Varúð! Fasismi!
Madeleine Albright var utanríkisráðherra Bandaríkjanna í forsetatíð Clintons og fyrsta konan til að gegna því embætti. Nú er hún fræðimaður og kennir alþjóðasamskipti við bandarískan háskóla. Í fyrra sendi hún frá sér bókina Fascism. A Warning. Þar fjallar hún m. a. um söguglegar birtingarmyndir fasismans. Hann var áberandi á síðustu öld í okkar heimshluta með skelfilegum afleiðingum. Enn eru fasísk öfl að verki, bæði í Evrópu og víðar, og Albright telur fulla ástæðu til að vara við þeim.
Enga eina og klára skilgreiningu á fasisma er að finna í bókinni en með hverri síðu skýrist myndin af honum. Fasistar tala gjarnan fyrir munn þjóðarinnar. Þeir komast til valda með því að ala á óánægju og grafa undan trausti á helstu stofnunum lýðræðisins. Þeir þrífast á reiði og mannhatri og stjórna með ógn og hótunum.
Albright er einlægur lýðræðissinni. Hún viðurkennir þó að það stjórnarform sé að mörgu leyti gallað og oft seinvirkt. Lýðræðiskjörnir leiðtogar geta verið mistækir.
Undir lok bókarinnar segir Albright að enda þótt ekki sé hægt að búast við alvitrum leiðtogum sé mikilvægt að hlusta vel á hvernig þeir tali til okkar.
Ég held að við Íslendingar þurfum að vara okkur á fasismanum og ábendingar Albright eigi erindi við okkur eins og aðra. Þær hljóða þannig í lauslegri þýðingu:
"Höfða þeir til fordóma okkar með því að gefa í skyn að ekki sé ástæða til að koma fram af virðingu og háttvísi við þau sem ekki eru af sama þjóðerni, kynþætti og við eða aðhyllast ekki sömu trú eða stjórnmálaskoðanir og við?
Næra þeir reiði okkar í garð þeirra sem við teljum að hafi gert okkur rangt til, strá salti í sárin og beina athygli okkar að hefnd?
Hvetja þeir okkur til að fyrirlíta stofnanir samfélagsins og kosningakerfið?
Reyna þeir að skemma trú okkar á helstu stoðum lýðræðisins, svo sem frjálsum fjölmiðlum og faglegu dómskerfi?
Færa þeir sér í nyt þjóðfánann eða önnur tákn föðurlandsástar í þeim meðvitaða tilgangi að æsa okkur upp á móti hvert öðru?
Viðurkenna þeir ósigur sinn í kosningum eða halda því fram án raka að þeir hafi unnið sigur?
Falast þeir eftir atkvæðum okkar með því að miklast af getu sinni til að leysa hvern vanda, frelsa okkur frá hverskonar kvíða og mæta öllum okkar þörfum?
Sækjast þeir eftir húrrahrópum með því að tala frjálslega og af uppblásinni mikilmennsku um að beita ofbeldi til að uppræta óvini?
Bergmála þeir viðhorf Mussolinis sem sagði að óþarfi væri að upplýsa lýðinn, hann ætti bara að treysta sér og fylgja?
Eða bjóða þeir okkur að hjálpa sér við að byggja upp heilbrigt þjóðfélag og viðhalda því, þar sem réttindum og skyldum er útdeilt af sanngirni, samfélagssáttmálinn virtur og allir hafa tækifæri til að láta sig dreyma og vaxa?
Svörin við þessum spurningum segja okkur ekki hvort leiðtoginn sem í hlut á sé til vinstri eða hægri, íhaldssamur eða frjálslyndur - eða í bandarísku samhengi Demókrati eða Repúblikani.
Þau geta á hinn bóginn sagt okkur margt mjög mikilvægt um þau sem vilja leiða okkur og ennfremur ýmislegt um okkur sjálf.
Og fyrir þau sem unna frelsinu geta svörin verið áríðandi vísbendingar um ógn eða styrk."
(Myndina tók ég í Héðinsfirði)