Þöggun með skítkasti og hótunum

11/20/2019



Þýsk fjölmiðlaumræða er á margan hátt frábrugðin íslenskri. Þar er til dæmis ekki óalgengt að fólk sé kallað til þátttöku sem býr yfir sérfræðikunnáttu á umfjöllunarefnunum eða hefur reynslu af þeim. Þótt Þjóðverjar séu mörgum sinnum fleiri en Íslendingar er það ennfremur sláandi hversu miklu meiri fjölbreytni er í vali á viðmælendum þar en hér. Í íslenskum fjölmiðlum eru gjarnan sömu gömlu álitsgjafarnir kallaðir til að tjá sig um atburði líðandi stundar.  Þeir hafa hver fyrir sig sömu gömlu og fyrirsjáanlegu skoðanirnar. Grunur minn er sá að stór hluti þeirra komi úr sama póstnúmerinu.

Nýlega sá ég mjög athyglisverðan umræðuþátt á þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF þar sem verið var að ræða pólaríseringu í þýsku samfélagi, uppgang hægri öfgaafla, grimmd og ósvífni í umræðunni og hættuna á terrorisma. Meðal þeirra sem tjáðu sig í þættinum voru Martin Dulig, ráðherra sósíaldemókrata í Saxlandi, og Stefan Aust, fyrrverandi ritsjóri fréttatímaritsins Der Spiegel og útgefandi þýska stórblaðsins Die Welt.

Dulig hefur miklar áhyggjur af þeirri þróun í þýsku samfélagi sem að ofan er lýst. Mikil heift sé hlaupin í umræðuna og á samfélagsmiðlum leyfi fólk sér að segja ótrúlega hluti um stjórnmálamenn. Hann segist oft hafa fengið hótanir vegna afskipta sinna af stjórnmálum og fjölskylda sín hafi líka orðið fyrir barðinu á þeim sem hafa horn í síðu hans. Stundum sé hann óttasleginn og börnin hans og kona líka. Hann sé þó ráðherra í einu sambandsríkjanna og njóti verndar sem slíkur en Dulig segir ýmsa aðra stjórnmálamenn á neðri stigum stjórnsýslunnar ekki búa við það. Vinkona hans, sem var borgarstjóri í lítilli borg í Saxlandi, sagði til dæmis nýlega af sér vegna þess að fjölskyldan þoldi ekki lengur álagið og umræðuna. Dulig sagði ekki kræsilegt fyrir fólk sem vildi láta gott af sér leiða fyrir samfélagið að taka að sér ábyrgðarstöður. Að sjálfsögðu verði allir stjórnmálamenn að þola gagnrýni, stundum harða og jafnvel ósanngjarna, en persónulegar svívirðingar, skítkast og ofbeldi sé annað mál. Verði slíkt talið sjálfsagt í almennri umræðu muni það leiða til þess að sómakært fólk veigri sér við að fara út í stjórnmál. Þá sitjum við uppi með stjórnmálamennina sem hafa þykkasta skrápinn og spurning hvort það sé eftirsóknarvert.

Að því beri einnig að hyggja, sagði Dulig, að þessi þróun komi ekki bara niður á þeim sem taka þátt í stjórnmálum. Allir sem voga sér að taka afstöðu eiga á hættu að vera hrópaðir niður. Þannig þöggunarómenning sé hættuleg lýðræðinu.

Stefan Aust hefur mikið fjallað um terrorisma í störfum sínum og ritað bækur um efnið. Hann sagði það eitt einkenni hryðjuverkamanna, að þeir réttlættu ofbeldisverk með því að segjast vera að framkvæma þjóðarvilja. Aust segist því alltaf taka þeim með varúð sem telji sig tala fyrir munn þjóðarinnar. 

Hann benti ennfremur á, að þegar byrjað væri að kalla fólk ónefnum á opinberum vettvangi gæti tilgangurinn verið sá, að svipta það mennskunni. Auðveldara væri að beita þau ofbeldi sem ekki nytu lengur mannhelgi og ættu ekki lengur skilið að kallast manneskjur.

Myndina tók ég nú í haust á Arnarnesi í Eyjafirði