Rétturinn til að hlæja ekki

01/04/2019

Í fjölmiðlum og á netinu hafa orðið allnokkrar umræður um áramótaskaupið á RÚV eins og venjan er um þetta leyti árs. Eru skiptar skoðanir um ágæti þess og umræðan um þennan sjónvarpsþátt oft mjög lífleg. Það sýnir að þjóðinni er ekki sama um hvernig til tekst með skaupið enda er á mörgum heimilum fastur liður í dagskrá gamlárskvölds að fjölskyldan hlæi saman að því.

Ekkert ætti að vera eðlilegra og sjálfsagðara en að fólki finnist skaupið 2018 misfyndið af þeirri einföldu ástæðu að ekki hlæja allir að sömu bröndurunum. Skopskyn fólks er mjög fjölbreytilegt. Þetta virðist þó vefjast fyrir sumum ef marka má umræðuna. Þar hef ég séð ýjað að því, að hafi einhverjum ekki þótt skaupið 2018 fyndið og grínið misheppnað, hljóti að vera einhverjar annarlegar ástæður fyrir því, tepruskapur eða ólæsi á þjóðfélagslegar aðstæður. Einhver skaupfræðingur ritaði að skaupið hafi víst verið gott því grínið hafi verið "contextually rétt" eins og mig minnir að það hafi verið orðað.

Hlátur getur verið veigamikil yfirlýsing. Lífshættulegt getur verið að hlæja á röngum stöðum eða að vitlausum bröndurum. Mannkynssagan geymir líka dæmi um að varasamt getur reynst að hlæja ekki að fyndni rétta fólksins.

Öll fyndni á sér samhengi, í umhverfi okkar, aðstæðum, upplifunum, skoðunum og tilfinningum þótt ég leyfi mér að efast um að mönnum hafi tekist að finna hið eina rétta samhengi grínsins. Það er hluti af tjáningarfrelsi okkar að hlæja að því sem okkur finnst fyndið og að hlæja ekki að hinu sem okkur finnst ekkert hlægilegt.

Hlátur er félagslegt mýkingarefni. Fliss og skríkjur á mannamótum stafa ekkert endilega af því eitthvað sniðugt hafi verið sagt heldur að fólk vilji vingast - enda segja margir að í árdaga mannkyns hafi hláturinn einkum flutt þér þann boðskap, að ekki stæði til að drepa þig að þessu sinni. Það eru því að minnsta kosti tvær hliðar á þeirri speki, að hláturinn lengi lífið.

Lengi höfum við vitað að hlátur getur verið heilsusamlegur, bæði fyrir líkamann og sálina. Sannur hlátur myndast eftir öðrum taugafræðilegum boðleiðum og fyrir tilstilli annarra vöðva en uppgerðarhlátur. Þegar við hlæjum í raun og veru fylgir því vellíðan sem meðal annars stafar af því að endorfíni hefur verið dælt inn í kerfið okkar.

Gervihlátur hefur ekki sömu áhrifin og getur virkað þveröfugt því það er ekki góð tilfinning að þurfa að gera sér upp viðbrögð. Falskur hlátur sendir líka frá okkur villandi skilaboð. Ef við bregðumst til dæmis við ummælum eða framferði sem okkur finnst óviðeigandi með vandræðalegum hlátri er hægt að túlka þau viðbrögð sem samþykki og jafnvel hvatningu um að óhætt sé að ganga enn lengra.

Þess vegna eigum við ekki endilega að hlæja að því sem okkur finnst ekki fyndið, gera okkur upp hlátur til að þóknast öðrum eða kreista fram hlátur til að falla inn í hópinn. Við höfum rétt til að hlæja ekki og megum ófeimin nýta okkur hann.

Oft hef ég hlegið hjartanlega að áramótaskaupum Ríkisútvarpsins. Úr bernsku minni minnist ég þess þegar fjölskyldan engdist af hlátri í sófanum á gamlárskvöldi. Stundum hló bara pabbi eða mamma - og fyrir kom að ég hló einn. Ég hló líka stundum alveg fölskvalaust með öðrum þótt ég skildi ekki spaugið.

Áramótaskaup fyrri tíma gátu verið beitt og vel má vera, að þessi sjónvarpsþáttur sé smám saman að þróast í að verða satíra, ádeiluskop, vopn í hugsjónabaráttu.

Satíran er herská tegund kímni og getur verið svo hættuleg, að valdamenn og aðrir sem fyrir henni verða, sjái ástæðu til að grípa til varna. Satíran er alltaf beitt og undan henni svíður. Þar er að finna helsta muninn á henni og hinum pólitíska brandara. Northrop Frye, einn áhrifamesti bókmenntafræðingur síðustu aldar, benti á það einkenni satírunnar, að engin önnur tegund skops sé jafn háð því að finna hugmyndafræðilegan hljómgrunn meðal áheyrenda sinna. Satíran geri kröfu um tiltekinn hóp áheyrenda og eigi sér ekki stað nema í ákveðnu félagslegu samhengi.

Ef til vill er þar fundið það sem nefnt hefur verið "contextually rétt" í þessari umræðu.

Myndin: Þessi káti hestur varð á vegi mínum í Biskupstungum fyrir nokkrum árum.