Staður í Grunnavík

07/17/2020


Í fyrrasumar gekk ég af Staðarheiðinni niður í Grunnavík í Jökulfjörðum. Kirkjan á Stað var fyrsta húsið sem mætti mér. Þar stóð hún undir djúpbláum himni og horfði út á heiðblátt Djúpið. Auðsýnilega naut hún góðrar umhirðu og umhyggju þótt ekki hafi hún verið sóknarkirkja síðustu rúmu hálfu öldina.

Þegar ég sá hana þarna baðaða sólskininu kom mér í huga vísa eftir prestinn sem síðastur sat Staðinn, séra Jónmund Halldórsson:

Þegar fólk við drykk og dufl
drabbar suður í löndum
saumum við okkur sálarkufl
úr sólskini norður á Ströndum.

Prestssetrið á Stað er ekki í sama góðu ástandinu og kirkjan. Gaman þótti mér að standa við það og rifja upp litla sögu sem ég las í minningum Vilmundar Jónssonar, landlæknis, sem kom hér sumarið 1920 ásamt vinum sínum Þórbergi Þórðarsyni, rithöfundi, og Finni Jónssyni, póstmeistara á Ísafirði og síðar alþingismanni. Vilmundur var þá læknir á þessum slóðum, bjó á Ísafirði en hafði brugðið sér yfir Djúpið ásamt félögum sínum til að renna fyrir silung í Staðaránni. Fengu þeir góðar móttökur og leyfi til veiða hjá presti sem hófust eldsnemma morgunin eftir að þeir tóku land í víkinni.

Þannig segir Vilmundur frá í minningum sínum:

"Eftir allgóða veiði var um hádegisbilið haldið heim að Stað og horft til hádegisverðar með nokkurri eftirvæntingu, því að matarlyst var ákjósanleg. Heima hittum við svo á, að prestur var nýkominn úr mógröf, en hafði nú búizt upp á og sat helgihaldslegur í stofu sinni. Ekki man ég, hvort hann hafi stungið um morguninn 30 hesta af mó, en öll býsn voru það. Þess lét hann þó getið, að drýgri hefðu sér orðið morgunverkin en það, því að stólræðu fullgilda hefði hann einnig samið út af guðspjalli dagsins. Man ég, að ég miklaði fyrir mér móinn meira en ræðuna. Það átti þó fyrir sér að snúast við, sem nú skal sagt verða.

Búið var borð í næstu stofu, og bjóst ég þá og þegar við kærkomnu kalli til matar. Þá lætur prestur þess getið, að útséð sé um, að fólk sæki kirkju í dag, en til þess að ekki verði þó messufall, muni hann nú lesa fyrir okkur ræðu þá, er hann hefði samið. Varð engri vörn við komið, og hóf hann lesturinn. Er það í einu orði sagt hin lengsta ræða, sem ég hef nokkru sinni setið undir, og bauðst manni þó margt síðar á alþingi. Mun hvort tveggja, að efni og efnismeðferð hafi lítt verið til þess fallin að gera tilheyrendum ræðuna styttri en hún í raun og veru var, en auk þess glamraði í borðbúnaði í næstu stofu og lystilega angandi matarilm leiddi um allar gættir."

Þetta sögubrot er ein af fjölmörgum perlum íslenskrar sagnahefðar. Ég fylltist djúpri lotningu og jafnvel helgi þegar ég var staddur á sjálfu sögusviðinu og sá þá félaga glorsoltna fyrir mér í stofunni, lesandi á bókarkili í bókaskáp prests undir hans fullgildu stólræðu en á það ráð brá Vilmundur til að halda sér vakandi og sefa hungur sitt.

Myndina af prestssetrinu á Stað tók ég í ferðinni