Týnda listaverkið á Akureyri

02/15/2019


Sumarið 1974 gáfu hjónin Guðmundur Jörundsson, útgerðarmaður, og eiginkona hans, Marta Sveinsdóttir, Akureyringum listaverkið "Harpa bænarinnar" eftir Ásmund Sveinsson, myndhöggvara. 

Við afhjúpun verksins flutti Guðmundur ávarp, þar sem hann sagði m. a. frá tildrögum þessarar höfðinglegu gjafar:

"Góðir Akureyringar.

Erindi mitt og konu minnar til þessa bæjar í dag er að afhenda yður vinargjöf. Það er stytta gerð af Ásmundi Sveinssyni myndhöggvara, en stækkuð og útfærð af þeim Jóhanni Ólafi Jónssyni og Brandi Þorsteinssyni járnsmiðum í Hafnarfirði.

Ég þykist vita, að mörgum yðar séu nú efst í huga þær tvær spurningar: Hvað táknar þessi stytta og hver er tilgangurinn með henni?

Fyrri spurningunni svara ég á þann veg, að hver og einn vegfarandi verði sjálfur að nota sitt hugmyndaflug og efast ég ekki um, að fram muni koma margar mismunandi tilgátur. Mér kemur til hugar ein skemmtileg, en þó fjarstæðukennd hugmynd, sem til varð, þegar tveir fyrrgreindir járnsmiðir voru að leggja síðustu hönd á smíði styttunnar í smiðju sinni í Hafnarfirði. Bar þar að tvo gamla menn, sem röltu kringum styttuna og spurðu síðan: "Er þetta nú nýja beitingavélin?" Járnsmiðirnir kváðu já við því.

Hins vegar minnist ég þess, þegar listamaðurinn sjálfur hafði lokið nokkrum hringferðum umhverfis styttuna, þá varð honum að orði: "Heyrðu góði, það verður stoppað og horft á þessa mynd miklu fremur en ef hún hefði verið af manni í rykfrakka."

Síðari spurningunni um tilganginn með þessari styttu mun ég nú leitast við að svara, þótt ég gangi út frá því sem vísu, að hjá einhverjum yðar muni Tómasareðlið ráða meiru en trúin á dulræn fyrirbæri, sem oft hafa orðið mér kærkomin reynsla, en eitt slíkt liggur að baki þeirrar styttu, sem hér stendur. Langar mig að segja yður frá því í stuttu máli:

Um miðnætti kvöld eitt í júlfmánuði 1958 var ég einn á ferð í bíl mínum á leið austan f rá Laxá í Þingeyjarsýslu áleiðis til Akureyrar. Það var stillilogn, frábært skyggni og miðnætursólin skartaði sínu fegursta. Ég stöðvaði bílinn á Vaðlaheiðarbrún að vestan. Gekk norður fyrir vegarkantinn, þar sem hæst ber og útsýni inn og út Eyjafjörðinn er fegurst. Ég settist á stóran stein og horfði til hafs og himins. Slíka fegurð hefi ég aldrei augum litið fyrr eða síðar. Í hrifningu minni varð ég þess var, að einhver vera stóð við vinstri hlið mér. Áhrifin frá henni voru unaðsleg. Ekki var um að villast, þar var einhver kraftmikill á ferðinni. Margoft á sumri lögðum við hjónin leið okkar síðla kvölds upp á Vaðlaheiðarbrún þau ár, sem við áttum eftir að búa á Akureyri. Oftast nær varð ég þar einhvers var, en þó ekki alltaf. Löngun mín óx stöðugt til þess að fá að vita, hvað væri þarna á ferðinni, en allt kom fyrir ekki, ég varð engu nær.

Árin liðu þar til haustið 1960 að ég upplifði einkennilegan atburð, sem of langt mál væri að lýsa. Eitt sinn, þegar ég kom á Vaðlaheiðarbrún sá ég afar stóra, fagra veru, sem birtu stafaði út frá. Hún rétti upp hendurnar í formi blessunar í stefnu út yfir fjörðinn. Þau einu orð, sem ég náði að skynja án þess að vita hvaðan, voru þessi: "Verndarvættur Eyjafjarðarbyggða", og í sömu andrá hvarf sýnin. Í mörg ár leitaði ég að einhverju listaverki, sem væri í skyldleika við sýn mína og táknað gæti eitthvað svipað. Sú hugsun lét mig ekki í friði.

