Skólar heimsækja kirkjur

Menningararfur okkar heimshluta er fullur af tilvísunum í Biblíuna og kristna trú. Börn sem ekkert læra um þann veigamikla hluta vestrænna menningar kunna ekki að lesa menningu sína og skilja ekki stóran hluta bókmennta hennar, tónlistar, leiklistar og myndlistar. Þegar tekin er þegjandi ákvörðun um að hætta fræðslu um kristni í íslenska skólakerfinu hefur þar með verið ákveðið að uppfræða börnin ekki um mikilvæga þætti menningar okkar og samfélags.
Á síðustu árum hefur sú hefð myndast á aðventunni, að þjóðin takist á um skólaheimsóknir í kirkjur landsins. Í þeirri umræðu virðast vera tvær meginfylkingar: Annarsvegar eru þau sem telja sér og börnum sínum ógnað af áhrifamætti kirkjuhúsa, trúarrita og vígðra starfsmanna trúfélaga. Hinsvegar eru þau sem halda því fram að að kirkjur séu harla hlutlaus rými, enginn þurfi endilega að verða fyrir áhrifum af upplestri úr Nýja testamentinu, sálmasöng eða bænagjörð og að prestar séu fyrst og fremst uppfræðarar eða fagmenn í sálgæslu.
Síðarnefnda fylkingin sýnist mér jafn sannfærð um áhrifaleysi þess trúarlega og hinn hópurinn um áhrifamátt þess sama.
Þjóðkirkjan hefur markað sér stefnu um heimsóknir skóla í kirkjuhús. Í Námskrá fyrir fræðslu þjóðkirkjunnar sem lögð var fyrir kirkjuþing árið 2010 segir:
"Sé leitað eftir samstarfi við kirkjuna um einstaka þætti kristindómsfræðslunnar, svo sem vettvangsheimsóknir í kirkjur, er þátttaka starfsmanna kirkjunnar á forsendum skólans." (Bls. 21)
Þegar ég var í barnaskóla var ekki til siðs að fara í kirkju fyrir jólin. Við nemendurnir kynntumst kristilegu helgihaldi í skólanum sjálfum, sungum bæði sálma og báðum bænir. Þá var þjóðin að langstærstum hluta kristin og í þjóðkirkjunni. Þótt enn sé meirihluti þjóðarinnar kristinn fer þeim fjölgandi sem játa önnur trúarbrögð eða kjósa að standa utan trúfélaga. Þau eiga sinn rétt. Trú eða trúleysi er fólki gjarnan mikið hjartans mál. Málefnið er viðkvæmt og öllum sem um það fjalla ber að sýna virðingu, aðgát og nærgætni.
Ég er samt nokkuð viss um að rétta leiðin til þess sé ekki sú að útiloka það trúarlega úr skólanum með þeim rökum að hann eigi að vera hlutlaus og "veraldlegur". Fordómar eyðast ekki við að fjalla ekki um það sem þeir beinast að. Ranghugmyndir leiðréttast ekki með þögninni. Ég held að miklu heillavænlegra væri að gera hinn fjölbreytta og litskrúðuga heim trúarinnar sýnilegan í skólanum - að sjálfsögðu á forsendum skólans. Mín skoðun er sú, að aldrei hafi verið meiri þörf fyrir slíka fræðslu en á okkar tímum og uppeldisstarf sem miðar að því að eyða fordómum og auka umburðarlyndi íslenskrar æsku.
Stundum heyri ég spurt: Værir þú samþykkur því að þitt barn færi í mosku með skólanum sínum og hlustaði þar á ímam tala um einhverja stórhátíð sinnar trúar?
Því er auðsvarað: Já, svo sannarlega, ef það væri til þess að auka skilning barnsins á inntaki íslam og auðvelda því að lifa í sátt og samlyndi við fólk af þeim trúarbrögðum.
Væri ég þá ekkert smeykur um að barnið gæti orðið fyrir áhrifum af slíkri heimsókn?
Ég veit ekki hvort hræðsla er rétta hugtakið um það en ég geri mér grein fyrir að barnið mitt verður fyrir allskonar áhrifum úr umhverfi sínu. Ég ræð þeim ekki. Það er heilmikill boðskapur í veraldlegum jólalögum og ekki síður í jólaauglýsingunum en í jólasálmunum. Sem uppalandi get ég ekki gert meira en að kenna barninu mínu það sem ég tel vera því fyrir bestu.
Það verður síðan sjálft að vinna úr því uppeldi og öðrum áhrifum sem það verður fyrir.
Að lokum: Því er gjarnan haldið fram að jólin séu ekki kristin heldur heiðin. Það er rangt. Rétt er að tímasetning kristinna jóla er ekkert sérkristin. Jól miðast við gang sólar. Tímasetningar á öðrum stórhátíðum kristinna manna koma líka úr náttúrunni. Kristnir menn hafa á hinn bóginn lengi haldið jól, gætt þá hátíð kristnu inntaki og notað hana til að minnast fæðingar Jesú Krists. Kristnir menn fundu heldur ekki upp tónlistina. Þó hefur kirkjan aldrei án hennar verið og engum dettur í hug að halda því fram að tónlistin sé ekki kristin heldur heiðin.
Myndin er af Tjarnarkirkju í Svarfaðardal.