Varið ykkur á jólahlaðborðunum!

12/08/2018

Mörg undanfarin ár hef ég stundað líkamsræktarstöð hér í bæ, hlaupið á brettum og lyft lóðum eða jafnvel tekið harðaspretti á brettunum með lóðin í orrustunum við aukakílóin alræmdu.

Aðstaðan á stöðinni er til fyrirmyndar. Þar eru til dæmis sjálfvirkar sturtur sem eiga að fara í gang þegar þær nema hreyfingu undir sér. Sú tækni er reyndar langt frá því að vera óbrigðul.

Því sjást oft sveittir karlar stíga regndans með uppréttar hendur undir sturtunum til að töfra úr þeim sárþráðar vatnsbunur. Geta þau tilþrif orðið harla þokkafull hvort sem um er að ræða stífrökuð vöðvabúnt eða kafloðna ístrubelgi.

Einn desembermánuð fyrir nokkru komst ég sjaldan í ræktina því ég var annaðhvort á jólahlaðborðum eða að jafna mig eftir átið. Þegar þeirri törn lauk tóku við sjálfar hátíðirnar með öllum þeirra glæstu veislum.

Strax eftir áramótin tók ég upp þráðinn aftur og mætti glaðbeittur í ræktina. Ég hljóp og lyfti af kappi og gekk síðan löðursveittur og sáttur til baðsins.

Fljótlega rann þó upp fyrir mér, að ég hefði sennilega verið full djarfur við krásirnar síðustu vikurnar því um leið og ég birtist í víðri gátt sturtuklefans tóku sturturnar við sér allar sem ein og sprændu fagnandi úr sér vatninu.