Fyrir tveimur árum kom ég inn í sýningarsal Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara. Tók hann mig með sér eina ferð um salinn og útskýrði listaverkin. Allt í einu beindist öll athygli mín að styttu einni, sem áþreifanlega minnti mig á "verndarvættina" forðum. Ég spurði Ásmund um uppruna þessarar styttu og hvað hefði orðið til þess, að hann skapaði hana. "Það skal ég segja þér góði," svaraði Ásmundur: "Kvöld eitt var ég að hugsa um það, hvaða Íslendingar mundu fyrr og síðar hafa verið bænsterkastir. Fyrst kom í huga minn síra Matthías Jochumsson, síðan Guðmundur góði og Jón biskup Arason. Greip þá um sig löngun hjá mér til að gera mynd, sem táknaði bænarorkuna, bilið milli Guðs og manns." Myndin varð til og hlaut nafnið "Harpa bænarinnar".

Síðan varð það að ráði á milli listamannsins og mín, að ég fengi listaverkið og léti stækka það 4 sinnum og ennfremur, að það skyldi smíðað úr málmum, sem tímans tönn léti í friði. Hér stendur nú þessi stytta í réttri stærð og hefur hlotið veglegan sess. Í minni vitund er hún tákn fyrrgreindrar verndarvættar Eyjafjarðarbyggðar og þá fyrst og fremst höfuðstaðar Norðurlands, Akureyrarbæjar."

(Morgunblaðið, 25. 7. 1974)

Upphaflega vildi Guðmundur að listaverkinu yrði valinn staður þar sem hann sá sýnina, á gamla veginum yfir Vaðlaheiði en bæjaryfirvöld lögðu til að því yrði komið fyrir í nýjum útivistargarði sem þá var verið að fullgera á svonefndu Hamarkotstúni á milli Þórunnarstrætis og Byggðavegar. Þar hefur það staðið síðan. Fyrstu árin naut það sín prýðilega en smám saman hækkuðu trén í garðinum. Langt er síðan þau eru orðin það há, að Harpa bænarinnar er engum sýnileg nema þeim sem leið sína leggja um Hamarkotstún. 

Árið 2000 birtist í Akureyrarblaðinu Degi frétt um úttekt, sem þeir Ingólfur Ármannsson, menningarfulltrúi, og Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafns Akureyrar, gerðu á styttum bæjarins. Í fréttinni kemur fram, að Harpa bænarinnar standi nokkuð afsíðis og að sumri til skyggi "gróður nokkuð á hana nema menn séu hreinlega komnir inn í garðinn þar sem hún stendur". Undir mynd af Hörpunni stendur: 

"Sumir kalla hana falda listaverkið á Akureyri."

Óþarft ætti að vera að benda á að trjágróðurinn á Hamarkotstúni hefur ekki lækkað á þeim tæplega tuttugu árum sem liðið hafa frá því að hann fékk óáreittur að vaxa yfir eitt merkilegasta listaverk í eigu Akureyringa eftir einn fremsta myndhöggvara þjóðarinnar.

Margoft hefur verið bent á að þessum dýrgrip sé lítill sómi sýndur með því að hafa hann á núverandi stað, hulinn trjágróðri á alla kanta. Hafa komið fram hugmyndir um að færa listaverkið þangað þar sem það yrði aðgengilegra og meira áberandi. Lágmarkskrafan hlýtur að vera sú, að umhverfi verksins sé lagað og aðgengi bætt, til dæmis með merkingum og bílastæðum fyrir ferðafólk.

Núverandi umhverfi Hörpu bænarinnar er okkur Akureyringum til skammar.

Myndina tók ég áðan af listaverkinu. Það gula sem glittir í aftan við stöpulinn er ein karfa frisbígolfvallar sem af skemmtilegri smekkvísi hefur verið settur upp umhverfis Hörpu bænarinnar. Þeir sem finna verkið og hyggjast eiga þar hljóða stund geta því átt á hættu að fá frisbídisk í hausinn ef þeir gá ekki að sér.