Samkomubann

03/15/2020

Nú á miðnætti verður samkomubann með öllum þeim afleiðingum sem fylgja slíkum takmörkunum á samskiptum manna. 

Undanfarna daga höfum við ítrekað fengið að heyra að tímarnir sem við upplifum séu fordæmalausir. Það er rétt að því leyti, að okkar kynslóð hefur sennilega aldrei staðið frammi fyrir hliðstæðum úrlausnarefnum.

Fram hefur komið að fermingar séu meðal þess sem samkomubannið muni raska. Mörg ungmenni fermast ekki á deginum sem þau höfðu valið sér. Einhver kannski ekki fyrr en í haust. Fermingar eru merkilegt fyrirbæri. Hvort sem fermingin er kirkjuleg eða veraldleg felst athöfnin í flutningi á milli þroskaskeiða eða þjóðfélagshópa, samanber það orðfæri, "að komast í tölu fullorðinna manna".

Fermingar eru það sem kallað hefur verið "rites de passage", siðvenjur sem eiga að tjá einhverskonar umskipti eða þáttaskil. Þegar um er að ræða hin mikilvægu og afdrifaríku skref frá bernsku til fullorðinsára hefur mannkynið lengi talið fylgja því einhverskonar þroskaverkefni. Barnið á að sýna fram á að það geti tekist á við verkefni sem það hefur ekki staðið frammi fyrir áður. Það sé fært um að bjarga sér í krefjandi eða hættulegum aðstæðum þannig að við sem eldri erum getum róleg sleppt af því hendinni.

Goðsagan segir frá unglingnum sem sendur var til einvígis við eldspúandi dreka með sverð. Í nútímanum viljum við efla mótstöðuafl unga fólksins gegn dílerum eða öðrum sem gera út á sakleysi og einlægni ungs fólks. 

Í gamla daga barðist Davíð við Golíat með slönguvað en nú á dögum vona ég að sem flest fermingarbörn þurfi ekki að ganga í gegnum erfiðari manndómsvígslur en þær að læra utan að faðirvorið eða boðorðin tíu.

Ég veit samt að lífið mun útvega þeim allskonar eldskírnir og prófraunir. Þau munu þurfa að "ganga inn í skóginn þar sem enginn stígur er" eins og það er orðað.

Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir núna sem samfélag er ákveðin prófraun. Nú kemur í ljós hvort hið unga lýðveldi Ísland geti bjargað sér og hvort við séum þroskað, yfirvegað, skynsamt, og vel meinandi samfélag eða vanþroskaður, óstilltur, sjálfselskur og illgjarn múgur.

Ég hef fulla trú á okkur því ég tel mig þekkja mitt heimafólk. Nú skulum við standa saman og sigla í gegnum þetta óveður þannig að þau veikustu í okkar hópi komist ósködduð í höfn.

Áfram Ísland! 

Myndina tók ég í sumar ofan af hömrum girtum Vébjarnarnúpi yfir Ísafjarðardjúp. Þar ku vera fallegasta landshorn veraldar og Vetrarbrautarinnar best hlöðnu vörður .