Upphaf siðmenningar

Ég rakst á þetta á netinu:
Bandaríski mannfræðingurinn Margaret Mead (1901-1978) var fumkvöðull í sínu fagi.
Sagan segir að eitt sinn hafi nemandi hennar spurt hana hvað hún teldi vera fyrstu vísbendingar um siðmenningu í fornum samfélögum mannsins.
Spyrjandinn átti von á að í svarinu yrði rætt um fiskiöngla, leirpotta eða hverfisteina.
Mead minntist ekkert á það heldur sagði að fyrstu vísbendingar um siðmenningu í fornum samfélögum mannsins væri brotinn lærleggur manneskju sem hefði náð að gróa.
Til að skýra svar sitt benti mannfræðingurinn á að í dýraríkinu hefði það að lærbrotna í för með sér óhjákvæmilegan dauða. Dýr með brotinn ganglim gæti ekki flúið hættu, gengið niður að ánni til að drekka eða veitt sér til matar. Það væri ákjósanleg bráð rándýra. Ekkert fótbrotið dýr lifði af nógu lengi til að brotið næði að gróa.
Brotinn lærleggur manns sem hefði náð að verða heill er sönnun þess að einhver hefði tekið sér tíma til að vera með þeim sem slasaðist, búið um brotið, stutt og borið hina meiddu manneskju, komið henni í öryggi og annast hana þangað til hún jafnaði sig.
Siðmenningin hófst þegar fólki í erfiðleikum var hjálpað, sagði Mead.
Myndina tók ég í kirkjugarðinum á Naustahöfða á Akureyri. Siðmenningin birtist meðal annars í því hvernig við kveðjum þau sem deyja og búum um þau.