Thorvaldsen og kirkjulistin

08/02/2022


Skírnarfontur Akureyrarkirkju er einn merkasti gripur í hennar eigu. Hann er nákvæm eftirmynd skírnarengils Bertels Thorvaldsens í Frúarkirkju í Kaupmannahöfn. Bertel eða Albert Thorvaldsen (1770 - 1844) var virtasti myndhöggvari Danmerkur og þjóðhetja en hann starfaði um árabil í Róm. Nokkrar eftirmyndir eru til af frummynd Thorvaldsens af skírnarenglinum. Sú sem er í Akureyrarkirkju var gerð af prófessor Corrado Vigni í Flórens á Ítalíu og gefin kirkjunni árið 1952 af hjónunum Gunnhildi og Balduin Ryel.

Á vinnustofu sinni í Róm hafði Thorvaldsen tugi manna í vinnu sem sáu að mestu um handverkið undir tilsögn meistara síns sem teiknaði og hannaði listaverkin. Thorvaldsen mun þó hafa mótað skírnarengilinn í Frúarkirkju eigin höndum.

Thorvaldsen gaf Frúarkirkju fontinn árið 1839. Nokkrum árum áður gerði hann eitt sitt frægasta listaverk, Kristsmyndina yfir háaltari kirkjunnar. Margir hafa velt fyrir sér líkamsstöðu Jesú Krists í höggmyndinni þar sem hann stígur fram öðrum fæti með útbreiddan faðm. Sagan segir að Thorvaldsen það hafi vafist svo lengi fyrir Thorvaldsen hvernig hann ætti að hafa frelsarann að hann hafi verið að því kominn að gefast upp á verkinu. Þegar hann nefndi það við vin sinn vildi sá hughreysta hann, steig fram í annan fótinn og sló út höndum til áréttingar orðum sínum.


Saga er einnig til um tildrög þess að Thorvaldsen kaus að hafa skírnarengilinn krjúpandi og er hana að finna í ævisögu listamannsins sem Helgi Konráðsson, prestur á Sauðárkróki, skráði. Þar segir að upphaflega hafi engillinn átt að vera standandi í kórdyrum kirkjunnar en Thorvaldsen hafi óttast, að þá skyggði hann á Kristsmyndina sem var á sínum stað þar fyrir innan. Því hafi hann brugðið á það ráð að hafa láta engilinn krjúpa með skírnarskálina. Myndin skyggir ekki á Krist heldur leiðir athyglina að honum.

Standandi útgáfu skírnarengilsins má sjá á Thorvaldsensafni í Kaupmannahöfn.

Í kristinni myndlist hefur skírnin lengi verið tengd englum og skelin hefur augljósa tengingu við vatnið. Á heimasíðu Frúarkirkju í Kaupmannahöfn er þess einnig getið, að eins og samlokuskeljar geti geymt fagrar perlur færi engillinn okkur hina dýrmætu gjöf skírnarinnar. Gömul hefð líkir Maríu við skelina sem geymir perluna Jesú.

Vonandi finna allir skírðir menn perluna sem skírn þeirra getur gefið.

Bertel Thorvaldsen átti íslenskan föður, Skagfirðinginn Gottskálk Þorvaldsson. Hann lærði tréskurðarlist í Kaupmannahöfn og kynntist þar móður Bertels, Karen Degnes, frá Jótlandi. Um svipað leyti og Thorvaldsen meitlaði skírnarengilinn í marmara á vinnustofu sinni í Róm vann hann að gerð annars skírnarfonts sem skyldi vera gjöf til ættarlands hans í ræktarskyni, eins og hann letraði á eina hlið fontsins. Það listaverk komst loks á sinni áfangastað í Dómkirkjunni í Reykjavík árið 1839. Þá var Jónas Hallgrímsson staddur hér á landi og orti kvæðið Þökk Íslendinga til Alberts Thorvaldsens. Það endar á þessum erindum:


Albert Thorvaldsen

ættjörðu gaf;

hve skal ættjörð hans

Alberti þakka?

Breiðar eru bárur

að borgum fram,

frændinn fjarlægur

feðra láði.


Þá væri launað,

ef þú líta mættir

ásján upp lyfta

ungrar móður,

þar sem grátglaður

guði færir

barn sitt bóndi

að brunni sáttmála.


Þarna er nú heldur betur fagurlega meitlað í skjöld Braga.

Heimildir:

Bertel Thorvaldsen. Skráð hefur Helgi Konráðsson prestur á Sauðárkróki, Reykjavík 1944

Saga Akureyrarkirkju eftir Sverri Pálsson, Akureyri 1990

Thorvaldsen við Kóngsins nýjatorg. Endurminningar um daglegt líf Alberts Thorvaldsens eftir einkaþjón hans, Carl Frederik Wilckens. Umsjónm og þýðing: Björn Th. Björnsson, Reykjavík 1978

Heimasíður Dómkirkjunnar í Reykjavík, Frúarkirkju í Kaupmannahöfn og Þjóðminjasafns Íslands

Myndina af skírnarenglinum í Akureyrarkirkju tók síðuhaldari en hin er af Wikimedia Commons