hann er að finna hjá lögreglunni eða þeim sem siguðu henni á hinn saklausa mann.

Okkur Íslendingum finnst því miður á margan hátt eðlilegt að hugsa og tjá okkur á rasískum nótum og eigna fólki ákveðna eiginleika vegna uppruna þess og hörundslitar. Við segjum óhikað:

"Þú ert frá þessum stað og þá hlýtur þú að vera svona."

Ég fagnaði sumarbyrjun í sældar- og síldarbænum Siglufirði þar sem ég tók meðfylgjandi mynd. "Passi nú hver sitt, Ólafsfirðingar eru í bænum!" heyrðist þar gjarnan í gamla daga þegar nágrannarnir í þarnæsta firði brugðu sér vestur. Búrar, Fjórðungar, Kartöflur og Lerídar voru heitin sem Dalvíkingar, Ólafsfirðingar og Siglfirðingar notuðu um granna sína - ég man ekki hver fékk hvaða uppnefni. Auðvitað var þetta mest í gamni sagt en ákveðin alvara fylgdi samt, sú grunnhugsun rasismans, að uppruni þinn ákvarði hvaða mann þú hafir að geyma.

Lókalrasismi lifir góðu lífi á Íslandi. Við tölum um þau lattelepjandi í 101 og úti-á-landi-liðið. Ekki er langt síðan fjallað var um ýmis sérkenni Akureyringa í forystugrein víðlesins dagblaðs og gerði enginn athugasemdir við þann málflutning. 

Þegar sjálfsagt þykir að eigna fólki hina og þessa lesti með skírskotun til póstnúmers er ekki langt í glóbalrasismann í alheimsþorpinu okkar.