Upp á Sigurhæðir

11/12/2019Þann 1. desember árið 1902 kom út 3. tölublað 1. árgangs bæjarblaðsins Gjallarhorns á Akureyri. Efnið var fjölbreytt þótt ekki væri það nema fjórar síður: þar var rituð innblásin grein gegn hvalveiðum, sagt frá húsbruna á Húsavík og boðuð frumsýning leikfélags staðarins á verkinu Drengurinn minn. "Margir af leikendunum er sagt að muni leika mjög vel," segir blaðið. Á baksíðu er tilkynnt um andlát bónda á Svalbarðsströnd sem á gamals aldri vorið 1900 fór til Ameríku til að "sjá sig um í veröldinni". Heppnaðist sú ferð vel að sögn blaðsins. Heim kom hann aftur og bjó myndarbúi á ströndinni þangað til hann lést. Í blaðinu auglýsir Jóhann Vigfússon trosfisk og Perfekt skilvindu, konsúll Havsteen vel skotnar rjúpur og hreint smjör og verslun Gudmanns Efterfölgere kornmat og lampa sem komu til landsins með Ingeborg.

Þar er ennfremur þessi pistill í þeim glettna tóni sem enn einkennir slík skrif íslenskra blaðamanna:

"Sjera Matth. Jochumsson ráðgerir að byggja íbúðarhús á næsta vori og hefur valið sér hússtæði uppi á brekkunni sunnan og ofan við Bergsteinshúsið. Það verður í fangið að að sækja »upp á sigurhæðir«, fyrir þá, sem heimsækja hann eftirleiðis, og þeir munu, eins og að undanförnu, verða nokkrir."

Í ævisögu sr. Matthíasar eftir Þórunni Erlu Valdimarsdóttur, sem heitir einmitt Upp á sigurhæðir, kemur fram að þær hæðir séu hvorki uppnefni né uppfinning Gjallarhorns. Heitið sóttu blaðamaðurinn og síðar Þórunn Erlu í Íslandsvísur Matthíasar sem skáldið orti í Lundúnum á gamlárskvöld árið 1873.

Síðar sagði höfundur þjóðsöngs Íslendinga vísurnar vera það besta sem hann hefði ort.

Ein Íslandsvísan er svona:


"Hræðst þú ei, þótt börðin breið

blóðugir skeri þræðir;

ógurleg er andans leið

upp á sigur-hæðir."


Matthíasi leiddist þessi sigurhæðahótfyndni í skrifum Gjallarhorns og tók þannig til orða í sendibréfi að blaðamaðurinn megi hafa skömm fyrir nafngiftina.

Tæpu ári eftir að Sigurhæðir voru fyrst nefndar á nafn í bæjarblaðinu flutti skáldið inn í nýbyggt húsið með fjölskyldu sinni, börnunum og eiginkonunni, Guðrúnu Runólfsdóttur, sem "er auðvitað á bak við húsbygginguna eins og önnur praktísk mál fjölskyldunnar" eins og ævisöguritari Matthíasar orðar það. Fram að þeim tíma var heimili þeirra í gamla prestshúsinu í Fjörunni.

Matthías hafði hætt prestsskap aldamótaárið 1900.

Nýbyggingin var prýdd nýjum húsgögnum. Þeirra á meðal var skrifborð sem Akureyringar gáfu þjóðskáldinu.

Smám saman tók Matthías húsið og nafnið í sátt.

Undanfarnar vikur hafa menn skeggrætt um þetta hús. Það er mörgum hjartfólgið. Þótt ekki sé greiðfært að því er það reist af þjóðskáldi og fyrsta heiðursborgaranum á Akureyri. Þar að auki er húsið áberandi þáttur bæjarmyndarinnar þar sem það lúrir undir Akureyrarkirkju, einu helsta kennileiti bæjarins.

Síðasta tæpa aldarfjórðunginn hef ég horf niður til Sigurhæða út um gluggann á skrifstofu minni í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju. Ég bý því yfir ákveðinni sérfræðiþekkingu á tíðindaleysinu í Sigurhæðum. Sjaldan sést þar maður á ferli þótt næmt fólk kunni að sjá glampa á rúðunum sem gæti verið skáldið að ganga um gólf í þungum þönkum eða að skrifa niður það sem við elskum það fyrir við skrifborðið sitt sem við gáfum því.

Sagt er að aðgengi að húsinu sé afleitt. Það er að hluta til rétt enda er andans leið ógurleg þangað upp. Sigurhæðir standa í hlíðum brattrar brekku eins og nafnið gefur til kynna en hitt er ekki síður satt að húsið er í næsta nágrenni við eina fjölförnustu gönguleið á Akureyri, kirkjutröppurnar.

Tröppurnar eru vissulega ekki öllum færar en við sem vinnum við efri enda þeirra vitum vel að ferðamenn leggja oft mikið á sig til að ganga þær. Það gæti til dæmis átt við um eldri hjónin sem sjá kirkjuna blasa við þegar þau sigla inn á Pollinn á skemmtiferðaskipi og fá þá hugdettu, að gaman væri að rölta upp að henni. Það sama væri hægt segja um ungu stúlkuna sem stígur út úr strætó við Hof, fær sér kaffi og tertu á Bláu könnunni og gengur léttfætt tröppurnar á leiðinni upp í Lystigarð.

Sigurhæðir, hús þjóðskáldsins og fyrsta heiðursborgara Akureyrar, er á þeim slóðum sem vinsælastar eru á meðal gesta bæjarins. Þar liggja möguleikar hússins. Við eigum að líta á Sigurhæðir sem hluta af þessu mikla ferðamannasvæði. Það samanstendur af kirkjutröppunum, Sigurhæðum og Akureyrarkirkju. Við getum gert margt til að bæta þetta svæði. Þar vantar til dæmis ýmsa aðstöðu. Þau sem vildu setjast niður og fá sér örlitla hressingu eftir að hafa klifið brattar tröppurnar eiga ekki kost á slíku; engin salernisaðstaða er fyrir hendi á þessum fjölsótta stað; mjög takmarkaðir möguleikar til að selja eða kaupa eitthvað til minningar um þessa heimsókn eða koma á framfæri fræðslu um kirkjuna og sr. Matthías.

Vel má vera að það séu skýjaborgir en ég sé fyrir mér endurgerð á stígnum frá tröppunum að Sigurhæðum. Kannski má koma þar fyrir minnisvörðum, listaverkum eða upplýsingaskiltum? Má starfrækja lítið kaffihús með snyrtingum í Sigurhæðum eða í hliðarbyggingu? Mætti útbúa einhverskonar tengingu á milli kirkjunnar og hússins og gera þeim kleift að heimsækja Sigurðhæðir sem hafa skerta hreyfigetu?

Á næsta ári verða 100 ár liðin frá því að sr. Matthías varð gerður að heiðursborgara Akureyrar - og heiðursdoktor í guðfræði við Háskóla Íslands. Vel væri við hæfi að minnast þeirra tímamóta með því að semja áætlun um endurreisn Sigurhæða. Allir Akureyringar, stofnanir bæjarins, félög, fyrirtæki og einstaklingar, ættu að sameinast um það verkefni - og þjóðin öll.

Þjóðskáldið sr. Matthías á það inni hjá okkur.

Ritað á afmælisdegi hans, 11. 11. 2019.